Guðmundur H. Garðarsson:
    Ég vil leiðrétta, virðulegi forseti, það sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði. Ég talaði aldrei um að einkarekstursformið eða hlutafélagsformið væri meingallað, það er alrangt. Það er alröng ályktun hjá hv. þm. að það þurfi endilega að fara saman fámennisvald og illa rekin fyrirtæki. Það er alrangt ályktað. Fámennisvald getur einnig falið það í sér, virðulegi forseti, að reksturinn gangi vel. Ég vitna sérstaklega til þess, virðulegi forseti, það er full ástæða til þess vegna þess að hv. þm. var að vitna í þátt á Stöð 2 í gærkvöldi í sambandi við gagnrýni hans á fámennisvaldið. Ég tók það fram að það gæti verið þörf á því að setja ákveðnar takmarkandi reglur til að koma í veg fyrir neikvætt fámennisvald í stórum fyrirtækjum. En það vill svo til að fyrirtækið sem hv. þm. vitnaði til áðan, Eimskipafélag Íslands, hefur verið alveg sérstaklega vel rekið á sama tíma og Samband ísl. samvinnufélaga hefur verið illa rekið. Þannig að í því tilviki hefur fyrirtækið sem flokkast undir fámennisvald staðið sig mjög vel.
    Ég skal ekki orðlengja það en það var heldur ekki rétt hjá hv. þm. þegar hann sagði að hann hefði ekki sagt að það þyrfti að endurskoða samvinnulögin. Hann sagði orðrétt: ,,Það er nauðsyn á því að endurskoða samvinnulögin.``