Skýrsla um viðræður EFTA og EB
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka góðar undirtektir undir þá ósk að umræðan um þetta efni getið farið fram sem allra fyrst og þá ekki síðar en á mánudag. Ég lít svo á að í ummælum hæstv. forseta hafi falist fyrirheit þar um og ég vil færa þakkir fyrir skjót og góð viðbrögð við þessari málaleitan.
    Vegna þeirra ummæla sem hér féllu vegna fjarveru hæstv. utanrrh. þá er það auðvitað kórrétt að hæstv. utanrrh. verður að vera viðstaddur slíka umræðu. Það er daglegt brauð og getur alltaf komið fyrir að ráðherrar geti ekki verið viðstaddir umræður á tilteknum degi og að fresta þurfi umræðu. Um það er enginn ágreiningur og sjálfsagt að hliðra til í þeim efnum. En ég minni á að þessi umræða hefur staðið síðan í nóvember og ég minni á að nú er komið fram í marsmánuð og þingið kom saman í síðari hluta janúar og enn hefur þetta ekki tekist. Hæstv. utanrrh. hefur mestan hluta þessa árs verið á landinu, hann hefur haldið fjölda funda úti um land og í skólum undir því yfirskini að verið væri að kynna samningana við Evrópubandalagið, þó fréttir af þeim fundum hafi kannski fyrst og fremst snúist um að greina frá árásum hæstv. utanrrh. á landbúnaðarstefnu Framsfl. Og þó slíkir fundir séu góðra gjalda verðir, ég ætla ekki að gagnrýna þá í sjálfu sér, hefur hæstv. ráðherra greinilega haft tíma til slíkra funda. En skyldur hans við Alþingi ganga þó á undan kennsluskyldu í skólum landsins. Því er það mín skoðun að þessi umræða hefði getað farið fram ef einhver vilji hefði verið fyrir hendi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hún hefur greinilega kosið að láta hana dragast á langinn og kannski ætlað að reyna að láta hana gleymast.
    En ég ítreka þakkir mínar til forseta fyrir að bregðast svo vel við óskum um það að umræðan fari fram eigi síðar en á mánudag.