Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 12. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. beindi því til Alþingis, bæði til hæstv. forseta og okkar hv. þm. og fjvn. að það væri mikil nauðsyn á að afgreiða þetta frv. hið allra fyrsta og að ekki færi svo að það lægi vikum saman til meðferðar hjá hv. fjvn. og Alþingi.
    Í sjálfu sér er hægt að taka undir það með hæstv. fjmrh. að það eru ekki heppileg vinnubrögð að hafa mjög lengi til meðferðar mál sem lúta að því að taka upp fjárlög fyrir gildandi fjárlagaár. Frv. er flutt, eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra, í tengslum við ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins um að ráðast að því verki að skera niður ríkisútgjöldin til þess að mæta áhrifum útgjaldaaukningar vegna kjarasamninganna. Nú er komið á annan mánuð síðan kjarasamningar voru gerðir. Ekki er hægt að segja að hæstv. ríkisstjórn hafi unnið skarplega að þessu máli þegar það kemur þá fyrst til 1. umr. að liðinn er meira en mánuður frá því að kjarasamningar voru gerðir og hæstv. ríkisstjórn hefur haft allan þann tíma til þess að undirbúa málið og koma því áfram. Og þó að meðferð frv. taki nokkurn tíma, sem hlýtur að verða, getur hæstv. ríkisstjórn átt um það við sjálfa sig að hafa eigi unnið skarplegar að því en raun ber vitni að koma þessu máli fyrir þingið.
    Hæstv. ráðherra hlýtur að verða að taka þessi atriði til greina. Það er svo aftur önnur saga að þær tillögur sem hafa verið á kreiki af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um niðurskurð ríkisútgjalda á þessu tímabili, frá því að kjarasamningar voru gerðir og þangað til frv. loks kemur fram, hafa verið með næsta sérkennilegum hætti. Ég man aldrei eftir því fyrr að hæstv. ríkisstjórn hafi kosið að birta sínar tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda í fjölmiðlum áður en þær hafa verið lagðar fyrir Alþingi. Jafnvel áður en þær hafa verið lagðar fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar hér á hinu háa
Alþingi. Þetta hefur þó verið raunin og ég trúi því sem mér er sagt af ýmsum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar hér á hinu háa Alþingi að þeir hafi ekki séð tillögurnar sem mótast hafa hjá ríkisstjórninni fyrr en þær birtust í fjölmiðlum. Síðan hafa þessi drög að tillögum, sem birtust í fjölmiðlum, tekið nokkrum breytingum frá einni viku til annarrar og allt farið fram fyrir opnum tjöldum áður en tillögurnar voru lagðar fyrir Alþingi. Þetta eru vítaverð vinnubrögð þannig að þess er naumast að vænta að gott lag komist á þessi mál.
    Það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi ekki ætlast til að svo færi en þó er einkennilegt ef það er rétt, sem ég hef sannar spurnir af, að þegar tillögurnar voru gerðar og komu fram innan ríkisstjórnar þá hafi þær fyrr birst fjölmiðlamönnum og þjóðinni í gegnum fjölmiðla en stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar. Þessa sögu þekkja allir og ég skal ekki hafa um hana fleiri orð en hún er síst til eftirbreytni.
    Frv. sem hér liggur fyrir, frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 og er með undirfyrirsögn ,,vegna

kjarasamninga í febrúar 1990``, er vissulega nokkuð tengt þeim kjarasamningi og það er auðvitað flutt svo snemma árs vegna ákvarðana sem þá voru teknar. Hins vegar er það ofrausn að láta þetta atriði koma fram í fyrirsögn frv. og það á þar ekki heima. Eðlilegt væri að þetta atriði kæmi fram í grg. frv. en ekki í sjálfum lagatextanum. Það er enda svo að mikil þörf væri á því að taka ýmislegt fleira til athugunar í þessu máli en það sem beint kemur við kjarasamningunum. Ég skal síst mæla gegn því að í tengslum við þá var auðvitað augljós sú þörf að draga úr ríkisútgjöldum á þessu ári. Sú þörf var þó vitaskuld brýn fyrir, vegna þess að fjárlögin voru afgreidd, eins og þau liggja fyrir nú, með um 3,7 milljarða halla og dulinn halli í fjárlagadæminu var ekki fjarri 3 milljörðum, eins og ég hef ítrekað lýst. Þannig að ærið tilefni var til, þó að kjarasamningar hefðu ekki komið til, að draga úr útgjöldum ríkisins á þessu ári.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér að þetta væri í annað sinn sem hann beitti sér fyrir niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs fyrir þetta ár, það hefði einnig gerst á milli 2. og 3. umr. um fjárlagafrv. í desember á síðasta ári. Það má vel vera rétt. En það er óhætt að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. hefur í sinni fjármálaráðherratíð haldið svo á fjármálum ríkisins á síðasta ári að útgjöld ríkissjóðs umfram fjárlög voru með fjáraukalögum 20. des. aukin um 8,5 milljarða kr. Nú liggur það fyrir samkvæmt yfirliti um afkomu ríkissjóðs á árinu 1989 að útgjöldin aukast enn um 1000--1100 millj. kr. og hafa því aukist á síðasta ári um 9600 millj. kr. umfram fjárlög. Þetta gerist þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. lýsi sér sem sérstökum niðurskurðarmanni og sem sé afar duglegur við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.
