Skýrsla um viðræður EFTA og EB
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er eins og vera ber að umræða um Evrópumálin fari fram sem allra fyrst. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram að ekkert er því til fyrirstöðu af hálfu ríkisstjórnarinnar að framhald geti orðið á umræðunni um skýrslu utanrrh. Hins vegar tel ég það ákaflega æskilegt að utanrrh. geti verið viðstaddur næstu umræðu um skýrsluna. Því miður hafa atvikin ráðið því að hann var það ekki þegar skýrslan var rædd í desember en þá kom hún hér fyrir, eins og þingmenn muna, oftar en einu sinni.
    Nú háttar svo til að utanrrh. er erlendis en hann verður kominn aftur og getur tekið þátt í umræðum á mánudag. Eins og fram mun hafa komið í orðum forsrh. er margt sem á dagana hefur drifið í Evrópumálefnum frá því að skýrslan var síðast rædd og þess vegna mjög æskilegt að þau efni geti einnig komið hér til umræðu.