Skýrsla um viðræður EFTA og EB
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það vakti óneitanlega athygli þegar maður las í Morgunblaðinu í morgun frétt um sérstaka beiðni hæstv. utanrrh. um viðræður við utanrrh. Danmerkur, Uffe Elleman-Jensen. Ég sá ekki betur en í þeirri frétt kæmi glögglega fram að sá málflutningur sem þm. Sjálfstfl. héldu uppi í þessu máli fyrir áramót ætti við fullkomin rök að styðjast. En danski utanrrh. virðist hafa látið það álit sitt í ljós að hann teldi rétt að beina viðræðum við EFTA í þann farveg að hvert ríki fyrir sig tæki upp slíkar viðræður frekar en að EFTA sem heild ræddi við Evrópubandalagið.
    Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum sem hafa verið að gerast undanfarnar vikur í þessu mikilvæga máli og það vekur auðvitað mjög mikla furðu að allar þessar vikur skuli hafa verið látnar líða hér á hv. Alþingi án þess að þessi umræða um skýrslu utanrrh. um þetta mál gæti haldið hér áfram. Mér er auðvitað fullkunnugt um að hæstv. utanrrh. hefur skyldum að gegna í útlöndum. En hæstv. utanrrh. hefur líka skyldum að gegna við Alþingi Íslendinga. Hann er óspar á yfirlýsingar og dóma í fjölmiðlum. Ég var að lesa viðtal við hann, ég held að það hafi verið í Þjóðlífi, þar sem hann gerir m.a. að umtalsefni málflutning Sjálfstfl. í þessu máli og skrumskælir þar allt og fer rangt með í flestum greinum. Hann er óspar á að taka þátt í almennri umræðu þar sem ekki er hægt að svara honum. En hér á Alþingi Íslendinga er ekki hægt að halda þesari umræðu áfram og alltaf borið við að hæstv. ráðherra sé ekki á landinu. Þetta eru að sjálfsögðu óhæf vinnubrögð. Ég veit að hæstv. forseti ræður ekki við þetta og ég er ekki að ásaka hana í þessu efni, ég vil taka það skýrt fram. En ég vil biðja hæstv. forsrh. að kyrrsetja nú hæstv. utanrrh. í landinu þó ekki væri nema í 2--3 daga þannig að hægt væri að halda þessari umræðu áfram og ljúka henni því að það þarf að krefja hæstv. utanrrh. svara um ýmislegt sem hann hefur látið frá sér fara á opinberum vettvangi um þetta mál. Og ég vænti þess að þessi umræða geti farið hér fram á mánudag eins og boðað hefur verið.