Heillaóskir til litáísku þjóðarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Í gær gerðist sá ánægjulegi atburður að þjóðþing Litáa samþykkti sjálfstæðisyfirlýsingu þjóðarinnar. Við vorum á fundi í utanrmn. þingsins í morgun og þar var samþykkt einróma að leggja til við hv. Alþingi að heillaóskaskeyti yrði sent til litáíska þingsins. Því höfum við flutt till. til þál. um heillaóskir til litáísku þjóðarinnar í tilefni sjálfstæðisyfirlýsingar hennar og hún er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að senda litáísku þjóðinni heillaóskir vegna sjálfstæðisyfirlýsingar Litáens sem þjóðþingið samþykkti í gær.
    Alþingi telur að sjálfsforræði þjóða með lýðræðiskjörnum þingum sé grundvöllur frjálsra samskipta og stuðli að friði í heiminum.
    Alþingi fagnar því endurheimt sjálfstæðis Litáens og væntir góðrar samvinnu við lýðræðiskjörna fulltrúa þess.``
    Þessari tillögu fylgir svohljóðandi örstutt greinargerð:
    ,,Þing Litáens samþykkti í gær yfirlýsingu um endurheimt sjálfstæðis landsins. Á fundi utanríkismálanefndar í morgun var einróma samþykkt af því tilefni að flytja þáltill. þessa.``