Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 12. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur frammi frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990. Þetta er allkyndug fyrirsögn og verður að segjast eins og er að óþarft er að blanda kjarasamningum í fjáraukalög sem slík í fyrirsögn. Og verður tæplega hægt að segja að það sé réttlætanlegt. En það er önnur saga.
    Það sem ég vil gera hér að umræðuefni er fjárlagagerð ríkisins og áætlanagerð. Hér liggur fyrir frv. til fjáraukalaga sem gerir ráð fyrir lækkun útgjalda og hreyfingu á fjárlagaliðum til sparnaðar en aukningar á öðrum sviðum. Það sem veldur því að ég hef efasemdir um að þessi áætlun sem hér liggur fyrir sé rétt er að hinn 20. febr. sl. kom fréttatilkynning frá fjmrn. um afkomu A-hluta ríkissjóðs 1980--1989. Sama dag var lagður fram ríkisreikningur fyrir árið 1988. Það vekur athygli að það sem kemur frá fjmrn. 20. febr. í fréttatilkynningu stemmir ekki við það sem er lagt fram sem ríkisreikningur. ( Fjmrh.: Þetta var allt skýrt hér á fimmtudaginn.) Ég veit ekki hvort það hefur verið skýrt hér á fimmtudaginn sérstaklega. ( Fjmrh.: Annað er á greiðslugrunni og hitt ... ) En það liggur náttúrlega ljóst fyrir að þær eru ekki alveg réttar þessar tölur sem hér liggja fyrir. Við afgreiðslu fjárlaga fyrr á þessu ári hafði ég verulegar efasemdir um áætlanagerð við það frv. sem var þá. Og ég þykist vita núna að þær tölur sem ég reiknaði út muni standast. Mér sýndist að tekjurnar yrðu allverulega hærri en í fjárlagagerð var gert ráð fyrir og sýnist þess vegna að skattaliðurinn eigi að vera hærri en hér er gert ráð fyrir. Í fljótu bragði sýnist mér að ekki væri óraunhæft að áætla að sá niðurskurður í sköttum sem hér er gert ráð fyrir sé svipuð upphæð og þeir muni hækka um. Þá er sá liður rangur að mínu mati sem nemur nálægt 1,8 milljörðum og þykist ég vita að það verði nokkurn veginn rétt.
    Hér er verið að tala um kjarasamninga og ég verð að segja að þær breytingar sem hér eru vekja furðu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að Byggingarsjóður ríkisins verði lækkaður um 100 millj. kr. Nú veit ég ekki hvort verkalýðshreyfingin telur þá sem bíða eftir lánum frá Byggingarsjóði ríkisins þess verða að hugsað sé um hag þeirra, en hitt veit ég að það er töluverður fjöldi sem bíður eftir lánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Ég hef lagt fram fsp. um þetta mál til hæstv. félmrh. sem hún hefur að vísu ekki svarað enn þá en ég geri ráð fyrir að svarið liggi fyrir í þessari viku og muni þá koma í ljós hvernig staða þeirra mála er. Ég tel það ekki forsvaranlegt að það liggi ekki fyrir upplýsingar um slík mál þannig að hægt sé að sjá svart á hvítu hver staðan er í svo veigamiklum málaflokki áður en skornar eru niður 100 millj. til þessa málaflokks.
    Ég hef síðan margar athugasemdir við þann niðurskurð sem hér um ræðir sem mér finnst að sumu leyti kjánalegur. Það er kjánalegt að skera niður fjárlagalið um 10 þús. kr. í svona aðgerð. Það er ósköp kjánalegt og er ekki traustvekjandi. Hins vegar

er staðreynd að ekki er snert við gæludýrum ríkisstjórnarinnar eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. kom réttilega inn á áðan. Það er ekki snert við yfirbyggingunni og þeirri miklu útþenslu sem hefur átt sér stað í þeim hluta ríkisgeirans á undanförnum árum. Það hefur ekki verið gert raunhæft yfirlit á þessu máli af hálfu ríkisins í fjölda ára. Sú yfirferð hefði þurft að fara fram með allt öðrum hætti og öðruvísi og hefði þá sjálfsagt verið hægt að skera niður allverulegar upphæðir í ýmsum málum. Það er svo líka annað mál að undanfarna daga hefur heyrst í sérstökum starfsmanni sem verkalýðshreyfingin hefur skipað til þess að fylgjast með verðlagi í landinu. Ég hlustaði á viðtal við þennan starfsmann um helgina í einhverri af útvarpsstöðvunum þar sem hann var að tala um hækkanirnar sem hefðu dunið yfir. Og það er auðvitað alveg rétt hjá þeim ágæta manni að þessar hækkanir hafa verið töluverðar, en það er þó athyglisvert að hann var að ræða um hækkanir í sambandi við fjármagn og þá aðallega á gjöldum í bankakerfinu.
En það vill svo til að verkalýðshreyfingin er einn stærsti eigandi banka hér á landinu og er aðili að Íslandsbanka og forseti ASÍ situr sem formaður bankaráðs. Því eru hæg heimatökin fyrir verkalýðshreyfinguna að lækka þessi útgjöld. Kemur því vel á vondan að þessar hækkanir skuli hafa verið svona miklar í bankakerfinu og það verður að gera þá kröfu til verkalýðshreyfingarinnar að hún standi þannig að sínum málum að hún lækki þessi útgjöld.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri að sinni að öðru leyti en því að ég hefði viljað sjá hér frekari niðurgreiðslur, breytingu á virðisaukaskatti á matvæli og skattalækkun sem hefði komið heimilum að notum og komið þannig út að raunveruleg útgjöld sem skipta fólk máli hefðu lækkað. Ég minni á það að felld var hér í hv. Nd. fyrir skömmu tillaga frá mér um að það yrði skylda fyrir sveitarfélög að skrifa út hvað fasteignagjöld væru í raun há, samtals, öll þau gjöld sem eru lögð á íbúana. Það vekur náttúrlega furðu að þingheimur skuli ekki hafa áhuga á því eða vilja stuðla að því að almenningur í landinu fái að vita hvernig skattarnir eru lagðir á og hversu háir. Það er ýmislegt í
þeim skattamálum, bæði fasteignagjöldum og öðru, sem verður að taka til endurskoðunar og gera það með þeim hætti að hver og einn viti raunverulega hvað hann á að borga í skatta og hann geti borið sig saman við aðra sem greiða skatta.
    Ég ætla ekki eins og ég sagði að hafa þetta öllu lengra en tel að þessi fjáraukalög séu byggð a röngum forsendum, það séu ekki réttir útreikningar á tekjuhliðinni og þessi niðurskurður sé nú frekar til málamynda og alls ekki raunhæfur.