Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans svar. Mér er ljóst að hann hefur nú þegar hert tökin á því að skipulega verði að þessum málum staðið. Ég tel gjörsamlega óverjandi annað en að þessum rannsóknum verði hraðað og ég ítreka það að ég tel eðlilegt að leitað verði eftir samstarfsaðila. Og ég undirstrika það sérstaklega sem fram kom í hans máli að ef hin þykku setlög út af Axarfirði ná undir þetta landsvæði þá gæti rannsókn á þessu svæði líka haft mikið forsagnargildi um líkurnar á því að olía væri undan ströndinni. Þess vegna er hér ekki verið að tala um litla hluti. Hér er e.t.v. verið að tala um stærri auðlindir en nokkrar aðrar sem þetta land hefur upp á að bjóða. Við höfum einfaldlega ekkert kannað þetta og vitum þess vegna ekki hvaða möguleikar eru til staðar.