Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki vera langorður en vil rétt minna hæstv. fjmrh. á að það hefði mátt leggja þetta frv. til fjáraukalaga fyrr fram, en betra er seint en aldrei. Ég geri þó athugasemd við það að í því skuli ekki vera gjaldfærður sá hluti sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var látinn greiða fiskvinnslunni eða neikvæðar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði á árinu 1988 og eins 1989. Það heyrir reyndar ekki undir þessi fjáraukalög. En ég vil gera athugasemdir við það og spyrja fjmrh. hvers vegna hann fallist ekki á þau rök að rétt sé að gjaldfæra í ríkissjóð fjárgreiðslur sem þegar hefur verið lýst yfir að fiskvinnslan verði ekki látin endurgreiða. Tveir hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa gert það, forsrh. og sjútvrh. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa fyrir hæstv. fjmrh. og aðra hv. þm. úr lögum um ríkisbókhald. Það stendur hér í 30. gr. laga um ríkisbókhald, svohljóðandi: ,,Gjöld skulu færð á því ári er afhending verðmæta fer fram og hvers konar vinna eða þjónusta er innt af hendi er hefur för með sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkið eða greiðslu úr ríkissjóði.`` Samkvæmt þessum texta á að færa þetta til gjalda því að þegar hefur verið sagt að sjávarútvegurinn verði ekki látinn endurgreiða það. Hér er um að ræða skekkju í ríkisbókhaldinu í dag samtals upp á um 1,5 milljarða sem ríkissjóður stendur verr en hæstv. fjmrh. hefur viljað viðurkenna.
    Í þeirri umræðu sem fer fram í dag um ríkisfjármál er engum greiði gerður með því að sópa greiddum fjármunum undir teppið á kostnað framtíðarinnar. Það þjónar ekki tilgangi, það er rangt og gefur skakka mynd af raunverulegri stöðu ríkissjóðs. Af því leiðir að allar opinberar tölur um ríkisbókhald verða ekki réttar, nema það sé meiningin að láta sjávarútveginn endurgreiða þessa fjármuni. Það stendur í lögunum um Verðjöfnunarsjóð, bráðabirgðalögum frá árinu 1988, að það sem eftir standi af þessum fjármunum árið 1992 falli á ríkissjóð. Auðvitað er hreint fráleitt að halda því fram að hægt hafi verið árin 1988 og 1989 að ákveða fjárveitingu ársins 1992. Það er alveg glórulaust að ætla sér að halda svoleiðis löguðu fram. Og þó að talað sé um að lagfæra svona hluti, og margt er nú verið að færa til betri vegar, er enginn sómi í því að vera að sópa svona hlutum undir teppið á kostnað framtíðarinnar, eins og ég sagði áðan.
    Ég tel að hér sé um rangfærslur í ríkisbókhaldi að ræða og þetta hefði átt að gjaldfærast á fjáraukalögum 1988 og 1989. Ég vil spyrja fjmrh. að því aftur hvenær hann ætli að drífa í því að gjaldfæra þetta þannig að bókhald ríkisins geti verið rétt.