Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef með mikilli athygli hlýtt á umræðu þá sem nú fer fram og hefur raunar verið á dagskrá æðilengi. Margt hefur verið sagt nýtilegt og skal ég ekki fara að rekja gang málsins um samskipti Landsbanka og Samvinnubanka eða Sambands ísl. samvinnufélaga öllu frekar. Hins vegar er tilefnið það að mjög hefur verið rætt um eiginfjárstöðu fyrirtækja og er það vel, þá veiku eiginfjárstöðu sem hefur verið um langt skeið í íslenskum atvinnufyrirtækjum miðað við það sem gerist t.d. í nágrannalöndunum og í hinum vestræna heimi. En þar er yfirleitt mikið eigið fé í atvinnurekstri og þar er alþýða manna löðuð til samstarfs um mikilvæg atvinnufyrirtæki, bæði stofnun þeirra og síðan rekstur. Kannski er gleggsta dæmið í seinni tíð þegar Volkswagen-verksmiðjurnar þýsku og þýski stálhringurinn eða prússneski voru afhent almenningi í lok styrjaldarinnar af þeim stjórnvöldum sem voru að taka við völdum í Þýskalandi þegar þýska undrið var að hefjast, þ.e. dreifing valds og fjármagns. Þýska undrið þekkja allir. Á örfáum árum reif sú þjóð sig upp úr sárri fátækt og neyð eftir styrjöldina til mikilla efna og er nú meðal auðugustu þjóða heims. Svipuð var þróunin í Japan, þar sem menn höfðu vit á því að dreifa fjármagni þjóðfélagsins þannig að fólkið ætti fyrirtækin, sem allra flestir einstaklingar væru beinir aðilar að atvinnurekstri, gagnstætt því sem var í sósíalistaríkjunum sem auðvitað fóru allt aðra leið og raunar gagnstætt því sem verið hefur lengst af á Íslandi.
    En ég held að merkasta dæmið um almenningshlutafélag sé kannski íslenskt. Það var stofnun Eimskipafélags Íslands sem unnið var að 1913 og 1914 og 1915 var því verki lokið. Þá safnaðist gífurlegt fé til atvinnufyrirtækis, íslensks atvinnufyrirtækis, miðað við aðstæður sem þá voru. Skal ég ekki rekja það ítarlegar heldur aðeins benda á að þá svaraði hlutafé í Eimskipafélaginu nákvæmlega 1 / 10 hluta alls innflutnings ársins 1913, svo geta menn reiknað hvað það mundi vera í dag. Það náði tæplega 10% útflutningsteknanna það ár. Þetta var stofnfé félagsins. Og hlutaféð, það er ekki há tala á nútímamælikvarða, en það var 1 milljarður 680 millj. kr., eitthvað í þá áttina.
    Enginn mátti fara með nema sem svaraði 500 atkvæðum en eitt atkvæði var fyrir hverjar 25 kr. í félaginu. Enginn mátti fara með meira en 500 slík atkvæði. Valdið í félaginu dreifðist þar af leiðandi þannig að enginn gat farið með meira atkvæðamagn en innan við 1% heildarhlutafjárins. Hagir Eimskipafélagsins breyttust þegar tímar liðu eins og allir vita en félagið er nú mjög öflugt og þar hafa menn verið að gefa úr jöfnunarbréf og leitast við að gera eign fólksins í félaginu einhvers virði gagnvart því sem það varð vegna skattheimtu og af ýmsum öðrum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja núna en hef gert oftsinnis áður. Þess vegna fagna ég auðvitað þeirri þróun og þeim aukna skilningi sem nú er að verða á mikilvægi þess að félög séu rekin að verulegu

leyti fyrir áhættufé, eigið fé.