    Það liggur sem sagt fyrir að á rúmri viku, frá því að fjáraukalög voru afgreidd rétt fyrir jólin og til áramóta, hækkuðu útgjöld ríkissjóðs enn um liðlega 1 milljarð. Þau eru drjúg verkin hjá hæstv. fjmrh. og hans fylgifiskum dagana milli jóla og nýárs. Þannig er um sparnaðinn og niðurskurðinn hjá hæstv. fjmrh. miðað við það sem reynslan kennir okkur. Hver niðurstaðan kann að verða á þessu fjárlagaári skal ég ekki spá um.
    Frv. sem hér liggur fyrir er að því leyti sérkennilegt, miðað við önnur slík mál, að í því er niðurskurður allt niður í 10 þús. kr. á einstaka fjárlagaliði. Þetta kemur fram í tillögum hæstv. fjmrh. örfáum vikum eftir að hann hefur staðið fyrir því, dagana milli jóla og nýárs, að auka útgjöld ríkissjóðs um liðlega milljarð umfram fjárlög og fjáraukalög. Það eru nákvæmar áætlanir hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. að leggja hér fram frv. sem í ýmsum greinum felur í sér að einstaka fjárlagaliði skuli skera niður um 10 þús. kr., aðra um 20 þús. kr., í þriðja lagi um 50, 60, eða 70 þús. o.s.frv.
     Nú ber út af fyrir sig ekki að lasta það ef þetta væri raunhæft. En spyrja má hvort svo sé og því verður vitaskuld ekki svarað í þessum umræðum heldur mun svarað ýmsum fyrirspurnum sem við úr stjórnarandstöðunni viljum bera fram við meðferð

þessa máls í fjvn. og verður væntanlega að því vikið við síðari umræðu málsins.
    Ég vil hins vegar geta þess að þrátt fyrir að hér sé farið svo grannt í saumana að gera tillögur um 10 þús. kr. niðurskurð á hinum ýmsu fjárlagaliðum, er hvergi tekið á því sem kalla má gæluverkefni þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Svo er til að mynda um verkefni eins og hið nýstofnaða umhvrn. Það er hvergi tekið á í þeim fjárlagalið sem aukin voru verulega útgjöld við í lok afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, þ.e. í fyrsta lagi styrkir til blaða og blaðaútgáfu og kaup á dagblöðum. Eins og hv. þm. muna flutti hv. 1. þm. Norðurl. v., þingflokksformaður Framsfl., brtt. við lokaafgreiðslu fjárlaga um það að ríkið keypti 500 eintök af dagblöðunum til viðbótar við þau 250 eintök sem keypt voru áður. Þessi eina tillaga hygg ég að kosti um 30 millj. kr. Það er hvergi stafkrókur sem sýnir að hæstv. ríkisstjórn vilji hverfa frá einhverju af þessum útgjaldaauka ríkissjóðs. Það er heldur hvergi að því vikið að hæstv. ríkisstjórn ætli að takmarka eitthvað þá eyðslu og raunar sóun sem fram fer innan ráðuneytanna, í aðalskrifstofum ráðherranna sjálfra, eins og ég hef hvað eftir annað bent á í umræðum hér vegna þess að það er óviðunandi að hæstv. ríkisstjórn skuli haga svo málum sínum, ekki síst undir kringumstæðum þegar þarf að skerða fé til hinna margvíslegustu verkefna og ýmissa þýðingarmikilla, að hún skuli á sama tíma eyða fjármunum ríkisins til þess að ráða fleiri pólitíska aðstoðarmenn en lög heimila. Og mér er ekki grunlaust um að enn sé verið að fjölga slíkum flokkspólitískum gæðingum ráðherranna sjálfra til þess að starfa á vegum aðalskrifstofa ráðuneytanna í trássi við lög sem um þetta fjalla. Ekkert kemur hér fram sem sýnir að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að draga úr þessum kostnaði, ekki stafkrókur. Ýmislegt er þannig sem hlýtur að verða spurt eftir þegar málið kemur til meðferðar í fjvn.
