Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst vonlaust að lúta þessum úrskurði forseta. Mér finnst það alveg makalaus ósvífni af stjórnarandstöðunni að semja fyrst um dagskrá og ryðjast svo hér upp í pontu til að þrasa um það að ekki sé hægt að fara eftir henni. Hvernig hefur forseti hugsað sér að vinna? Telur hann rétt að svíkja þau loforð sem gefin hafa verið formanni Sjálfstfl. um dagskrá á mánudegi? Eru það eðlileg vinnubrögð? Hvenær hefur það gerst að fjárlög fyrir yfirstandandi ár væru orðin að aukaatriði í umræðu á Alþingi? Aldrei. Það er talað um að hér eigi að fara fram umræða um fjáraukalög 1990. Svo dettur mönnum bara í hug að það sé hægt að fleygja þessu út af dagskránni eins og einhverju aukaatriði.
    Ég mótmæli svona löguðu. Og ég skil ekki hvernig þingmenn Sjálfstfl. láta sér detta í hug að vaða uppi á þennan hátt. Það geta fleiri farið í þras um þingsköp ef þessi vinnubrögð eiga að verða það sem hefur betur í umræðunni í þinginu. Það hlýtur að verða að halda sem samið er undir þessum kringumstæðum við formann Sjálfstfl. og ég krefst þess af forseta að hann virði það og þessi umræða verði kláruð. Ég gef ekkert fyrir þau rök að fimmtudagar séu sérstaklega hugsaðir til þess að menn séu að þvælast út um borg og bý. Þeir sem vita að hér er fundur og vilja vera við geta verið hér við og þeir hljóta þá sjálfir að ráða sínum tíma. En það er merkileg árátta þegar sumir telja að það sé einhver heilög tala þegar klukkan verður 5, þá sé það búið spil, nú eigi þeirra mál sérstaklega að vera tekin fyrir á dagskrá.