    Samvinnufélögin voru auðvitað til skoðunar um leið. Og það er dálítið athyglisvert og gjarnan mættu hv. þm. hugleiða breytingar á félagalöggjöf á Íslandi, t.d. gömlu hlutafélagalögin sem voru í gildi þegar Eimskipafélagið var stofnað og samvinnufélagalög sem voru í sköpun á svipuðum tíma. Menn höfðu opin augun fyrir báðum þessum félagsformum. Og bæði félagsformin voru gífurlega mikilvæg í atvinnusögu Íslendinga þegar feður okkar og mæður, afar og ömmur voru að byggja upp þetta land.
    Því miður hefur þarna gerst á breyting, þarna hefur skilið á milli. T.d. samþykkti Alþingi árið 1978 mjög merka og nútímalega hlutafélagalöggjöf. Hún er að bera árangur nú eftir rúmlega áratug. Menn eru að skilja hvaða hugsun var að baki þeim. Þar var leitað fanga bæði í Evrópulöggjöf, hlutafélagalöggjöf en eins amerískri. Engilsaxneska löggjöfin er ekki endilega sú sama og t.d. Norðurlandalöggjöfin. Þau lög voru samþykkt einróma, ef ég man rétt, og gífurlegt starf unnið að þeirri lagasetningu. Það löggjafarstarf var mjög merkilegt. Allir flokkar voru sameinaðir um að það þyrfti að breyta löggjöfinni þannig að fólkið hefði meiri áhrif á rekstur fyrirtækja og þau gætu dafnað og eflt sig með auknu eiginfjármagni. Um það leyti bar auðvitað samvinnufélagalöggjöf á góma líka og ég man ekki betur en að ég hafi þá flutt þáltill. sem samþykkt var um að samvinnufélagalöggjöfin yrði endurskoðuð líka með sama hætti og sama hugarfari. Það var því miður ekki gert og hefur ekki verið gert fram á þennan dag, en það er tímabært að huga að því.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sem raunar er ekki viðstaddur, en hann veit hvað ég ætla að segja hér svo það er allt í lagi þó að hann heyri það ekki, hann getur þá lesið sér til um það. (Gripið fram í.) Ég var búinn að segja honum já, hvað ég ætlaði að segja. Það er ekkert launungarmál að hann vék að því að samvinnufélög þyrftu að breytast og þar þyrfti að gera einhverjar þær ráðstafanir sem gætu aukið áhættufé í samvinnurekstri. Hann sagði að um þetta hefðu bæði hann og aðrir verið að ræða nú á síðustu árum.
    Fyrir skemmstu birtist mjög merkileg grein eftir fyrrv. forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, Erlend Einarsson, í Morgunblaðinu sem ég vona að hv.
alþm. hafi lesið. Þar getur hann þess að fyrir 19 árum síðan hafi hann hreyft hugmyndum um að samvinnufélögin yrðu nokkurs konar almenningshlutafélög. Svo vildi til að við vorum saman á ráðstefnu í Bifröst á vegum Stjórnunarfélags Íslands þar sem ég var fenginn til að tala um almenningshlutafélög og hann um samvinnufélög. Erindi okkar hafa verið birt og er ég með það hér fyrir framan mig sem við sögðum. Það eru birtir kaflar úr þessum erindum. Þess vegna get ég undirstrikað að það er rétt sem Erlendur Einarsson segir í grein sinni að hann vék að því máli á þessari ráðstefnu. Hins vegar var ekki hlustað á rödd hans á þeim tíma. Að vísu gekk hann ekki nærri eins langt

