Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. Mér finnst hún vera ákaflega fróðleg og ég efast ekki um að hún sé gagnleg. Þetta er nauðsynleg umræða. Stundum hefur það gerst að hæstv. fjmrh. hefur ekki svarað þegar maður er að spyrja hann og ég var að spyrja hann hér áðan í sambandi við Verðjöfnunarsjóð og ætlaði að vera á undan og minna hann aftur á að svara hér tilteknum spurningum um Verðjöfnunarsjóð. ( Fjmrh.: Ég svaraði því í fyrirspurnatíma.) Því hefur ekki verið svarað. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. segist hafa svarað þessu, en ég ætla þá að leyfa mér að lesa aftur upp fyrir hann hérna úr lögum um ríkisbókhald, 30. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gjöld skulu færð á því ári er afhending verðmæta fer fram og hvers konar vinna eða þjónusta er innt af hendi er hefur í för með sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkið eða greiðslu úr ríkissjóði.``
    Þetta er ákaflega skýrt orðalag. Hæstv. fjmrh. hefur verið að tala um að lagfæra ýmislegt í ríkisbókhaldinu og ég hef ekkert nema gott um það að segja. Hér var hann t.d. í gær með tillögur um umbætur við fjármálastjórn ríkisins, nýskipan í samskiptun löggjafarvalds og framkvæmdarvalds af vettvangi ríkisfjármálanna um aukið aðhald í ríkisrekstrinum. Þetta er voða fallegur texti. Hér eru 14 minnispunktar. Í ljósi þessa plaggs sem hann lét frá sér í gær finnst mér það vera frekar ömurlegt að taka þátt í því að leggja hér fram frv. til fjáraukalaga sem allir vita að er ekki rétt. Inn í það vantar gjaldfærslur Verðjöfnunarsjóðs, upphæðir sem er búið að borga og verða ekki endurgreiddar og allir vita að verða ekki endurgreiddar. Meira að segja eru tveir hæstv. ráðherrar búnir að gefa yfirlýsingu um að þær verði ekki endurgreiddar. Fyrir utan það er búið að bókfæra þetta sem eign hjá viðkomandi fyrirtækjum. Eign getur ekki verið bókuð á tveimur stöðum, hæstv. fjmrh. Það er útilokað. Þetta eru 1500 millj. í dag. Þó að hluta af því eigi bara að gjaldfesta á fjáraukalög 1988, þá er hér um rangfærslur í bókhaldi að ræða. Ef menn í raun og veru ætla sér að taka á þessum ríkisfjármálum þýðir ekki að vera að sópa málinu undir teppið. Það eru líka fleiri hlutir eins og í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem á eftir að gjaldfæra sem búið er að semja um. Hver sú upphæð er veit ég ekki. Það gæti þess vegna verið annar 1 1 / 2 milljarður. Af hverju er verið að færa þetta allt saman skakkt og vitlaust ef menn í alvörunni ætla sér að gera eitthvað í þessum málum? Koma svo með fín plögg og tala um umbætur í fjármálastjórn ríkisins, nýskipan í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds en gera svo ekkert í því. Ég get satt að segja ekki ætlað hæstv. fjmrh. annað en að hann ætli sér eitthvað með þessari umræðu.
    Mér finnst líka rétt að minna á það, úr því að ég er kominn hér aftur, að þessi umræða er bara sönnun þess að kerfið hér á Íslandi gengur sjálfala, það er engin stjórnun á þessu. Hvernig má það vera að slíkt sé hægt? Hvernig má það vera að fjmrh. landsins geti

komist upp með það að reka ríkissjóð með fleiri, fleiri, fleiri milljarða halla án samþykkis Alþingis? Hvernig gerist svoleiðis? Það gerist með því að það er prentað fyrir hallanum. Þeir prenta bara seðla fyrir hallanum og hafa gert öll þessi ár og sérstaklega árið 1988 því að þá var ekki nóg með það að halli ríkissjóðs væri 8 milljarðar, heldur var efnt til skuldbreytinga í sjávarútvegi upp á marga milljarða. Og það var allt saman prentað líka. Eiga menn svo von á góðu? Í sannleika sagt er skelfilegt að verða vitni að svona fjármálastjórn. Verðmæti verða ekki til við prentun.
    Einn ágætur maður sagði eitt sinn: Tveir menn róa til fiskjar og draga 10 fiska. Þessir tveir menn skipta aldrei nema 10 fiskum í fjörunni. Verðmæti verða ekki til við prentun. Seðlaprentun er ávísun á verðmæti, en hvar? Hvar eru verðmætin tekin? Hvar er mótbókunin, hin dulbúna mótbókun? Hvar er hún? Hún er hjá framleiðslufyrirtækjunum í landinu og hjá unga fólkinu sem skuldar peninga. Þar er mótbókunin. Það er alltaf einhvers staðar mótbókun. Það er debet og kredit í bókhaldi. Einu sinni var stolið af sparifjáreigendum með þessari seðlaprentun en síðustu árin hefur verið stolið af framleiðslufyrirtækjum. Þess vegna er þessi umræða mjög nauðsynleg og ég vil ítreka þessa fyrirspurn til fjmrh., hvers vegna hann telji ekki rétt að gjaldfæra það sem augljóst er að eigi að gjaldfæra og skylt að gjaldfæra.