Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni það sem hann kallaði afskiptasögu þessarar ríkisstjórnar í bankamálum. Þetta gefur mér gott tilefni til að lýsa því í örstuttu máli hver sú saga er. Hún er nefnilega, þótt í allri hógværð sé mælt, sennilega merkilegri en flestra ríkisstjórna á síðustu áratugum. Það er í starfstíma þessarar stjórnar sem raunveruleg uppstokkun, endurskipulagning, verður í bankakerfinu. Það hefur verið myndaður einn stór hlutafélagsbanki úr fjórum bönkum. Það stefnir í að ríkisbanki, Landsbankinn, yfirtaki þann hlutafélagsbanka, Samvinnubankann, sem einn stendur eftir af hinum smærri hlutafélagsbönkum. Þetta er saga sem hver ríkisstjórn getur verið fullsæmd af og málið sem við ræðum hér í dag er einn lítill kafli í þeirri sögu. Ríkisstjórnin getur hvar og hvenær sem er komið fram og lýst því sem hún hefur fengið áorkað í bankamálum. Ég þakka þess vegna hv. 1. þm. Reykv. fyrir að gefa mér tilefni til að víkja að þessari merku sögu.
    Því miður held ég að ég verði að segja annað um sumt annað sem hv. þm. sagði, sérstaklega um verðið á bréfunum í Samvinnubankanum og um það sem hann kallaði afskipti formanns bankaráðs og viðskiptaráðherra af þessu máli sem á honum var að skilja að hefðu verið óviðurkvæmileg. Ég freistast til að beita málflutningsaðferð hv. 1. þm. Reykv. því að hann hefur fyrr í þessari umræðu orðið ákaflega hrifinn af þrenningu nokkurri sem hann hefur kallað til sögunnar, sem hann kallar undirmál, yfirklór og klúður, því miður verður það að segjast um mest það sem hann hefur sagt um verðið á bankanum og þau skipti öll, að það er misskilningur mestan part eða bull og klúður eða kannski jafnvel bull og slúður vegna þess að hann hefur farið þar með staðlausa stafi.
    Það sem er rétt í málinu með verðið á bankanum er að sjálfsögðu að Landsbankinn greiðir 605 millj. kr. fyrir hlutabréfin miðað við 1. jan. Vaxtaleiðrétting sem títt er nefnd til sögunnar er sjálfstætt mál sem bankaráðið hefur falið bankastjórn að fara með eins og starfsreglur bankanna segja til um. Þetta þekkir bankaráðsmaðurinn mætavel.
    Það er alveg greinilegt, a.m.k. litu þeir sambandsmenn svo á, að hið endanlega tilboð bankaráðsins, sem að var gengið og gert var í árslok, hafi í þeirra augum verið mun lægra en þær fyrri verðhugmyndir sem fram komu. Ég eftirlæt þingmönnum það sjálfum að meta það hvort svo muni ekki hafa verið. Það sem er svo rétt í þessu máli er að hið endanlega verðmæti bréfanna fyrir kaupandann er háð þeim arði, þeim hagnaði, sem hann getur haft af þeim í framtíðinni. Ríkisendurskoðun miðar í sínu verðmati við 8--10% arðgjafarkröfu og fær þá niðurstöðu að Landsbankanum væri hyggilegt að greiða 900 millj. kr. fyrir allan bankann, en ef miðað væri við lægra vaxtastig, eins og útlit er fyrir að hér ríki á næstu missirum, hækkar virði bréfanna að

sjálfsögðu.
    Það er líka misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv. að hugsanleg aðild Búnaðarbankans að þessum kaupum, að þessu máli, á einhverju stigi máls, eins og ég hef ítrekað sagt, spilli því hagræði sem Landsbankinn hefur af kaupunum. Þvert á móti er það einmitt leið til þess að meira hagræði sé að þeim en ekki minna. Þetta skilur hver sá sem skilja vill. Það er svo að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. að það er málefni bankaráðanna tveggja að kanna þetta mál og ræða sín á milli og ég fulltreysti því að það verði gert, en það er að sjálfsögðu hyggilegt en ekki óhyggilegt að hreyfa því máli snemma.
    Síðan kem ég þá að því sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín og er um önnur mál. Það er fyrst um yfirlýsingar um nauðsyn þess að laga íslenska fjármagnsmarkaðinn að breyttum aðstæðum utan lands og innan. Eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. hefur ríkisstjórnin unnið skipulega að þessu máli frá því hún var fyrst mynduð undir forsæti Steingríms Hermannssonar 28. sept. 1988 og eins og forsrh. vék að í sínu máli samþykkti ríkisstjórnin sérstaklega um þetta mál í febrúar 1989, að gera skyldi tímasetta áætlun um aðlögun að þessum breyttu aðstæðum. Þar var m.a. nefnt að vinna skyldi að hagræðingu og samruna banka og lánastofnana. Ýmislegt hefur í því máli skeð frá því í febrúar í fyrra eins og þingheimi er vel kunnugt. Ég hef síðan á vettvangi ríkisstjórnar og í samstarfi milli ráðuneyta kynnt hugmyndir um áfangasettar breytingar til frjálsræðis í lánamálum og viðskiptum við önnur lönd. Sumt af því hefur þegar verið framkvæmt, eins og ég minni á að gert var á liðnu ári, bæði í byrjun árs 1989 og um haustið 1989, að rýmkað var um heimildir til lántöku í sambandi við vörukaup og ýmsar breytingar gerðar á því sviði. Eins eru í undirbúningi rýmri reglur með það að markmiði að innan fárra ára hafi hið íslenska fyrirkomulag verið lagað að því sem erlendis gerist. Þetta er að sjálfsögðu mál sem tengist okkar viðræðum við Evrópubandalagið á vettvangi EFTA-ríkjanna og okkar Norðurlandasamstarfi eins og hæstv. forsrh. vék að. Að þessu máli er unnið og það mun koma í ljós innan skamms hvernig á því verður haldið í nánari greinum. Þarna kemur m.a. við sögu það mál sem hv. 1. þm. Reykv. vék að og lýtur að starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi. Ég get vel endurtekið það að ég tel fulla þörf á því að marka þar stefnu fyrir lok þessa árs, einmitt vegna
þeirra samninga sem við stöndum í við önnur Evrópuríki en líka vegna okkar sjálfra því að ég tel feng að aukinni samkeppni á lánamarkaði --- en ein forsenda þess að það sé sanngjarnt og rétt að opna fyrir aukna samkeppni er að innlendar lánastofnanir hafi verið efldar með samruna og hagræðingu þeirra. Reyndar þurfa þær þá líka að geta aukið sitt eigið fé með þeim hætti sem hentugastur er, þ.e. með því að fá aukið áhættufé frá almenningi. Stofnun Íslandsbanka er mikilvægt skref í þessa átt, eins og hver maður getur séð, en eins kemur þá upp sá vandi sem ríkisbönkunum og ríkinu er á höndum vegna