    Ég skal ekki við þessa umræðu fara ofan í marga einstaka liði þessa frv. En ég bendi á að í umræðum um kjarasamningana bauð hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., upp á það fyrir hönd síns flokks, lýsti því yfir að Sjálfstfl. væri reiðubúinn til þess að taka þátt í starfi sem miðaði að því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs til þess að mæta áhrifum kjarasamninganna. Þessu tilboði hefur ekki verið sinnt. Það hefur á engan hátt verið haft samband við okkur sjálfstæðismenn sem störfum að þessum málum á vettvangi fjvn. Ég á ekki von á því að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. fjmrh. hafi á nokkurn hátt heldur sýnt lit á að taka því tilboði sem formaður Sjálfstfl. lagði hér fram frá forustumönnum Sjálfstfl. Þetta tilboð hefur sem sé verið að engu haft. Og það má vera að ef leitað hefði verið til okkar sem erum fulltrúar Sjálfstfl. og ég vænti fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þá hefði þetta frv. litið út með öðrum hætti en raun er á.
    Ég bendi á í sambandi við þetta frv. að það kallar vitaskuld á nokkra vinnu. Í fyrsta lagi kallar það á vinnu að því er lýtur að skiptingu stofnkostnaðarliða

sem á að skera niður samkvæmt frumvarpinu. Ef stofnkostnaðarliðir, til að mynda að því er lýtur að héraðsskólum, að því er lýtur að fjárfestingu í heilbrigðismannvirkjum o.s.frv., ef þeir eiga að standa og verða lögfestir þá hlýtur að verða að kveða á um hvaða mannvirki það eru sem eiga að taka á sig þann niðurskurð sem hér er á ferðinni. Hér er vitaskuld ekki um mjög mikla vinnu að ræða en þetta er þó verk sem þarf að vinna.
    Ég bendi á að í þessu frv. er gert ráð fyrir að skera niður framlög sem í senn eru lögbundin og samningsbundin. Við afgreiðslu fjárlaga var staðfest samkvæmt sérstöku samkomulagi hvernig með skyldi farið. Þar á ég við til að mynda framlög til jarðræktar og búfjárræktar sem, auk þess að vera lögbundin, var gert sérstakt samkomulag um hvernig skyldi staðið að því að uppfylla það lagaákvæði. Síðan er það brotið niður hér í þessu frv. eins og hv. alþm. geta séð. Þá er einnig skert framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem enn fremur er lögbundið sem hlutfall af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar og hefur aldrei fyrr verið skert eða þau lagaákvæði brotin. Hér er enn gerð tillaga um að brjóta þau lagaákvæði niður.
    Ég bendi einnig á að í vissum tilvikum eru hér mjög einkennilegar tillögur á ferðinni. Ég nefni til að mynda tillögu undir samgrn. er varðar Flugmálastjórn. Við afgreiðslu fjárlaga vakti ég á því rækilega athygli að
meðferð hv. meiri hl. fjvn. og Alþingis væri sérkennileg að því er varðar Flugmálastjórn. Eins og fjárlagafrv. var lagt fram og eftir að við höfðum fengið það brotið niður í hina smæstu liði lá það fyrir að inn í frv. vantaði laun á vegum Flugmálastjórnar sem námu um 68 millj. kr. Úr þessu var bætt á þann máta við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár við 3. umr. að í launaliðinn var bætt 20 millj. kr. og vantaði þá enn 48 millj. kr. Þau svör voru gefin að skipa ætti nefnd til þess að fjalla um þennan fjárlagalið og athuga hvort hægt væri að ná þar einhverjum sparnaði. Ella lægi það fyrir að það væri því líkast sem starfsmenn þessarar stofnunar ættu að vinna verk sín í sjálfboðavinnu og voru flugumferðarstjórar nefndir í því sambandi. Þetta var vitaskuld eins og hvert annað grín en það er ekkert grín að afgreiða fjárlög sem eru fölsk, með fölskum tölum, óraunverulegum tölum sem ekki fá staðist.
