Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra kom hér í ræðustól og endurtók órökstudd ummæli sín um málflutning minn í þessu máli sem hann sagði vera mestan part misskilning, bull og slúður. Ég hef, virðulegur forseti, í þessum umræðum reynt að segja sannleikann í þessu máli eins og hann blasir við. Ég hef fært rök fyrir máli mínu og ég get staðið við hvert einasta atriði í þeim ræðum sem ég hef flutt í umræðunni. Ég segi það jafnframt, virðulegur forseti, að niðurstaða mín og umfjöllun er með sama hætti og umfjöllun Ríkisendurskoðunar þannig að ef það sem ég hef sagt er misskilningur mestan part, bull og slúður, þá er hæstv. ráðherra að gefa Ríkisendurskoðun sömu einkunn.
    Ég veit, virðulegur forseti, að þessi orð hæstv. ráðherra falla niður dauð og ómerk ef þau eru ekki rökstudd. Það kann að gerast hér í deilum á hinu háa Alþingi í rökþrota málflutningi að nota slík orð við andstæðinga sína, en vonandi gildir það ekki um aðra og ég vænti þess, virðulegur forseti, að þetta hafi verið mistök og ég þurfi ekki að taka aftur þau orð mín að hæstv. ráðherra sé hvort tveggja í senn gætinn og grandvar.