Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Á fundi í hv. Nd. í gær og aftur hér í dag hefur það verið ítrekað hvað eftir annað að mjög brýnt sé að afgreidd séu fjáraukalög vegna þeirra breytinga sem gera á á greiðsluskyldum ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Ef það er vilji hv. Alþingis að þessari nýskipan í meðferð ríkisfjármála verði fylgt eftir, og ég hef lýst því yfir margoft og ég hef sýnt það í verkum mínum að ég er tilbúinn að fylgja eftir þessari nýskipan, þá er líka mikilvægt að Alþingi sýni þessari nýskipan þá virðingu að hafa á því skilning að nauðsynlegt er að taka þau fjáraukalög fyrir og afgreiða þau á tiltölulega stuttum tíma. ( Gripið fram í: Rétt.)
    Ég ætla ekki að gera athugasemd við að þessari umræðu var frestað, en ég vek athygli á því að formaður Sjálfstfl. óskaði eftir því hér fyrr í dag að nk. mánudag yrði alfarið umræða um EFTA--EB hér í Sþ. Væri farið að þeirri ósk kæmi ekki að nýju tækifæri til þess að mæla fyrir þessu fjáraukalagafrv. fyrr en næsta fimmtudag. Tíminn líður senn að páskaleyfi þingsins. Það væri í algeru ósamræmi við eðli fjáraukalagafrumvarpa vegna breytinga á fjárlögum yfirstandandi árs ef það ætti að dragast um 2--3 vikur að skapaður yrði tími hér á Alþingi til þess að mæla fyrir frv. og það yrði síðan ekki afgreitt fyrr en eftir páska. Ég hlýt sem fjmrh. og þeir sem á eftir mér koma að fara að hugleiða hver sé eiginlega tilgangurinn með því að færa Alþingi þetta vald á nýjan leik sem beðið hefur verið um ef þingið sýnir málinu svo lítinn áhuga sem raun ber vitni varðandi þann fjölda þingmanna sem hefur ætlað sér að taka þátt í þessari umræðu hér í dag eða áhuga manna á því að geyma umræðuna og jafnvel geyma hana enn áfram í næstu viku. Formaður Sjálfstfl. setti fram þá kröfu í dag að næsti fundur í Sþ. yrði helgaður umræðum um EB--EFTA.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að leggjast gegn því að þessari umræðu verði frestað vegna þess að ég tel satt að segja að það sé fyrir neðan virðingu þingsins að ræða frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár við þær aðstæður og þá þátttöku sem viðvera manna hér í þingsalnum gefur til kynna. En það hvarflar kannski að mér hvort það sé bara nokkur alvara á bak við þá ósk og kröfu þingsins að vilja taka upp þessa nýskipan í stjórn ríkisfjármála sem við höfum talað hér um og sumir þeir sem hástemmdustu ræðurnar hafa flutt um það mál eru farnir úr salnum, hafa greinilega engan áhuga á því að tala um málið í reynd. Ég verð hins vegar að bera fram þá ósk við virðulegan forseta að nk. mánudag verði skapaður tími hér í þinginu til að mæla fyrir þessu frv. svo að hv. fjvn. geti fengið það til meðferðar. Því í þessu frv. er verið að leggja til niðurskurð á ríkisútgjöldum og það eru fjölmargir aðilar í þessu þjóðfélagi sem bíða eftir því að fá að vita varðandi ákvarðanir sínar, framkvæmdir, fjárfestingar og rekstur á þessu ári, hver verður hin endanlega afgreiðsla þingsins á málinu. Þess vegna er mjög brýnt að málið sé afgreitt til fjvn.

í byrjun næstu viku.
    Ég endurtek það svo að ég ætla ekki að leggjast gegn því að þessari umræðu sé frestað, en ég verð því miður að bera fram þá ósk við forseta þingsins að þessi umræða fái þá forgang fram yfir umræðuna um EB--EFTA nk. mánudag þótt fyrr í dag hafi verið sett fram sú ósk að fram yrði haldið þeirri umræðu sem hófst í nóvember um EFTA og EB-viðræður.