Þróunarsjóður lagmetis
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem er vissulega athyglisverð og einnig fannst mér svar hæstv. ráðherra athyglisvert þar sem hann í raun skoraðist undan því að svara fyrirspurninni. Það er minn skilningur að þegar forsetar Sþ. hafa leyft fyrirspurn sé það jafnframt skilyrði að ráðherra sé kleift að svara henni, hann hafi möguleika á því og reyndar beri að svara henni. Nú hefur ráðherra hins vegar boðist til að svara þessu utan þings, að hvísla þessu í eyra hv. fyrirspyrjanda. Ég get ekki sætt mig við slíkt svar. Ég tel að það eigi ekki að vera mál þessara tveggja hv. þm. að fara með þessar upplýsingar og fer fram á svör. Ef hv. fyrirspyrjandi breytir þessu ekki í skriflega fyrirspurn mun ég gera það sjálfur vegna þess að ég tel að svona svör veki grunsemdir um að ekki sé allt hreint í pokahorninu.