á þeirri ráðstefnu og hann gerir í greininni núna í Morgunblaðinu, þar sem hann segir beinlínis að samvinnufélög eigi að gefa út hlutabréf. Hann kallaði þau þá stofnbréf og vildi kannski ekki undirgangast það að hann væri sammála mér í einu og öllu varðandi rekstur almenningshlutafélaga og samvinnufélaga sem ég taldi að ættu að vera af sama stofni þó að þau væru með nokkuð ólíkri uppbyggingu, en sannleikurinn er sá að á Vesturlöndum og víða um heim hafa hlutafélög auðvitað þróast í gegnum aldirnar, eru orðin æðigömul og mörg mistök hafa orðið í þeim rekstri. Þau má rekja allt frá 16. öld þegar Hollendingar og Bretar og fleiri voru að safna saman fé til þess að efla sinn atvinnurekstur og umsvif, en þau hafa líka borið gífurlegan ávöxt, ekki síst í Bandaríkjunum í byrjun þessarar aldar og á síðustu öld og svo auðvitað í Þýskalandi og Japan eins og ég nefndi og víða um heim og eru mjög nútímalegt rekstrarform eins og mér skilst að hv. alþm. séu nokkuð sammála um nú að sé það sem koma skal og að dreifa valdinu, dreifa auðnum til fólksins, fjárstjórn fjöldans eða auðstjórn almennings getum við kallað það, þar sem virðulegir stjórnmálamenn og ágætir, eins og við erum öll, eru ekki með puttann niðri í öllum hlutum heldur fái fólkið sjálft að ráðstafa fjármununum með eignarráðum að því og beinum yfirráðum en ekki með sífelldri skattheimtu og ríkisrekstri. Um þetta held ég að menn séu meira og minna að verða sammála. Það er hvort eð er ekki jafnt hyldýpi á milli minnar hugsunar og þeirra sem áður töldu sig vera sósíalista, og sumir reyndar orða það enn að það hugtak geti verið lifandi í heilbrigðum þjóðfélögum þó að ég skilji það nú ekki, hvernig það á að geta gengið upp eftir allt sem upplýst hefur verið um afleiðingar af því stjórnskipulagi. En sem betur fer, og því fagna ég, eru menn núna að átta sig á því að einkum landi eins og Íslandi, jafnlitlu landi, ber að einbeita sér að því að dreifa þjóðarauðnum með beinum eignarráðum fólksins að atvinnufyrirtækjunum.
    En ég held þó að það sem fór fram á þessari ráðstefnu, og ég sagði að þess vegna hefði ég tekið til máls, að ég vildi minna á það, að það verði ekki betur skýrt en með því að ég fái leyfi hæstv. forseta til þess að lesa hér örstutta kafla og þá líklega fyrst úr því sem ég sagði þar sjálfur til að skýra hver svör Erlends Einarssonar voru, en það eru einkum þau sem ég ætla nú að vekja athygli á. Ég talaði sem sagt á undan honum og sagði þá svo, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef ekki nefnt samvinnufélög sem hugsanlega eigendur nýrra stórfyrirtækja. Fyrir nokkrum árum vakti ég á því athygli í erindi sem ég flutti og birt var að ógjörlegt væri að stofna ný samvinnufélög sem tekist gætu á hendur meiri háttar atvinnurekstur af þeirri einföldu ástæðu að ekki yrði unnt að afla áhættufjárins með óbreyttu skipulagi samvinnuhreyfingarinnar.`` Einmitt þetta er atriði sem Erlendur Einarsson víkur að. Það hafa ekki verið stofnuð nein samvinnufélög um langa langa tíð, ekkert sem því nafni er hægt að nefna, og það er af þessari

ástæðu sem þarna er vakin á athygli. Síðan heldur áfram: ,,Þátttaka samvinnureksturs í atvinnuuppbyggingu yrði því að byggjast á eignum þeirra samvinnufélaga sem fyrir væru og ber út af fyrir sig ekki að vanmeta það, enda hafa þau bæði fyrr og síðar komið upp mörgum merkum fyrirtækjum. Hitt hygg ég staðreynd að verulegs fjár verði ekki aflað til að koma á fót nýjum samvinnufyrirtækjum og margir merkir samvinnumenn hafa tekið undir þá skoðun.
