Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en hins vegar verð ég að koma hér í ræðustól á ný vegna þess að hv. 14. þm. Reykv. virðist hafa misskilið ræðu mína hér áðan hrapallega ef hann heldur að ég hafi gefið einkaframtakinu einhvern sérstakan gæðastimpil í minni ræðu. Það var einmitt það sem ég gerði ekki þó ég segði að hlutafélagsformið væri liðlegra eins og nú standa sakir til þess að taka upp nýja starfsemi. Hann kom að því sjálfur í ræðu sinni síðar að hlutafélagsformið er náttúrlega meingallað og hann er sammála mér í því að það getur leitt til mikillar fámennisstjórnar og hringamyndunar þannig að ég sé ekki að það skilji svo mikið á milli okkar þegar allt kemur til alls. Hv. 14. þm. Reykv. fór í hring í ræðu sinni í þessum efnum og ég tek auðvitað ekkert aftur af því sem ég hef sagt, að það þarf að endurskoða samvinnulögin og laga þetta ágæta form að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Það er mergurinn málsins.