    Í þessu fjáraukalagafrv. er enn vikið að Flugmálastjórn og hér er gert ráð fyrir að skera niður rekstrarliði á vegum Flugmálastjórnar um 19,4 millj. kr. Nú vil ég taka það fram og beina því til hæstv. fjmrh., sem ég mun auðvitað taka upp í fjvn., að ég vil að það liggi fyrir hvort árangur hefur orðið af starfi nefndar sem um þetta átti að fjalla og þá verði skýrt hvaða verkefni það eru á vegum Flugmálastjórnar sem á að fella niður fyrir um 67--68 millj. kr. og það sundurgreint eftir einstökum verkefnum. Ég vil t.d. fá það á hreint áður en þetta frv. er afgreitt hvaða flugvöllum á landinu á að loka til að hægt sé að segja upp því starfsliði sem er þar

á vegum Flugmálastjórnar eða hvað á að fella niður af verksviðum Flugmálastjórnar eða hvort það sé enn meining hæstv. fjmrh. að starfsmenn á vegum Flugmálastjórnar, t.d. flugumferðarstjórar, eigi að vinna í sjálfboðavinnu. Ég vil fá svör við þessu áður en þetta frv. verður afgreitt út úr fjvn. Þannig eru ýmis mál í frv. sem nauðsynlegt er að taka sér eðlilegan tíma til að athuga og fá þau svör við sem nauðsynleg eru.
    Ég tek eftir því að í þessu frv. er gert ráð fyrir að skera niður framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 200 millj. Nú lá það fyrir við afgreiðslu fjárlaga að Atvinnuleysistryggingasjóð vantaði fé til að geta staðið eðlilega að starfsemi sinni og staðið við sínar skuldbindingar um atvinnuleysisbætur en starfsemi hans er hvort tveggja í senn lögbundin og samningsbundin milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Og þó einkum og sér í lagi milli ríkisvaldsins annars vegar og launþegasamtakanna hins vegar. Því var þá svarað til að Atvinnuleysistryggingasjóður ætti skuldabréf í sínum fórum sem hægt væri að selja til þess að standa undir útgjöldum sjóðsins. Ég vakti athygli á því við 3. umr. fjárlaga og geri enn að þó það sé rétt að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi skuldabréf í sínum fórum þá eru þau yfirleitt óverðtryggð og með mjög lágum vöxtum. Ef selja ætti þau á frjálsum markaði mundu þau ekki seljast nema með miklum afföllum þannig að það væri afar óhagkvæmt fyrir sjóðinn að selja þessi bréf með þeim hætti. Eini aðilinn sem gæti keypt þessi bréf á nafnverði er ríkissjóður sjálfur og mundi það þá enn kosta útgjöld frá ríkissjóði þrátt fyrir að að nafninu til sé verið að skera sjóðinn niður með þessum hætti og vísa á að hægt sé að selja bréf sjóðsins til að standa undir útgjöldum hans. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir svörum varðandi þennan lið frv. í meðferð málsins í fjvn.
    Ég vek einnig athygli á því að í einstökum tilvikum í þessu frv. er ráðist að stofnunum sem sýnt hafa raunverulegt aðhald í útgjöldum sínum á undanförnum árum og þess gætt með mikilli nákvæmni í rekstri að fara ekki fram úr heimildum fjárlaga. Það er nú svo að hætt er við að það kerfi sem er við lýði á vegum fjmrn. vinni þannig að þær stofnanir sem fara fram úr fjárlögum ár eftir ár fá einhverja viðbót, þær fá aukin framlög til að mæta sínum umfram gjöldum. En þær stofnanir sem ár eftir ár reyna að passa sinn rekstur, reyna að passa sín útgjöld, fara ekki fram úr fjárlagaheimildum, eru jafnvel skornar enn þá meira niður þannig að að lokum verður þeim gert ókleift að starfa án þess að starfsemi þeirra sé dregin saman.