    Nú nýlega hefur Erlendur Einarsson, forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, vakið athygli á því að nauðsynleg væri skipulagsbreyting hjá samvinnufélögunum einmitt í þeim tilgangi að afla aukins fjár frá alþýðu manna til samvinnureksturs. Ekki skal ég hér rekja þessi sjónarmið forstjóra SÍS, enda mun hann sjálfur kynna þau hér á eftir. En þar er að minni hyggju um að ræða náskyld sjónarmið þeim sem við sem sérstakan áhuga höfum á almenningshlutafélögum höfum barist fyrir, þ.e. að fólk verji verulegum hluta eigna sinna til atvinnureksturs þar sem margir starfi saman að einu markmiði og menn fái eðlilegan arð af þessari nýtingu fjármagnsins. Mér virðist Erlendur Einarsson að vísu ganga út frá því að atkvæðisréttur í slíkum fyrirtækjum væri með þeim hætti að hver þátttakandi hefði eitt atkvæði hversu stór sem hlutur hans væri. Ég hygg að það sé of langt gengið þótt veruleg takmörkun atkvæðisréttar geti verið heilbrigð og eðlileg eins og t.d. var upphaflega í Eimskipafélaginu. En hvað sem því líður, þá er áreiðanlega rétt að endurbóta er þörf að því er varðar fjárhagslega skipulagningu samvinnuhreyfingarinnar engu síður en hlutafélaganna og það er einmitt
ánægjulegt að sjónarmið þeirra sem gerst þekkja til bæði á sviði einkarekstrar og samvinnurekstrar falla nú mjög saman. Nægilega sterk þjóðfélagsöfl eru þess vegna til sem geta hrint þessum úrbótum í framkvæmd og munu án efa gera það þegar pólitískar aðstæður verða fyrir hendi til eðlilegs samstarfs í þessu efni. Að sjálfsögðu skiptir minnstu máli hvort slík nútímaleg félög verða nefnd samvinnufélög eða almenningshlutafélög. Hitt er fyrir öllu að uppbygging þeirra verði heilbrigð og unnt reynist í senn að fá áhættufjármagn frá einstaklingunum og örva áhuga manna á því að taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins í ríkari mæli en verið hefur fram til þessa.``
    Erlendur Einarsson talar síðan í framhaldi af þessu á þessari ráðstefnu Stjórnunarfélagsins 1972, þar sem hann fjallar um róttækar hugmyndir um nauðsyn þess að opnuð verði ný leið, eins og hann orðar það, í íslenskri samvinnuhreyfingu, en fyrst fjallar hann um samvinnustarf hér og erlendis og bendir þar m.a. á að í Bretlandi þar sem kaupfélögin byrjuðu, eins og allir vita, hjá vefurunum í Rochdale, þá eru bresku kaupfélögin að formi til hlutafélög. Svo er líka í Bandaríkjunum. Hann segir hér orðrétt um Bretland: ,,Þar sem kaupfélögin byrjuðu þá eru bresku kaupfélögin að formi til hlutafélög.`` Síðan segir forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, með leyfi

forseta:
    ,,Þá kem ég loksins að þessum hugmyndum um nýjar leiðir í fjármagnsuppbyggingu hjá okkur hér heima. Enda þótt leggja beri áherslu á þýðingu þess að félögin eigi aðgang að lánsfjármagni, og í því sambandi vil ég minna á útgáfu skuldabréfa eins og Svíar hafa gert. Ég tel að það komi mjög vel til greina að fara út í slíkt t.d. hjá Sambandinu í dag. Þá er orðið mjög tímabært að mínu áliti að leita að ótroðnum slóðum.`` Og síðan segir: ,,Það er ekkert launungarmál að ég er sannfærður um nauðsyn þess að opnuð verði ný leið í þessum efnum er gerði félagsfólki samvinnufélaganna og almenningi mögulegt að ávaxta fé sitt í samvinnufélögum. Það er skoðun mín að þessu verði best hrint í framkvæmd með því að gera fólki kleift að kaupa hluti í kaupfélögunum og öðrum samvinnufélögum.
