Landgræðsla
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Áður en ég mæli fyrir nál. hv. atvmn. vil ég taka fram að það er mikil ástæða í þessu máli til þess að geta nokkurra atriða sem fram hafa komið í umsögnum um málið sem margar hverjar eru býsna fréttnæmar, bæði fyrir þingmenn og aðra sem á vilja hlýða. Ég vil geta þess í byrjun að það er alveg ljóst að þær landgræðsluáætlanir sem gerðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum hafa meira og minna farið úr böndunum og haft sáralítil áhrif til þess að vernda gróðurlendi Íslands. Ástand á því sviði er nú svo að gróið land er enn þá á undanhaldi og það er álit sérfræðinga að grípa þurfi til örþrifaráða til að stöðva þann uppblástur sem nú á sér stað, bæði á láglendi og hálendi og þá einkum og sér í lagi á afréttum. Vil ég þar nefna til Biskupstungnaafrétt, Landmannaafrétt og Mývatnsafrétt.
    Atvmn. fjallaði um þetta mál og fékk margar gagnmerkar umsagnir um það. Ég vil einkum og sér í lagi geta tilboðs sem kom frá Áburðarverksmiðju ríkisins sem ég hygg að sé alveg einstakt í sinni röð. Áður en ég kem að því vil ég lesa nál. en í atvmn. var algjör samstaða um að fylgja þessari þáltill. og helst að fylgja henni með nokkrum þunga inn í sali þingsins. Í nál. um tillögu um landgræðslu segir á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt.
    Nefndin vill vekja athygli á því að þar sem Alþingi hefur enn ekki afgreitt frumvarp til laga um yfirstjórn umhverfismála liggur ekki fyrir hvort það verkefni, sem landbúnaðarráðherra er falið samkvæmt tillögunni, verði á hans hendi eða hjá umhverfisráðherra.
    Nefndinni bárust umsagnir um tillöguna frá Áburðarverksmiðju ríkisins, landbúnaðarráðuneytinu, Landgræðslu ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Skógrækt ríkisins.
    Ólafur Þ. Þórðarson og Matthías Á. Mathiesen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.``
    Undir þetta álit rita nöfn sín sá sem hér stendur og hv. þm. Hreggviður Jónsson, Geir Gunnnarsson, Jón Kristjánsson og Geir H. Haarde.
    Í tillögugreininni segir á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um aðgerðir til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi þar sem þess er kostur.
    Sérstök áhersla verði lögð á að afmarka þau landsvæði þar sem sandfok á sér enn stað svo að unnt sé að hefja þar skipulagt ræktunarstarf.
    Kannað verði hvort Áburðarverksmiðju ríkisins muni fært að lækka verð á áburði til landgræðslustarfa sem einkum væri ráðstafað til brýnna verkefna.
    Miðað verði við að um næstu aldamót verði uppblástur þessara svæða stöðvaður.``
    Og þá kemur að því sem ég hygg að sé nokkur frétt fyrir hv. þm. Í umsögn og svari

Áburðarverksmiðju ríkisins segir á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Landgræðsla ríkisins hefur á undanförnum árum keypt 1630 tonn af áburði að meðaltali á ári. Ef áburðarkaup Landgræðslunnar ykjust verulega gætu þau viðskipti orðið Áburðarverksmiðjunni mjög hagstæð. Til þess að stuðla að auknum viðskiptum við Landgræðsluna vill Áburðarverksmiðjan því lýsa yfir þeim vilja sínum að selja til Landgræðslunnar áburð sem hún keypti umfram 1630 tonn á ári á afsláttarverði. Gæti afslátturinn numið um það bil 20% af heildsöluverði á hverjum tíma. Afslátturinn yrði þó að vera háður því skilyrði að heildsöluverðið sé á hverjum tíma ákvarðað í samræmi við raunverulegan framleiðslukostnað. Enn fremur telur Áburðarverksmiðjan það eðlilegt að umrædd viðbótarviðskipti á afsláttarkjörum næmu á ári hverju í það minnsta 4--5 daga framleiðslu eða 1000 tonnum.``
    Þetta er auðvitað mjög gott tilboð frá Áburðarverksmiðju ríkisins og fyrir það ber að þakka.
    Ég sagði í upphafi að þær áætlanir sem gerðar hefðu verið hér á landi á undanförnum árum um landgræðslu til þess að hefta sandfok og jarðvegseyðingu hefðu meira og minna farið úr böndunum. Öll álit sérfræðinga sem við höfum undir höndum, og þingmenn hafa væntanlega kynnt sér flestir hverjir, sýna það að þjóðargjöfin margfræga hefur komið að sáralitlu gagni. Í henni felast að vissu leyti svik við þjóðina og svik við gróðurinn í landinu einfaldlega vegna þess að með þjóðargjöfinni var sú yfirlýsing gefin að við ætluðum að stöðva jarðvegseyðingu. Það hefur ekki tekist, því miður. Jarðvegseyðing heldur áfram og við erum stöðugt að tapa grónu landi. Þetta eru auðvitað hörmuleg tíðindi og sérfræðingar fullyrða jafnvel að jarðvegseyðing á Íslandi sé meiri en gerist í þeim löndum þar sem hungur er samfara jarðvegseyðingu og skemmdum á grónu landi. Hún sé hraðari og jafnvel meiri.
