Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það að þetta mál kemst ekki til nefndar í dag. Þó hægt yrði að mæla fyrir báðum þessum frv. þá getur atkvæðagreiðsla ekki farið fram. Það er ljóst vegna þess að hér munu ekki vera nema liðlega 20 þingmenn í þinghúsinu. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar komið er svo langt fram á dag, þingfundur hófst kl. 10 í morgun og nú er klukkan farin að ganga 6. Þingmenn nota oft tímann á fimmtudögum og eru búnir að binda sig á öðrum fundum. Af gefnu tilefni, vegna þess að hæstv. fjmrh. minntist á að þingmenn sýndu málinu ekki áhuga með því að vera ekki hér við umræðuna, þá veit ég til þess að t.d. hv. 2. þm. Norðurl. v. er bundinn á fundum hér í þinghúsinu með mönnum úr sínu kjördæmi. Ég veit að hann hefði viljað vera við þessa umræðu, en var búinn að binda sig á öðrum vettvangi.
    Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram um leið og ég ítreka það að hvort eð er fara þessi mál ekki til nefndar í dag þannig að það yrði að dragast fram yfir helgi að atkvæðagreiðsla færi fram.