Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er rétt sem fram kom að allnokkuð er um liðið síðan umræða þessi frestaðist og enn lengra um liðið síðan þessi umræða hófst. Það var í nóvembermánuði sem umræðan hófst og hún hefur staðið með löngum hléum síðan. Það er ástæða til þess þegar umræðan hefst hér á nýjan leik að fara nokkrum orðum um þessa málsmeðferð.
    Það liggur nú í augum uppi að æskilegast hefði verið að ljúka þessari umræðu áður en hæstv. utanrrh. fór til sameiginlegs utanríkisráðherrafundar EFTA og Evrópubandalagsins í lok desembermánaðar þar sem lögð voru á ráðin um áframhald þessara viðræðna á milli þeirra samtaka sem hér um ræðir. Það tókst hins vegar ekki vegna þess að hæstv. ríkisstjórn kom því ekki við að ljúka þessari umræðu og það sem af er þessu ári hefur hæstv. ríkisstjórn ekki komið því við að eiga hér orðastað við alþingismenn til þess að ljúka umræðunni. Það er ámælisvert í meira lagi að standa með þessum hætti að umræðum um einhverja
mikilvægustu samninga sem Íslendingar hafa tekið þátt í um langan tíma við aðrar þjóðir og sýnir með öðru hvaða hug og hvaða virðingu hæstv. ríkisstjórn ber fyrir þessum mikilvægu umræðum sem hér um ræðir. Í sjálfu sér er það ekki einungis mál hæstv. ríkisstjórnar hvernig umræður af þessu tagi eru dregnar á langinn. Það er auðvitað mál Alþingis að knýja hæstv. ríkisstjórn til að ljúka umræðum jafnvel þó að um sé að tefla minni mál en þetta sem hér er verið að fjalla um og það er þess vegna ástæða til þess einnig að bera fram kvörtun við yfirstjórn þingsins um það að hafa ekki gengið nægjanlega eftir því við hæstv. ríkisstjórn að hún sinnti þeirri skyldu sinni að ljúka þessari umræðu.
    Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan við skildum síðast við þetta mál. Í sjálfu sér hefði verið full ástæða til þess að hæstv. ríkisstjórn gerði Alþingi á ný grein fyrir stöðu málsins, og það hefði verið miklu eðlilegra að ræða hér í marsmánuði nýja skýrslu frá hæstv. utanrrh. um málið en að halda áfram umræðu um skýrslu sem lögð var fram í nóvembermánuði í ljósi þess að hér er um að ræða viðfangsefni þar sem stefnt er að skjótum vinnubrögðum og breytingar eru örar og miklar.
    Það má segja að það hafi verið þrjú atriði sem hér komu til umræðu og skiptu afstöðu manna í ólíka hópa. Tvö þessara atriða lúta að meðferð málsins og formsatriðum en eitt þeirra að efnislegri afstöðu til þessara samninga. Það var uppi ágreiningur um það í fyrri hluta umræðunnar hvernig Alþingi ætti að taka á málinu. Þau sjónarmið voru sett hér fram að eðlilegt væri að Alþingi ályktaði um það hver væri stefna Íslands í þessum viðræðum, að hvaða markmiðum ætti að vinna og hvernig við vildum nálgast þetta verkefni að öðru leyti. Hugmyndum og tillögum af þessu tagi var hins vegar hafnað af hæstv. ríkisstjórn.
    Í annan stað var lögð á það áhersla að teknar yrðu upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið til þess sérstaklega að gæta íslenskra hagsmuna að því er

varðar hindrunarlausan útflutning sjávarafurða á markað Evrópubandalagsins. Kröfu um þetta var einnig hafnað af hæstv. ríkisstjórn.
    Í þriðja lagi komu hér fram mjög mismunandi sjónarmið í því formi að lýst var fyrirvörum af hálfu einstakra stjórnmálaflokka og talsmanna þeirra, mjög ólíkum fyrirvörum og í sumum tilvikum víðfeðmum. Segja má að sumir þeirra séu þess eðlis að þeir samrýmist engan veginn þátttöku okkar í þessum viðræðum. Þeir fela þess vegna í sér efnislegan ágreining um það hvernig þátttöku Íslands í þessum viðræðum á að vera varið og að hverju Ísland er að stefna með þeim.
    Þetta voru að ég hygg þau þrjú atriði sem fram höfðu komið í umræðunum og helst voru þess eðlis að um þau hafi verið eða sé enn ágreiningur hér í þinginu.
    Ég ætla ekki, frú forseti, að fara mörgum orðum um grundvallaratriðin í þeim samningum sem standa fyrir dyrum. Um það höfum við rætt mjög ítarlega á fyrri stigum þessarar umræðu. Þetta svokallaða fjórþætta frelsi, aðlögun Íslands og annarra ríkja fríverslunarsamtakanna að þeirri löggjöf sem Evrópubandalagið hefur þegar sett um hinn svokallaða innri markað.
