Leikskólar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þá hefur á vegum menntmrn. verið unnið að frv. um leikskóla nú um nokkurt skeið. Þetta frv. og þessi vinna byggist á ákvæði í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar þar sem segir: ,,Sett verði löggjöf um forskólastigið.`` Þessi vinna hófst snemma á árinu 1989, ég hygg í janúar eða febrúar. Fjölmenn nefnd vann að tillögugerð um málið og skilaði mér í nóvember eða desember tillögum að tveimur lagafrv. Annars vegar frv. til laga um leikskóla og hins vegar frv. til laga um fjármögnun leikskóla.
    Fyrra frv. fjallar um innra starf leikskólans og gerir ráð fyrir því með hvaða hætti menntmrn. hefur með að gera og stýrir hinum uppeldislegu þáttum sem hljóta að vera grundvallaratriðið í starfsemi leikskólanna í landinu.
    Hitt frv. gerði ráð fyrir því að aflað yrði sérstakra fjármuna til þess að aðstoða sveitarfélögin við það að byggja upp leikskólakerfi í landinu að því marki að unnt væri að bjóða öllum börnum, þar sem sérstaklega væri óskað eftir því, vist í leikskóla. Rökin fyrir þessu eru augljós. Þau eru þau að fyrir mörgum áratugum var sú kvöð lögð á allar fjölskyldur í landinu svo að segja, allar fjölskyldur í landinu, að báðir foreldrar, þar sem tveimur er til að dreifa, ynnu utan heimilis frá börnum sínum á sama tíma og það liggur hins vegar fyrir að þjóðfélagið hefur ekki nema í undantekningartilvikum eða kannski ekki einu sinni í einu tilviki af hverjum tveimur komið til móts við þarfir þeirra barna sem hér um ræðir.
    Það er líka augljóst mál að þrátt fyrir ákvarðanir um breytta verkaskiptingu sveitarfélaga munu sveitarfélögin ekki að óbreyttum tekjustofnum geta uppfyllt þær þarfir sem hér er um að ræða og eru þarfir barnanna eins og hv. 12. þm. Reykv. gat um hér áðan. Þess vegna verða að koma til viðbótarfjármunir. Og það er í rauninni höfuðatriði að Alþingi geri sér grein fyrir því að hér er um að ræða eitt allra brýnasta verkefni uppeldismála hér á landi.
    Við erum með grunnskólakerfi sem tekur til sín á ári hverju úr ríkissjóði 4,6 milljarða kr. Við erum með framhaldsskólakerfi sem kostar um 2,3 milljarða kr. Við erum með háskólakennslu sem kostar um 2,5 milljarða kr. Það er alveg ljóst að það leikskólakerfi sem við þurfum á að halda til þess að þetta samfélag verði boðlegt börnunum mun taka til sín, til viðbótar við þann kostnað sem þegar liggur fyrir á sveitarfélögunum í þessu efni, um 1,5 milljarða kr. Það er alveg ljóst að miðað við ástandið eins og það er í dag þá munu menn eiga erfitt með að afla þessara fjármuna.
    Hitt er jafnljóst að það er dýrara fyrir þjóðfélagið að standa þannig að málum eins og gert er í dag, að henda svo að segja öðru hverju barni út á götuna af því að það er ekki aðstaða til að sinna þessu fólki. Það tjón verður ekki metið í halla fjárlaga. Það tjón verður ekki metið í debet- og kreditreikningum

fyrirtækja. En það getur hins vegar verið að það tjón birtist þjóðfélaginu með öðrum og alvarlegri hætti á síðari stigum. Og reyndar er það svo, virðulegi forseti, að við erum einmitt nú að sjá afleiðingar þessa. Við höfum núna fengið inn í grunnskólana í Reykjavík í fyrsta sinn í haust 60--70 börn með óvenjuleg hegðunarvandamál og aðlögunarvandamál, sálræn vandamál sem eru allt öðruvísi en áður hefur verið um að ræða. Þetta eru fyrstu börnin sem í rauninni hafa frá því að þau fengu vit til verið fyrir framan sjónvarp, sum þeirra, langdvölum, heilu dagana, heilu sólarhringana, vikurnar og mánuðina og árin sem þau eiga að baki og það er augljóst að sérkennslukerfið eins og það er núna í landinu ræður ekki við að nálgast þessi börn. Og hvaða skaði er þarna skeður, hversu stór er hann miðað við þá fjármuni sem verður að leita og fá til þess að byggja upp bætt leikskólakerfi í landinu? Leikskólakerfið hér á Íslandi er íslensku þjóðinni til skammar. Þjóðin er of rík til að láta þetta viðgangast lengur.
    Svarið við fyrirspurnunum er þetta: ,,Hyggst menntmrh. leggja fram frv. til laga til úrbóta í dagvistarmálum barna á yfirstandandi þingi?`` Svarið er já. ,,Ef svo er, hvenær má vænta þess að það verði?`` Ég vænti þess að það verði innan mjög skamms tíma.