Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Spurning hv. 1. þm. Reykv. til mín er um afstöðu ríkisstjórnarinnar til aukins frelsis fjármagnsflutninga almennt. Ég vek athygli á því að ég gerði grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar sem þá sat í þessum málum hinn 7. febr. á síðasta ári. Þá hafði málið verið mjög ítarlega rætt innan ríkisstjórnarinnar. Þar lýsti ég því að ríkisstjórnin telur að auka beri frjálsræði í fjármagnsflutningum að vel athuguðu máli, og við getum sagt svona stig af stigi. Reyndar hafa fyrstu skref í slíkum málum verið tekin síðan eins og hæstv. viðskrh. hefur lýst. Það er rétt að fyrirvarar hafa verið í sambandi við samþykkt Norðurlandanna í þeim efnum og þeir hníga einmitt að smæð hins íslenska peningamarkaðar. Þess vegna er nauðsynlegt að fara hægar en stærri lönd hafa gert ráð fyrir. Og ég leyfi mér að fullyrða að um það er fullkomin samstaða innan ríkisstjórnarinnar.
    Síðan hefur verið unnið að því að gera hinn íslenska peningamarkað hæfari til að taka þátt í opnu samstarfi, m.a. með samruna bankanna. Það er að mínu mati mjög mikilvægur þáttur í því og verður vonandi til þess að efla þá svo að þeir geti staðist opnari samkeppni. Ég tel einnig afar mikilvægt í þessu sambandi að verðlag og verðbólga hér á landi verði svipað og er í þeim löndum sem við störfum með. Erfitt er°°ð hafa stjórn á peningamálum í mikilli verðbólgu. Ég tel einnig afar mikilvægt að vísitölutrygging fjármagns verði afnumin hér eins og er í öllum þessum löndum sem við ætlum að starfa með, þar er hvergi vísitölutrygging fjármagns, og nauðsynlegt að aðstæður séu samsvarandi hér og þar að því leyti einnig. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að afnema verðtryggingu fjármagns þegar verðbólga er orðin 10% á sex mánaða grundvelli. Og eins og þar er reiknað fram og aftur.
    Loks telur ríkisstjórnin afar mikilvægt að skýrar reglur verði settar um eignarhlut útlendinga í fyrirtækjum hér á landi. Og ég vek athygli á því að frv. um það efni var lagt hér fram í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sem hafði verið unnið þá í nokkur ár. Það hefur nú verið skoðað nokkurn tíma af fulltrúum stjórnarflokkanna og ég geri mér vonir um að slíkt frv. verði lagt fram á því þingi sem nú situr. Ég stefni að því en þar eru viss atriði sem ekki eru að vísu leyst enn þá.
    Þetta sem ég hef nefnt tel ég allt vera mjög mikilvægar forsendur fyrir því að frjálsræði geti orðið hér verulegt í fjárstreymi til og frá landinu. Og að þessu er öllu unnið eins og ég hef nú rakið.
    Um tímaáætlun í þessu sambandi er það að segja að hæstv. viðskrh. hefur ekki lagt fram formlega tímaáætlun í ríkisstjórninni. En í þeirri umræðu sem fram fór, t.d. í byrjun febrúar í fyrra, gerði hann grein fyrir hugsanlegri tímaáætlun. Það má kalla það drög að hugmyndum um tímaáætlun í þessu máli. En tímaáætlun eða tíminn hlýtur að byggjast á því að öll þessi, ég vil kalla það forvarnaratriði sem ég tel að okkar örsmáa peningakerfi þurfi að gæta vel að hafi

verið leyst. Að því er unnið og að því mun verða unnið, eins og ég hef rakið, á næstu vikum og mánuðum.