    Í umsögn Landgræðslu ríkisins frá Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra segir m.a. og í því felast mikil viðvörunarorð og þetta les ég með leyfi virðulegs
forseta:
    ,,Stefna ber að því að búið verði að stöðva alla hraðfara gróður- og jarðvegseyðingu fyrir aldamót. Tekið er undir þau sjónarmið að sérstök áhersla verði lögð á að afmarka alvarlegustu svæði jarðvegseyðingarinnar til að unnt sé að vinna þar markvisst gróðurverndar- og uppgræðslustarf. Ýmsar forsendur í búskap og landnýtingu almennt hafa breyst á allra síðustu árum. Nauðsynlegt er að taka tillit til þessara nýju viðhorfa við gerð nýrrar áætlunar. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hraða svæðaskiptingu landbúnaðarins með tilliti til landkosta og leita leiða til að auka stjórn á beit á viðkvæðum svæðum.``
    Virðulegi forseti. Þetta eru orð landgræðslustjóra. Ég hef í umræðum um landnýtingu, landeyðingu og gróðurfar í landinu oft minnst á það að ég tel það

hreina fásinnu að miðað við núverandi vitneskju um eyðingu lands, um ástand á afréttum landsins, skulum við enn þá reka fé á afrétti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það ætti að styðja bændur í því að rækta upp heimalönd svo að þessi afréttarupprekstur heyri sögunni til.
    Það væri freistandi, virðulegi forseti, að lesa hér hluta af umsögn fimm mjög kunnra sérfræðinga á sviði landnýtingar sem allir starfa á Rannsóknastofu landbúnaðarins. En þeir tóku sig saman og skrifuðu sameiginlegt álit um þessa tillögu sem þeir fagna mjög eindregið. Þeir segja þar m.a., til þess að lengja ekki þessa umræðu, að þeir telji að áætlunargerð í landgræðslu eigi að fela í sér fjóra meginþætti.
    1. Áætlun um landnýtingu.
    2. Flokkun lands með tilliti til gróðurfars, jarðvegs, ástands gróðurs og jarðvegs og umhverfisþátta.
    3. Val svæða sem græða á upp og ákvörðun um að hvaða gróðurfari skuli stefnt á hverju svæði.
    4. Val aðferða til að ná settu marki.
    Það kemur fram í þeirra umsögn að mikið skortir á að rannsóknarstörfum sé sinnt nægjanlega vel og til þeirra veitt því fjármagni sem nauðsyn krefur á hverjum tíma. Leit að nýjum plöntum sem nota má til jarðvegsbindingar er látlaus, hún fer fram á hverju ári, en til þess að sú leit megi bera árangur þarf meira fjármagn. Og við verðum að gera okkur ljóst að á þessum vettvangi verður ekki árangri náð öðruvísi en að fjárveitingavaldið sjái til þess að meiri fjármunir fari til þessa verkefnis en farið hafa á undanförnum árum. Að öðrum kosti er um tómt mál að tala.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég ítreka það sem ég hef oft sagt hér í sölum þessa virðulega húss þegar umræður hafa farið fram um landgræðslu og landnýtingu, að áhugi þingmanna á þessum málaflokki virðist oft og tíðum vera bundinn ræðum sem þeir flytja við hátíðleg tækifæri. Áhuginn nær oft og tíðum ekki inn í þingsali eins og í svo mörgum öðrum málum sem hér er fjallað um. Þetta er auðvitað alveg hörmulegt vegna þess að við erum og okkur er ætlað að vera gæslumenn þess gróðurlendis sem við eigum að afhenda komandi kynslóðum og börnunum okkar. Og mér finnst einhvern veginn að í þessum málaflokki hafi ríkt allt of mikið ábyrgðarleysi af hálfu þjóðþings Íslendinga. Það hafi ekki verið tekið á þessum málaflokki af neinni alvöru. Við höfum gefið yfirlýsingar við hátíðleg tækifæri, samanber þjóðargjöfina frægu sem var engin þjóðargjöf því að það var ekkert gefið. Það var ekkert gefið. Þess vegna hvet ég til þess að þessi till. til þál. verði nú samþykkt og að ríkisstjórnin taki við henni opnum örmum og hyggi að því sem í þáltill. segir og geri eitthvað í framhaldi af því. Ég vil líka þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir það frumkvæði sem hann hafði að flutningi þessarar tillögu.