sinnar bankastarfsemi. Það mál verður leyst og ég er þess fullviss að þar hljóti menn að velja þá leið að reyna að efla þeirra eiginfjárstöðu í framtíðinni með áhættufé með því að gefa almenningi kost á að kaupa bréf í þeim. Hvaða nafn slík bréf bæru eða nákvæmlega hvaða réttarstöðu þau hefðu er kannski fullfljótt að ræða. En þetta gefur mér náttúrlega ástæðu til að víkja að þeim tveimur þingmálum sem hv. 1. þm. Reykv. vék hér að og er á vegum þingmanna Sjálfstfl. og frjálslyndra hægrimanna. Að sjálfsögðu verða þau mál skoðuð en fyrir fram vil ég hvorki lýsa yfir stuðningi né andstöðu við þau mál. Þau eru nýframkomin. Það má vel vera að í þeim kunni að vera nýtilegar tillögur og að sjálfsögðu eiga málefnin að ráða þar. En að sjálfsögðu mun ég ekki fyrir fram lýsa yfir afstöðu til þeirra að óathuguðu máli eða áður en þau hafa fengið nánari skoðun.
    Í þessu sama samhengi er rétt að víkja að samvinnufélögunum. Eins og kom hér fram hjá hv. 1. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv. er fjárhagsskipulag samvinnufélaganna mjög mikilvægt málefni fyrir okkar atvinnulíf og fyrir okkar fjármálalíf. Í umræðum okkar hér um þessa skýrslu fyrr í þinginu, m.a. með þátttöku hv. 5. þm. Norðurl. e. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar hefur nokkuð verið rætt um kosti þess að samvinnufélögin gæfu út stofnbréf eða stofnsjóðsbréf sem gæfu af sér ávöxtun með líkum hætti og um hlutabréf væri að ræða þótt atkvæðisréttur væri takmarkaður. Ég tel enn að slík breyting á samvinnulöggjöfinni sé skoðunar virði og fagna merkri grein Erlends Einarssonar í Morgunblaðinu fyrir stuttu sem hv. 8. þm. Reykv. vék hér að og reyndar sá fyrsti líka. Ég tel greinina vitna um að þar sé á gangi hreyfing í rétta átt og sú rétta átt er að gera muninn á samvinnufélögunum og öðrum almenningsfélögum, almenningshlutafélögum, minni en hann hefur verið og, eins og mig minnir að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson kæmist hér að orði, kannski hverfur sá munur þegar fram í sækir.
    Þá kem ég að því sem hv. 1. þm. Reykv. spurði mig um beinlínis og varðar nefndarstarf sem viðskrn. hefur stofnað til með viðskiptabönkum og sparisjóðum í tengslum við nýlega gerða kjarasamninga. Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm., að um mánaðamótin næstsíðustu, janúar/febrúar, var skipuð nefnd að tilmælum viðskiptabanka og sparisjóða til þess að kanna leiðir til hagræðingar og breytinga á starfsskilyrðum þessara stofnana til þess að gera mögulega þá lækkun vaxta sem fylgja mun snöggri hjöðnun verðbólgunnar í kjölfar kjarasamninganna. Þetta er vandasamt verk og mun víða reyna á bæði innviði bankanna og ytra starfsumhverfi þeirra. Þarna er um að ræða í senn nauðsynlega hagræðingu í starfi bankanna og þau starfsskilyrði sem þeim eru búin bæði af hálfu Seðlabanka og ríkisvalds. Nefndarstarfinu var settur mjög skammur tími. Það var ætlunin að því lyki nú um mánaðamótin síðustu, febrúar/mars en vegna ýmissa eðlilegra frátafa að mínu áliti, veikinda m.a., hefur ekki tekist að ljúka því nákvæmlega á þeim degi. Það er reyndar ekki nýtt

í Íslandssögunni að slíkt hafi upp á borið. Það hefur verið unnið mjög vel að þessu verki og kappsamlega í nefndinni. Ég á von á því að hún geri grein fyrir sér í heild alveg á næstunni. Ég hef átt með henni fund og heyri og sé að þar er unnið að mjög gagnlegum málum.
    Virðulegi forseti. Ég tel að með þessu hafi ég svarað því sem að mér var beint í þessari umræðu.