    Ég tek eftir því að t.d. ein stofnun sem skorið er niður hjá í þessu frv. er undir þessa sök seld. Hér á ég við Rannsóknarlögreglu ríkisins. Á síðasta ári og ýmsum árum að undanförnu hafa flestar stofnanir dómsmálakerfisins farið fram úr fjárlögum. Í fjáraukalögum fyrir síðasta ár höfðu margar, meira að segja flestar stofnanir á vegum dómsmálakerfisins farið fram úr fjárlögum ársins 1989. Ekki var

Rannsóknarlögregla ríkisins í þeirra hópi og ekki örfáar aðrar stofnanir, mig minnir tvö, í allra mesta lagi þrjú af sýslumanns- og fógetaembættunum. En síðan er þá að þessu unnið með þeim hætti að hér er þessari stofnun, Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem hefur að mér virðist gætt mjög vandlega að sínum rekstri á undanförnum árum, gætt þess að fara ekki fram úr heimildum fjárlaga og ekki þurft á aukafjárveitingum að halda, henni er þakkað fyrir með þeim hætti að fá niðurskurð í fjáraukalagafrv.
    Ég vænti þess, þó ég segi að hætt sé við að það kerfi sem liggur að baki þessum gögnum í fjmrn. hafi tilhneigingu til að vinna á þennan hátt, að þá hafi það ekki verið raunverulegur ásetningur hæstv. fjmrh. En ég minni þó á það sem er tengt þessu atriði og þessu vinnulagi að í fjárlagafrv. fyrir þetta
ár var um mjög mikla hækkun að ræða á fjárveitingum til fjmrn. Í heild var þar um að ræða hækkun sem nam 51% frá fjárlögum ársins á undan, 51% hækkun í fjárlagafrv. meðan fjárlagafrv. byggði á verðlagsforsendum sem sýndu að hækkun milli ára skyldi vera 16--16,5%. Skýringarnar í athugasemdum með fjárlagafrv. að því er varðaði fjárlagaliði fjmrn. voru m.a. þær að það hefði sýnt sig að fjárveitingar hefðu ekki dugað, að fjárveitingar í fjárlögum hefðu reynst óraunhæfar og þess vegna væri nauðsynlegt að hækka fjármálaliði fjmrn. af því að fjárveitingar fyrri ára hefðu ekki dugað. Sem sé, af því að fjmrn. sjálft fór duglega fram úr heimildum sínum samkvæmt fjárlögum ríkisins þótti sjálfsagt að hækka við fjmrn. til að standa þar undir auknum útgjöldum og eyðslu. Þarna var alveg öfugt að farið við það sem er um einstakar stofnanir svo sem Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem ég hef nefnt hér, og jafnvel stofnanir eins og Flugmálastjórn. Þó Flugmálastjórn hafi farið fram úr sínum fjárlagaheimildum hefur þar þó a.m.k. verið afar skýrt upp sett hvernig útgjöld hennar hafa þróast og til hvaða verkefna þeim er varið.
    Ég held að ekki sé ástæða við þessa umræðu til að fara yfir fleiri einstaka liði í þessu frv. Ég tel að auðvitað þurfi að fara mjög vandlega yfir þær forsendur sem hér er lagt upp með, til að mynda þær að tekjur ríkisins vegna breyttra verðlagsforsendna í kjölfar kjarasamninga hækki minna en útgjöldin. Það er þó skýrt með því að sum útgjöld ríkissjóðs taki ekki verðlagsbreytingum svo sem vextir og niðurgreiðslur. Þetta eru eðlilegar skýringar. En ég bendi á að í þessum útreikningum hygg ég að hvergi sé tekið tillit til þess að miðað við þær forsendur sem skapast hafa í kjölfar kjarasamninga er gert ráð fyrir meiri kaupmætti en hæstv. ríkisstjórn lagði upp með í sínum áætlunum og notaði sem grundvöll fyrir fjárlagadæminu og efnahagsstarfseminni á þessu ári. Hæstv. ríkisstjórn lagði sem sé upp með þann grundvöll að kaupmáttur launa á þessu ári skyldi minnka um 5,5%. Kaupmáttur launatekna hafði þó minnkað um 8% á árinu á undan. En eigi að síður lagði hæstv. ríkisstjórn upp með þann efnahagsgrundvöll í sínum útreikningum og þar með fyrir fjárlagadæminu að kaupmáttur almennings skyldi

minnka á þessu ári um 5,5%. Niðurstöður þeirra sem stóðu að kjarasamningunum, þ.e. aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa bænda sem að þessum samningum komu, voru þær að með þeim niðurstöðum sem fengust með samningunum væri hægt að sjá fram á að kaupmáttur þyrfti ekki að lækka nema um 0,5%. Og þó menn hafi verið að segja úti í þjóðfélaginu að það sé sérkennilegt að aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. launþegar, skyldu sætta sig við kjarasamninga sem lækka kaupmáttinn um 0,5% var þó með þessum samningum unninn sá sigur að lækka kaupmáttinn minna en ríkisstjórnin ætlaði sér og lagði upp með. Mismunurinn varð 5% og það er ekki svo lítið. En þessi mismunur á kaupmætti hefur vitaskuld áhrif á greiðslugetu almennings og væntanlega á veltu í þjóðfélaginu og ég hygg að til þessa atriðis sé ekki tekið tillit í þeim útreikningum sem liggja að baki þeim nýju forsendum sem þetta frv. til fjáraukalaga byggir á að því er varðar tekjur ríkissjóðs. Þetta atriði þarf auðvitað að taka til athugunar við meðferð málsins í fjvn. sem og fjöldamörg önnur eins og ég hef hér vikið að.
