Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það verður þó aldrei um hv. 3. þm. Norðurl. e. sagt að hann hafi ekki kjark til að segja satt um það að hann sótti mjög á ráðherra um að fá þessa fjárveitingu. Aftur á móti hafði hann hljótt um það hvenær það var. En það kom fram í Degi, eins og ég sagði, að hann var að þessu á sama tíma og nefndin var að störfum. Og það kom líka fram að hann hafði fengið jákvæðar undirtektir og þar með staðfesti hann það sem ég sagði hér áðan, að ég teldi að ráðherrann hefði logið vegna þess að formaður fjvn., í vitna viðurvist í fjvn., lýsti því yfir að hann hefði ekkert slíkt loforð gefið. Það liggur alveg ljóst fyrir og ég skal aldrei trúa því að það lið sem ég sit með í fjvn. muni ekki bera sannleikanum vitni í þeim efnum að formaðurinn lýsti því yfir eftir ráðherranum að ekkert slíkt loforð hefði verið gefið.
    Ég hef ekki sakfellt hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að vinna að uppgangi þessa skóla, þar erum við alveg sammála. Skólinn er merkur í sínu hlutverki í skólakerfinu og á allt gott skilið. Spurningin var aðeins þessi. Það voru tveir möguleikar: Annars vegar að flytja brtt. við fjárlagafrv. og láta reyna á það hvort þingið samþykkti brtt. ( ÁrnG: Ég hélt að það væri fjvn. sem það gerði.) því að það er nú einu sinni svo að fjvn. úthlutar ekki fjármunum. Í eðli sínu leggur hún tillögur fyrir þingið. Það eru örfáir litlir skiptiliðir sem hún skiptir og má segja að hún fái á þann hátt rétt til úthlutunar. En hún leggur tillögur fyrir þingið. Og hverjir skyldu nú að stórum hluta móta þær tillögur sem hún leggur fyrir þingið? ( ÁrnG: Hagsýslan.) Hagsýslan, það er rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., og ráðherrarnir. Fagráðherrarnir leggja fram tillögur um það hvað þeir vilji að hafi forgang í sínum ráðuneytum. Þeir leggja þær tillögur fram. Og hér stendur hv. 3. þm. Norðurl. e. upp og vill halda því fram að það sé einhver kattarþvottur sem ég sé að framkvæma hér, engilhreinn í framan. Ég hef að vísu aldrei séð ketti nema þokkalega til fara þannig að mér sýnist að þeir sleppi nú hjálparlaust hvað þvottinn snertir. En ég vil bara segja það alveg eins og er að ekki er hægt að áfellast neinn mann fyrir það þó að hann hafi áhuga á einhverju og vilji vinna að því. Spurningin er fyrst og fremst þessi: Er það heiðarlegt af framkvæmdarvaldinu að vinna á tveimur stöðum samtímis að fjárlagagerðinni? Það var það sem ég var að koma hér á framfæri. Og ég bið hv. þm. að misskilja það ekki. Ég tel að ekki nái nokkurri átt að halda mönnum í vinnu frá því að þing er kallað saman á haustin og fram að jólum, í mikilli vinnu, fyrir fram ákveðnir í því að taka ekkert mark á niðurstöðunni. Það er þetta sem ég er að undirstrika. Ég held aftur á móti að þessi umræða hafi sannað að hún átti rétt á sér vegna þess að hv. 3. þm. Norðurl. e. lýsti því yfir hér í ræðustól að hann vildi breytt vinnubrögð. Og ég fagna því.
    Hins vegar, herra forseti, hóf hv. þm. hér umræðu um mál sem ekki er á dagskrá, ( Gripið fram í: Frú forseti.) herra forseti, og setti mig í verulegan vanda.

Það er ekkert þingskjal hér sem ég hef skrifað undir sem segir fyrir um mína afstöðu. En þetta mál fjallar um laxeldi. Það fjallar ekki um fjárframlög íslenska ríkisins, það fjallar um ábyrgðir.
    Ríkið ber ábyrgð á ýmsu. Það ber m.a. ábyrgð á Framkvæmdasjóði Íslands sem að stofni til kemur frá Marshall-aðstoðinni, Mótvirðissjóði, og ef --- og nú bið ég hv. 3. þm. Norðurl. e. að taka vel eftir --- ef við stöndum þannig að rekstrargrundvellinum fyrir laxeldið að það eigi enga möguleika hér innan lands til fjármögnunar, þá er ekki nema tvennt sem gerist: Annars vegar tapar Framkvæmdasjóður Íslands og verður gjaldþrota á því tapi sem þá bætist við eða þá að þeir aðilar sem eru í þessu fiskeldi selja erlendum aðilum hlutabréf í fiskeldinu og útlendingar yfirtaka þessa nýju atvinnugrein. Það er þeim frjálst að gera samkvæmt íslenskum lögum. Og ég segi það alveg eins og er að það er ekki bara Framkvæmdasjóður sem mun tapa. Þeir munu tapa fleiri sjóðirnir á Íslandi og það stórum upphæðum ef svo fer að menn vilja ekki skapa fiskeldinu rekstrargrundvöll.
    Ég mun hugsa mig um tvisvar áður en ég styð þá stefnu sem flytur þessa nýju atvinnugrein í hendurnar á útlendingum, ég mun hugsa mig um tvisvar. Þegar mönnum er stillt upp við vegg að tapa öllu eða afhenda útlendingum yfirráðin hljóta þeir að hugsa sig um. Er það það sem Alþingi Íslendinga telur sanngjarnan möguleika, að þessir menn eigi að fara til kóngsins Kaupmannahafnar eða New York eða annarra staða og leita þar eftir hlutafé? Er það það sem þeir vilja að þeir geri til að laxeldið haldi velli? Ég held að framkvæmdarvaldið þurfi að hugsa sig um. Það ber ábyrgð á Framkvæmdasjóði Íslands í dag. Hæstv. forsrh. og fjmrh. ásamt Seðlabankanum skipa stjórnina. Hvernig skyldi hafa farið fyrir eigin fé þessa sjóðs þann tíma sem þeir báru ábyrgðina? Hefur hv. 3. þm. Norðurl. e. kynnt sér það? Og ef menn telja nú að vænlegasti kosturinn sé að setja laxeldið á hausinn í stórum stíl ... ( Fjmrh.: Það er enginn að tala um það. Það var verið að tala um það hvað ríkið á að borga mikið af ...) Hæstv. fjmrh. gerði hér athugasemd og mér vitanlega lýsir athugasemdin, miðað við að hér talar greindur maður, því að hann hefur ekki
kynnt sér málið. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á það að mál það sem hann hefur nú gert að umræðuefni verður á dagskrá í hv. Nd. og er allt annað mál en hér er verið að tala um.) Ég þakka hæstv. forseta þessa ábendingu. Hæstv. forseti hefði gjarnan mátt vera svona vel vakandi þegar hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði hér og gefið honum ábendinguna.