Fræðsla um kynferðisbrot
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir að bera fram þessa fsp. og vekja athygli á þessum málum. Það hefði auðvitað verið æskilegra að mér hefði verið gefinn kostur á því að svara henni fyrr þannig að hv. alþm. hefðu getað séð og heyrt svör allra ráðherranna í samhengi. Þess var því miður ekki kostur.
    Í fyrsta lagi spyr hv. 6. þm. Reykv.: ,,Hefur verið skipulögð sérstök fræðsla á vegum menntmrn. um kynferðisafbrot, áhrif þeirra á brotaþola, fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slíkum brotum og meðferð þeirra?``
    Svarið er þetta: Á síðasta ári var skipaður starfshópur á vegum menntmrn. til að gera tillögur um hvernig mæta megi illri meðferð á börnum, sérstaklega á grunnskólaaldri, ekki síst kynferðislegri misnotkun. Hópurinn skilaði tillögum sl. haust og eru þar m.a. gerðar tillögur um hvernig fara skuli með slík mál sem uppgötvast í grunnskólum og að skipuleggja fræðslu til að starfsfólk grunnskóla þekki einkenni á börnum sem sæta illri meðferð og hvernig bregðast skuli við. Þar var ekki síst verið að huga að sifjaspellsmálum.
    Einnig lagði hópurinn til að stofnaður yrði sérstakur starfshópur á vegum ráðuneytisins til að skipuleggja kennslu og námsefni fyrir:
    1. Kennaranema, þannig að kennsla um barnaverndarmál verði fastur liður í námi kennaranema í Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og víðar.
    2. Starfandi kennara og annað starfsfólk skólanna. Gert er ráð fyrir að boðið verði upp á námskeið á þessu sviði, m.a. fyrir starfsfólk einstakra skóla eða fræðsluumdæma.
    3. Námsefni fyrir börn í grunnskóla.
    Þessi starfshópur verður myndaður núna á næstunni og er enn þá beðið eftir tilnefningum í hann frá örfáum aðilum.
    Í nýrri aðalnámsskrá grunnskóla sem var gefin út sl. vor, 1989, er sérstakur kafli um kynfræðslu á bls. 175. Þar segir m.a.: ,,Markmið kynfræðslu eru einkum að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir, kynsjúkdóma og kynferðislegt ofbeldi.``
    Nú er að hefjast tilraunakennsla á nýju kynfræðslunámsefni fyrir efstu bekki grunnskóla er ber titilinn ,,Lífsgildi og ákvarðanir``. Þar er lögð mikil áhersla á að kenna nemendum að standa gegn kynferðislegri áreitni, að virða hvert annað og að greina á milli jákvæðrar og neikvæðrar snertingar. Ákveðin gildi eru lögð til grundvallar námsefninu. Þau eru: Jafnrétti kynja, félagslegt jafnrétti, heiðarleiki, virðing, ábyrgð, sjálfsstjórn og orðheldni.
    Allt sem hér hefur verið nefnt beinist að börnum á grunnskólaaldri. Ætlunin er að beina kröftunum að þeim aldurshópi fyrst og fremst um sinn en síðan mun ráðuneytið fyrir sitt leyti leggja áherslu á leikskóla- og framhaldsskólastigið þegar nokkur reynsla er fengin af þeirri vinnu sem nú er í gangi á grunnskólastiginu.
    Þess má geta að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, hefur sinnt þessum málum að eigin

frumkvæði eins og kunnugt er.
    Í öðru lagi spyr hv. 6. þm. Reykv.: ,,Hefur menntmrh. í hyggju að beita sér fyrir því að slík fræðsla verði
    a. hluti af grunnnámi heilbrigðisstarfsfólks og lögreglumanna,
    b. hluti af reglubundinni endurmenntun þessara starfsstétta,
    c. hluti af skyldunámi í framhaldsskólum?``
    Mitt svar er það að ég tel að það sé skylda menntmrh. að sinna öllum þessum málaflokkum sem hér eru nefndir. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Við höfum lagt megináherslu á að sinna grunnskólaþættinum eins og ég hef hér rakið. Auk þess er það þannig að fagmenntun lögreglumanna er ekki á vegum menntmrn., eins og hv. alþm. er kunnugt. Fagmenntun heilbrigðisstarfsfólks, þ.e. lækna og hjúkrunarfræðinga, fer hins vegar fram í Háskóla Íslands og sjúkraliðanám er kennt í fjölbrautaskólunum.
    Þar sem starf að þessum málum í menntmrn. hefur aðallega beinst að grunnskólanemendum hefur ekki enn þá verið haft samband við læknadeild Háskólans og námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands. Hins vegar er skólahjúkrunarfræðingur með í starfshópi þeim sem núna er að hefja störf og starfshópurinn verður beðinn um að hafa samband við þær deildir í Háskóla Íslands sem mennta heilbrigðisstéttir og enn fremur við aðra skóla þar sem heilbrigðisstéttir eru við nám, eins og t.d. fjölbrautaskólana.
    Hv. þm. spyr einnig sérstaklega um framhaldsskólana og að þeim málum verður unnið með þeim hætti sem ég hef hér lýst.
    Ég tel satt að segja að vinnubrögð stjórnkerfisins í þessum málum öllum séu til vansa og þau lýsi stjórnkerfinu ákaflega vel í raun og veru. Það er eitt ráðuneyti sem hefur þetta verkefni, sem heita menntamál, annað hefur heilbrigðismál og þriðja hefur félagsmál og fjórða hefur dómsmál o.s.frv. Og menn vinna í þessum ráðuneytum á grundvelli laga sem eru lögð til ráðuneytanna. Menn gera mjög lítið að því að vinna þvert á ráðuneyti, þverfaglega, mjög lítið að því. Þess vegna lendir málaflokkur af þeim toga sem
hv. 6. þm. Reykv. hefur gert hér að umtalsefni, og oft áður í fyrirspurnatímum, í raun og veru á milli og týnist nema einhver sé til sem rekur á eftir stjórnkerfinu að vinna sín verk. Þetta kemur mjög víða fram, t.d. í þjónustu við unglinga, svo ég nefni dæmi, þar sem um er að ræða skyldur mjög margra ráðuneyta en samvinna þeirra er lítil sem engin.
    Það er umhugsunarefni nú á tímum þegar við erum að fjalla um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands hvað má gera til þess að þessi slys eigi sér ekki stað aftur og aftur og aftur.