    Þá vil ég geta þess að ástæða kann að vera til að taka nokkur fleiri atriði til meðferðar eða athugunar er snerta fjármál ríkissjóðs á þessu ári umfram það sem vikið er að í þessu frv. þótt ég sé ekki með því að gera því skóna að ég eða aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar ætli að flytja tillögur um aukin útgjöld. Svo er ekki. Og væri nær, sem verður að koma í ljós hvort við gerum eða ekki, að við tækjum til athugunar að flytja einhverjar aðrar tillögur um útgjaldalækkun en allar þær sem hér liggja fyrir. En ég minni á það að í 6. gr. fjárlaga fyrir þetta ár er hæstv. fjmrh. heimilað að skera niður rekstrarútgjöld ríkissjóðs á þessu ári um 300 millj. kr. Þetta var afgreitt sem opin heimild í fjárlögum fyrir þetta ár. Og vafalaust vegna tímaskorts þar eð þessi tillaga kom seint fram reyndist ekki kleift að skipta þeim 300 millj. kr. niður á einstaka rekstrarliði í ríkiskerfinu. Ég tel að nú við afgreiðslu þessa frv. sé óhjákvæmilegt að skipta þessum 300 millj. kr. niður á einstök rekstrarframlög því það verður tæplega hægt að sætta sig við það að hafa það vald opið í höndum hæstv. fjmrh. að hann einn geti ráðstafað því hvar þessi 300 millj. kr. niðurskurður eigi að koma niður. Það er eðlilegt nú í marsmánuði þegar liðinn er þessi tími af fjárlagaárinu að taka þetta mál upp, enda hlýtur að vera búið á þeim tíma sem liðinn er síðan fjárlög voru afgreidd að leggja línur um það hvar þessi niðurskurður skuli koma. Ég greini frá því að ég mun gera það að tillögu minni innan fjvn. að þar verði þetta mál tekið upp og þessum niðurskurðarlið skipt á einstaka fjárlagaliði.
    Ég bendi svo að lokum á að það er sérkennileg hringferð sem farin er í þeim málum er varða Vegasjóð. Ég þarf ekki að rifja það upp í mörgum orðum að við afgreiðslu vegáætlunar hér á hv. Alþingi 20. maí sl. var vegáætlun afgreidd samhljóða og hæstv. samgrh. lýsti því hátíðlega yfir að ekki mundi verða um niðurskurð að ræða á sérmerktum

tekjustofnum vegagerðar. Þetta var öllum fastmælum bundið og skipt í vegáætlun þannig að sérmerktum tekjustofnum var skipt niður á útgjöld í vegáætlun til nýrra verkefna alveg í botn. Síðan kemur
fjárlagafrv. Þá er gert ráð fyrir því að skera þessi útgjöld niður um 1015 millj. kr. Þá leit það þannig út að taka átti vegáætlun upp í þeim tilgangi að skerða framlög til verkefna sem Alþingi hafði þegar ákveðið að skyldu unnin á árinu 1990 um þessa fjárhæð, eða a.m.k. í heild til vegamála um 1015 millj. kr. Við afgreiðslu fjárlaga var nokkuð hopað frá þessum mikla niðurskurði þannig að niðurskurðurinn í heild var samkvæmt fjárlögum 750 millj. kr.