    Ég vil leyfa mér að vísa til þess sem ég sagði áðan að þessi leið í fjármagnsuppbyggingu hefur lengi verið notuð í Bretlandi þar sem vagga samvinnuhreyfingarinnar stóð og þar sem upprunnar eru þær meginreglur sem orðið hafa undirstaða samvinnulífs hvarvetna um heim og þá á ég við Rochdale-reglurnar.
    Ég vil strax gera það ljóst að þeir hlutir sem hér er um að ræða eru alls ekki það sama og hlutabréf og ég verð líka að skúffa Eyjólf Konráð Jónsson með því að minna á að við erum samvinnufélag og við verðum að starfa sem slíkt. En þetta er ekki það sama og að gefa út venjuleg hlutabréf og því vaknar strax spurningin að finna þessum bréfum nafn ef út í þetta yrði farið. Ég vil nota hér nafnið stofnbréf. Þetta er gamalt og gott orð í samvinnusögunni. Þegar bændurnir í Þingeyjarsýslu, svo að ég vitni nú aftur í Þingeyinga, fóru á milli bæja, er verið var að stofna Kaupfélag Þingeyinga 1882, þá skrifuðu menn sig fyrir stofnbréfum í þessu nýja félagi.``
    Og Erlendur heldur áfram:
    ,,Í sambandi við útgáfu og notkun stofnbréfa vakna að sjálfsögðu fjölmargar spurningar. En áður en ég vík að þeim, hverri fyrir sig, vil ég leggja áherslu á eitt meginatriði, nefnilega það að hver einstaklingur getur aðeins farið með eitt atkvæði. Þá kem ég aftur að því að við erum að starfa innan ramma grundvallarreglna samvinnufélaga. Stofnbréfunum fylgja því ekki atkvæðisréttindi eins og vera mundi ef um hlutabréf væri að ræða. Ef við brytum það boðorð, þá værum við ekki með samvinnufélög í höndum. Það eru samt til hliðstæður við þetta, bæði í hlutafélögunum og samvinnufélögunum. Það er sérstaklega hliðstæða við þetta í Bandaríkjunum þar sem lengi hefur tíðkast að samvinnufélögin gefi út svokölluð ,,nonvoting preference shares``, sem sagt: forgangshlutir án atkvæðisréttinda.``
    Ég skal ekki vitna meira í þessa umræðu. Ég held að hún skýri sig sjálf, en það er auðvitað alltaf matsefni hversu mjög á að dreifa atkvæðamagni og réttindum til að nota hluti þótt færri séu en ef þeir eru stærri en eitthvert ákveðið mark og þarf ég ekkert að rökstyðja það frekar. Ég hef haldið að þetta væri svo

náskylt. Þegar Erlendur Einarsson sagði þetta sem ég nú var að lesa, þá átti hann við að maður sem ætti hlutabréf fengi eitt atkvæði. Það held ég að þurfi ekki endilega að vera svo mikið takmarkað, það gæti verið eitthvað meira. En þessi félagastarfsemi er sem sagt náskyld að formi til og á því vildi ég vekja hér athygli.
