Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur farið nokkuð víða eins og gengur og hún hefur færst á köflum inn á skipulagsmál samvinnuhreyfingarinnar og fjárhagsuppbyggingar hennar almennt. Það er vegna þessa þáttar í umræðunni sem ég vil leggja inn í hana örfá orð vegna þess að hér er hreyft athyglisverðu máli og þarft að þessi umræða komi inn á hv. Alþingi.
    Samvinnufélagsformið hentaði vel á sínum tíma, samvinnufélögin voru þáttur í því að færa verslunina inn í landið eins og menn vita og í kjölfar þeirrar verslunarstarfsemi var farið út í ýmsa aðra þætti atvinnulífs og þjónustu og notað til þess það fé sem skapaðist einkum í verslunarrekstrinum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, þjóðfélagið hefur breyst og aðstæður í samvinnurekstri breyst að mun, einkum seinni árin og sú starfsemi sem samvinnufélögin byggðu tilveru sína á í stórum dráttum, eins og landbúnaðarstarfsemin, hefur dregist mjög mikið saman og rekstrarumhverfið hefur breyst. Umræðan um eigið fé og fjármögnun í samvinnuhreyfingunni hefur verið á kreiki nokkuð lengi en því miður er ekki niðurstaða í þeim efnum.
    Hlutafélagsformið hefur reynst á síðari árum heppilegra til þess að fara út í nýja starfsemi, það hefur reynst liðlegra til þeirra hluta og liðlegra til þess að ná áhættufjármagni frá einstaklingum og fyrirtækjum. Og það hefur satt að segja verið þróunin að samvinnuhreyfingin hefur verið með ýmsa nýja starfsemi í hlutafélagsformi eða tekið þátt í hlutafélögum með öðrum aðilum.
    Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er nauðsynlegt að endurskoða samvinnulögin og endurskoða þau á þann hátt að samvinnufélögin geti verið raunverulegt mótvægi við hlutafélagsformið við núverandi aðstæður og veitt hinum stóru hlutafélögum samkeppni. Það er skilsmunur hvort þau eru kölluð samvinnufélög eða almenningshlutafélög, en munurinn er kannski ekki svo mikill þar á, þó að það sé grundvallarmunur hvort hver félagsmaður hefur eitt atkvæði eða hvort hann hefur atkvæði í hlutfalli við það fé sem hann á í félaginu. Það verður að finna úrræði sem leiða til þess að það fjármagn sem í þessum félögum er safnist ekki á fárra hendur, í þeim verði ekki fámennisstjórn og menn geti í krafti fjármagns ráðið þar öllu.
    Það hefur oft verið sagt að það sé fámennisstjórn í samvinnuhreyfingunni og það bryddaði aðeins á því í annars ágætri ræðu hv. 8. þm. Reykv., sem ég var að hlusta á áðan. Ég held að þetta sé orðum aukið og ég vil undirstrika það, sem oft hefur verið mistúlkað, að kaupfélögin víða um land eru sjálfstæð fyrirtæki undir sjálfstæðum stjórnum og eru ekki háð Sambandinu að því leyti til. Oft hefur þetta verið túlkað þannig að Sambandið væri yfirstjórn kaupfélaganna. Það er ekki, en á síðari árum hefur Sambandið stofnað ný fyrirtæki í hlutafélagsformi og stjórnendurnir hafa setið í stjórnum þessara

hlutafélaga. Það er alkunna. Samvinnulögin þarf að endurskoða á þann hátt að samvinnufélögin verði áfram félög fólksins, það verði komið í veg fyrir það að þar sé fámennisstjórn eins og sú sem heyrðum lýst í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi. Nú er að myndast mikill samruni stórra fyrirtækja hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem stjórnendur sitja sitt á hvað í stjórnum þessara stóru félaga þannig að um einn samfelldan stóran hring verður að ræða innan tíðar. Ég held að það þurfi að koma málum samvinnufélaganna fyrir þannig að þau verði áfram mótvægi við slíkt. Við samvinnumenn höfum áreiðanlega ekki verið nægilega vakandi við endurskoða þá lagasetningu sem öll starfsemin byggist á.
    Erindi mitt í þennan ræðustól var að undirstrika að það er nauðsynlegt að breyta samvinnulögunum á þann hátt að almenningur geti lagt fé í þessi fyrirtæki og atkvæðisréttur í skjóli þess fjármagns verði sem jafnastur.