    Nú er enn hringlað með þetta með því að skera niður að nýju um 78 millj. kr. Ef það er á þann máta að draga á úr sérmerktum tekjustofnum til vegamála sem þessu nemur þá hefur það ekki áhrif á rekstrarútkomu ríkissjóðs en það sést ekki greinilega á þessu frv. Ef sérmerktir tekjustofnar vegagerðar eru skertir, t.d. um 78 millj. kr., minnka bæði tekjur og útgjöld sem þessu nemur og hefur ekki áhrif á endanlega niðurstöðu A-hluta ríkissjóðs. Það kemur hins vegar fram í því að það verður að skerða meira af þeim verkefnum sem ákveðið hafði verið að vinna samkvæmt vegáætlun. Það er svo næsta hlálegt að á sama tíma sem hæstv. ríkisstjórn er með þessum hringlandahætti að skera niður framlög til vegamála sitt á hvað eftir því hvaða mál er verið að afgreiða, fyrst er kveðið á um miklar framkvæmdir í vegáætlun 20. maí, síðan á að skera niður skv. fjárlagafrv., svo er dregið úr því við afgreiðslu fjárlaga, svo er enn aukið við niðurskurðinn í frv. til fjáraukalaga, á sama tíma sem allur þessi hringlandaháttur er í gangi í vegamálunum og niðurskurður þá tilkynnir hæstv. samgrh., raunar fyrst í fjölmiðlum, um stóraukin framlög til vegamála með því að flýta stórframkvæmdum. Það er út af fyrir sig gott að flýta stórframkvæmdum sem eru þýðingarmiklar framkvæmdir á Vestfjörðum en þetta sýnir hvað ráðslagið í þessum málum er handahófskennt og hringlandalegt.
    Ég skal svo, virðulegi forseti, ekki hér við 1. umr. hafa um þetta frv. öllu fleiri orð. Ég ítreka að það er full þörf samdráttar og raunar niðurskurðar í útgjöldum ríkissjóðs. Ég ítreka þá skoðun mína sem iðulega hefur komið fram að þegar ný ríkisstjórn verður mynduð að þessari genginni þá verður þar eitt þýðingarmesta verkefnið sem þarf að fást við að ná nýjum tökum á fjármálum ríkissjóðs. Því þetta framhald, þessi eyðslustefna ríkissjóðs sem birtist náttúrlega mest hjá hæstv. ráðherrum sjálfum með sífelldri aukningu rekstrarútgjalda, sífelldri aukningu á umfangi ríkiskerfisins og það á meðan
greiðslugeta skattborgaranna er minni en áður var, getur ekki gengið áfram. Þar verður að breyta um stefnu og taka þessa hluti nýjum tökum til að stöðva þessa sífelldu útþenslu. Þar verður að byrja, eins og ég hef áður sagt, ofan frá, hjá ráðherrunum sjálfum og hætta því sem þessir hæstv. ráðherrar leyfa sér, að bruðla í eigin skrifstofum með fé skattborgaranna og

ríkisins. Þessu háttalagi verður að breyta og það verður eitt þýðingarmesta viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar þegar hún verður mynduð.
    Ég held að hæstv. fjmrh. sem hér leggur fram þetta frv., sem í mörgum greinum gerir ráð fyrir að skera niður einstaka fjárlagaliði um 10 þús. kr. og suma 20 þús. kr., hann ætti að hafa það til viðmiðunar að frá því hann gaf hér hástemmdar yfirlýsingar við afgreiðslu fjáraukalagafrv. fyrir árið 1989 skömmu fyrir jól tókst honum eigi að síður að auka útgjöld ríkisins umfram heimildir fjárlaga og umfram heimildir nýsettra fjáraukalaga um liðlega 1 milljarð kr. á þeim fáu dögum sem lifðu ársins á milli jóla og nýárs. Þó hér sé klipið af einstökum fjárlagaliðum þá bendir reynslan af starfi þessa hæstv. fjmrh. ekki til þess að nú verði á nokkurn hátt raunhæfar að verki staðið og meiri aðsjálni og sparnaðar gætt í hans störfum þó að árið heiti 1990 en var á árinu 1989.