    Nú er svo komið, því miður, að samvinnufélögin eru kannski eiginfjárlaus, eða hvað? Svo hefur verið látið í veðri vaka, ekki af mér heldur allt öðrum mönnum, að samvinnuhreyfingin gæti jafnvel verið á gjaldþrotsbarmi og er ekki fagnaðarefni ef svo er komið. En hefði nú verið hlustað á Erlend Einarsson á þessum tíma --- eða þá bara mig, sem var nú varla von kannski að samvinnumenn gerðu, en þó, þeir buðu mér oft að koma á umræðufundi hjá sér og fór vel á með okkur --- þá væri kannski öðruvísi umhorfs í samvinnufélögunum, enda væru þau
þá allt aðrar stofnanir en þau eru í dag. Þau væru þá raunverulegar stofnanir fólksins þar sem fólkið hefði áhrif, en það væru ekki örfáir menn, kannski tveir eða þrír eða fjórir sem réðu þar lögum og lofum og þá væri heldur ekki svo komið, eins og raunar hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson vakti athygli á, að samvinnuhreyfingin væri fjármagnslítil eða fjármagnslaus, og hann benti á að þetta hefði allt saman gengið á meðan félagið bjó við neikvæða vexti. Hann orðaði það svo. Þá gat það gengið, neikvæða vexti. Núverandi forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga hefur raunar í sjónvarpsþætti, ef ekki víðar, getið um það, ekki alls fyrir löngu, að nú þyrfti að koma á neikvæðum vöxtum til þess að samvinnuhreyfingin gæti gengið.
    En hvað eru neikvæðir vextir í atvinnurekstri? Það er verið að taka fé af fólkinu, taka fé af þeim sem njóta þjónustunnar, gera það upptækt til fyrirtækis sem ekki ber sig, sem er að tapa, óarðvænlegt fyrirtæki. Það eru neikvæðir vextir þegar hulunni er af því létt, og hér er það játað, og ekki nema gott um það að segja, af miklum samvinnumanni að þannig hafi þetta gengið hjá samvinnufélögunum og það gangi ekki lengur vegna þess að nú eru ekki lengur neikvæðir vextir, þ.e. sparifé landsmanna er ekki gefið ákveðnum félögum til þess að þau geti haldið áfram að tapa í það óendanlega. Þess vegna er þessi umræða mjög mikils virði og skal ég ekkert vera að lengja hana, en við erum auðvitað að nálgast þann sjálfsagða hlut að peningar séu metnir eftir markaðsverði, eftir því hvaða ávöxtun þeir geta skilað, og ég leyfi mér að minna á tillögu, sem einmitt var útbýtt á þessum fundi, til þál. um frelsi í gjaldeyrismálum og aðlögun að sameiginlegum fjármagnsmarkaði Evrópuríkja sem er flutt af formanni Sjálfstfl. og okkur fleiri flokksmönnum og menn geta lesið um.
    Við getum auðvitað ekkert einangrað okkur í peningamálum og peningastjórn kemur alltaf verst við þá sem minnst mega sín. Við hin sem betur erum sett getum kannski marið okkur út lán á neikvæðum vöxtum. Þeir komust nú einu sinni í 30--40% neikvæða hér á einu gullaldarári vinstri manna og það

gat verið notalegt að ná sér í svoleiðis lán þá, enda minnist ég þess oft og tíðum þegar menn voru að spyrja hvort ég sem þingmaður --- það er nú oft sem menn leita til þingmannsins --- gæti hjálpað sér að ná í lán einhvers staðar og ég spurði kannski: Ja, skuldarðu þessum banka eða hinum? Nei, en ég á 100 þús. kr. víxil í Landsbankanum. Ósjálfrátt var fólkið farið að tala um það að það ætti víxil. Það var líka ágætis eign ef það voru 30% neikvæðir vextir og menn höfðu notað peningana vel. Fólkið fann það nokk út. Núna er t.d. alveg hætt að tala um lántökur á Íslandi. Nú er þetta allt saman fyrirgreiðsla. Nei, nei, nú tekur enginn maður lán. Það er bara fyrirgreiðsla. Það eru bara stjórnmálamennirnir, þeir skaffa manni þetta. Þeir skammta eitthvað úr hnefa sem ekki skal nefnt úr þessum virðulega stóli. En bara þetta sem fólkið finnur á sér segir svolítið um það hve brenglað atvinnulífið hér er og hve brenglaður hugsunarhátturinn er í sambandi við allan atvinnurekstur, að það skuli vera gott að eiga víxil og að það skuli enginn taka lán heldur fá fyrirgreiðslu.
    Ég læt svo lokið máli mínu.