Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988. Í frv. eru lagðar fyrir Alþingi til ákvörðunar og afgreiðslu niðurstöður ríkisreiknings á greiðslugrunni þar sem gerð er grein fyrir þeim greiðslum sem veittar voru á árinu 1988 umfram samþykktar heimildir einstakra stofnana í fjárlögum og lögum nr. 10/1988.
    Ég hef áður gert Alþingi ítarlega grein fyrir þróun ríkisfjármála á árinu 1988, annars vegar með árlegri skýrslu um ríkisfjármál og framkvæmd lánsfjáráætlunar frá 14. apríl 1989 og hins vegar með skýrslu um aukafjárveitingar á tímabilinu október--desember 1988. Þá liggur fyrir endurskoðunarskýrsla yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning fyrir árið 1988.
    Ég ætla hér við 1. umr. ekki að fara mörgum orðum um einstaka þætti frv. Í frv. er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var í fjáraukalögum 1987 og 1989, þ.e. að gerð er nákvæm grein fyrir umframgreiðslum úr ríkissjóði hjá öllum stofnunum ríkisins sem ekki tókst að halda rekstri sínum innan marka fjárlaga. Einnig er fylgt þeirri meginreglu að frv. er sett fram á svipaðan hátt og fjárlög og þær tölur sem þar koma fram gefa til kynna þau frávik sem urðu frá þeim greinum fjárlaga sem fjalla um útgjöld ríkissjóðs.
    Þetta er gert þannig að í 1. gr. frv. eru sett fram þau frávik sem urðu frá 1. gr. fjárlaga ásamt ákvörðunum í lögum nr. 10/1988 og greiðsluyfirliti ríkissjóðs samkvæmt niðurstöðum ríkisreiknings 1988 á greiðslugrunni.
    Í 2. gr. frv. er gerð grein fyrir umframgjöldum einstakra ráðuneyta miðað við 2. gr. fjárlaga fyrir 1988 og lög nr. 10/1988.
    Í 3. gr. frv. er síðan að finna umframgreiðslur vegna einstakra stofnana umfram ákvæði 4. gr. fjárlaga og heimilda í lögum nr. 10/1988. Með þessu móti er vonast til að hv. þingmenn geti með sem auðveldustum hætti gert sér grein fyrir umframgreiðslum til einstakra stofnana miðað við fjárlög og ákvarðanir í lögum nr. 10/1988.
    Frv. fylgir grg. um helstu ástæður frávika á milli fjárlaga og niðurstöðu ríkisreiknings á greiðslugrunni og verður það sem þar stendur ekki endurtekið hér. Í grg. er gerð sérstök gein fyrir þeim B-hluta fyrirtækjum og sjóðum sem tengjast A-hluta ríkissjóðs með beinum hætti. Annars vegar er um að ræða fyrirtæki og sjóði B-hluta sem fá bein framlög frá A-hluta ríkissjóðs og hins vegar aðila sem gert er að skila hagnaði af starfsemi sinni í ríkissjóð.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. var í fjárlögum gert ráð fyrir að framlög A-hluta til B-hluta nettó yrðu um 556 millj. kr. Niðurstaðan varð hins vegar að framlög til B-hluta fyrirtækja og sjóða umfram skil á hagnaði urðu um 1140 millj. kr. og urðu því umframgreiðslur til B-hluta fyrirtækja og sjóða 584 millj. kr. Aðalskýringarnar á þessum

mismun eru umframgreiðslur vegna hallareksturs Þjóðleikhússins, en þær námu um 242 millj. kr. og greiðslur til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækkuðu um 129 millj. kr. vegna verðlagsbreytinga. Þá voru veittar aukagreiðslur til Byggingarsjóðs ríkisins að fjárhæð 75 millj. kr. vegna greiðsluörðugleikalána og um 94 millj. kr. til fyrirtækja á vegum landbrn., en þar er aðallega um að ræða afskriftir á skuldum grænfóðurverksmiðja. Aðrar umframgreiðslur námu samtals 74 millj. kr.
    Af gefnu tilefni tel ég rétt að víkja nokkrum orðum að uppgjörshætti fjárlaga og ríkisreiknings. Ríkisreikningur er gerður upp á svokölluðum rekstrargrunni, þ.e. tekið er tillit til skuldbindinga hvort heldur þær eru kröfur á ríkissjóð eða öfugt. Niðurstöðutölur ríkisreiknings eru því ekki hreinar greiðslustreymisfjárhæðir sem eru fyrst og fremst áhugaverðar þegar fjallað er um ríkisfjármálin í almennri efnahagsumræðu. Á síðari árum hefur þó einnig verið birt í ríkisreikningi yfirlit um greiðslustreymisfjárhæðir og er svo einnig í ríkisreikningi 1988.
    Eins og segir í athugasemdum með fjáraukalagafrv. og einnig er skýrt í athugasemdum með greiðsluuppgjöri í ríkisreikningi eru nokkrar háar fjárhæðir sem ekki teljast greiðsluhreyfingar taldar með. Til þess að tryggja að fullt samræmi væri milli greiðsluyfirlits ríkisreiknings og niðurstöðu fjárlagafrv. eru í athugasemdum frv. sýndar á bls. 13 tvær niðurstöðutölur uppgjörs fyrir árið 1988, annars vegar það sem kallað er bráðabirgðauppgjör 1988 og hins vegar reikningur 1988. Mismunartala gjalda, sem er alls 1 milljarður og 35 millj. kr., skýrist af, eins og segir í athugasemdum, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Strangt tekið eru þessar færslur ekki greiðslustreymistölur úr ríkissjóði, en eru eigi að síður færðar í endanlegu greiðsluuppgjöri ríkisreiknings 1988. Þessi liður er yfirtaka lána hjá hitaveitum að fjárhæð 138 millj. kr., uppgjör vegna Útvegsbanka Íslands hf. að fjárhæð 384 millj. kr., afskriftir á skammtímakröfum að tilhlutan Ríkisendurskoðunar að fjárhæð 382 millj. kr. og aukin vaxtagjöld að fjárhæð 130 millj. kr. Auk þessa er um að ræða 40 millj. kr. hækkun framlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en á móti kemur að kostnaður vegna Bifreiðaeftirlits ríkisins lækkar um 20 millj. kr. og kostnaður vegna Gjaldheimtunnar í Reykjavík lækkar um 18 millj. kr.``
    Virðulegi forseti. Í greinargerð um afkomu ríkissjóðs á árinu 1989, sem lögð var fram fyrir nokkru síðan, er gerður samanburður við afkomu ríkissjóðs 1988 í nokkrum tilvikum. Til þess að skekkja ekki samanburð áranna 1988 og 1989 hef ég borið saman greiðsluhreyfingartölur beggja ára á sambærilegum grundvelli. Hefði samanburðurinn verið við reikningsniðurstöður hefði útgjaldahækkunin milli ára orðið talsvert minni.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. til fjáraukalaga vísað til hv. fjv. Það er mjög mikilvægt að nefndin hafi tækifæri til að fara ítarlega yfir málið og þingheimi gefist tækifæri að lokinni þeirri yfirferð til að fjalla nánar

um niðurstöðu ríkisrekstursins á árinu 1988.