Leikskólar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Sigríður Lillý Baldursdóttir):
    Virðulegi forseti. Það lætur nærri að fjórða hver fjölskylda í landinu sé með börn á forskólaaldri. Með aukinni atvinnuþátttöku foreldra utan heimilis vex vitaskuld þörfin fyrir góða dagvistun fyrir börnin. Samkvæmt lífskjarakönnun Félagsvísindastofnunar virðast 65--70% mæðra og 94% feðra forskólabarna stunda launavinnu í dag. Í stuttu máli má segja að það þurfi að tvöfalda umfang dagvistarkerfisins fyrir börn til að koma til móts við þarfir yngstu samborgara okkar. Í barnaskap mínum trúði ég því að hæstv. ríkisstjórn hygðist bæta aðbúnað þessara barna sem eru um það bil 12% þjóðarinnar einkanlega þar sem ég átti sæti í nefnd á vegum menntmrn. sem var sérstaklega falið að vinna frv. til laga um leikskóla. Við skiluðum af okkur fyrir síðustu jól og lagði ráðherra menntamála ofurkapp á að svo yrði. Síðan hef ég ekkert frétt af afdrifum frv. en það liggur þó ljóst fyrir að það hefur ekki verið lagt fram hér á Alþingi. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
,,1. Hyggst menntmrh. leggja fram frv. til laga til úrbóta í dagvistarmálum barna á yfirstandandi þingi?
    2. Ef svo er hvenær má vænta þess að það verði?``