    Ég er í engum vafa um að það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að taka þátt í þessum viðræðum og stefna að þeirri tengingu við innri markað Evrópubandalagsins sem hið sameiginlega evrópska efnahagssvæði á að gera. Hér er um að ræða mjög umfangsmikla samninga, samninga sem í mörgum tilvikum lúta að viðfangsefnum sem á undanförnum árum hafa verið ágreiningsefni, hafa verið snar þáttur í ákvörðunum stjórnvalda varðandi almenna efnahagsstjórn. Mörg þessara viðfangsefna verða nú samningsbundin í hinu nýja efnahagssvæði og þurfa þess vegna ekki að leiða til óþarfa deilna hér á landi um aðferðir til hagstjórnar. Og það er ótvírætt til bóta og mikil framför þegar víðtækari samstaða næst á Alþingi og á milli stjórnmálaflokka um atriði í efnahagsstjórn sem lengi hafa valdið deilum. Það er fagnaðarefni að hér er verið að ræða um slíkar lausnir á grundvelli aukins efnahagsfrelsis sem ýmsum hefur verið þyrnir í augum í innlendri stjórnmálaumræðu.
    Ef við víkjum nokkuð að þeim þremur atriðum sem hér hafa komið til umfjöllunar og menn hafa ekki verið á einu máli um ítreka ég fyrst þá skoðun mína að eðlilegt hefði verið að hæstv. ríkisstjórn hefði á það fallist að móta stefnu Íslands í þessu efni með ályktun frá Alþingi. Það hefði styrkt stöðu Íslendinga í þessum viðræðum og gert afstöðu okkar skýra. Það hefði óhjákvæmilega eytt þeim efasemdum sem uppi eru í dag um samstöðu í málinu og þess vegna styrkt stöðu Íslands og ekki síst styrkt stöðu hæstv. utanrrh. sem fer með þessa samninga fyrir hönd Íslands. Þess vegna eru það vonbrigði að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa hafnað hugmyndum af þessu tagi. Að vísu fóru fram, eins og áður hefur komið fram, óformlegar viðræður á milli einstakra flokka um möguleika á slíku samstarfi, en þegar til kom þá nutu slíkar

hugmyndir ekki stuðnings innan hæstv. ríkisstjórnar. Í tvígang hafði Sjálfstfl. að frumkvæði hæstv. utanrrh. tekið þátt í óformlegum viðræðum af þessu tagi, en þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra var þá með nutu ekki skilnings innan hæstv. ríkisstjórnar og hafa þess vegna ekki náð fram að ganga.
    Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að þeirri ósk sem sett var fram um tvíhliða viðræður vegna útflutnings á íslenskum sjávarafurðum. Það kemur fram í skýrslu utanrrh. og hefur komið fram í þessum umræðum að ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á, að því er þetta viðfangsefni varðar, að byggja umræðurnar á þeim grundvelli sem lagður var með Oslóaryfirlýsingunni frá því í mars á síðasta ári. Þar var kveðið á um fríverslun með fisk innan EFTA sem taka á gildi 1. júlí, en eins og þar segir hafa Finnar umþóttunartíma fram til 1. jan. 1993. Það kemur einnig fram í skýrslunni að af hálfu EFTA-þjóðanna hafi verið óskað eftir fríverslun með fisk gagnvart viðræðunefnd Evrópubandalagsins en því hafi verið svarað af hálfu Evrópubandalagsins með ósk um viðræður um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins.
    Nú hefur ýmislegt á dagana drifið í þessum efnum. Það var auðvitað ljóst frá upphafi að litlar líkur voru á að jafnvel sameinuð EFTA-ríki gætu knúið Evrópubandalagsríkin til að falla frá styrkjastefnu sinni, en Evrópubandalagið hefur nú þegar ákveðið styrki til sjávarútvegs a.m.k. fram til ársins 1997, ef ég man rétt. Frá öndverðu var því ekki mikil von til þess að við næðum árangri á þessum grundvelli og ég hygg að það sé rétt sem fram hefur komið að Óslóaryfirlýsingin um þetta efni hafi haft meira formlegt gildi en efnislegt að því er varðar íslenska hagsmuni með útflutning sjávarafurða á þennan sameiginlega markað í Evrópu. Nú hefur það svo gerst ofan í kaupin að Norðmenn hafa lent í miklum erfiðleikum í sjávarútvegi og hafa tekið ákvarðanir um aukna styrki til sjávarútvegs þvert á stefnu EFTA-ríkjanna um fríverslun án styrkja.
    Hæstv. utanrrh. var það því spurður hvort hann hefði hreyft þessu máli á fundum EFTA-ráðherra og hann greindi frá því af því tilefni hér á Alþingi að það hefði hann ekki gert og hann hefði ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir þar við þó að augljóst megi vera að þessar ákvarðanir Norðmanna munu hafa áhrif á samningsstöðu EFTA á þessum grundvelli. Eða dettur nokkrum manni í hug að það styrki kröfur EFTA í viðræðum við Evrópubandalagið þegar Norðmenn hafa tekið ákvarðanir um að auka styrki til sjávarútvegs? Ég hygg að flestir hljóti að gera sér grein fyrir því að þessar ákvarðanir þeirra hljóta að veikja þann samningsgrundvöll sem lagt hefur verið upp með í þessu efni og um var samið á Oslóarfundinum í fyrra. Ég geri ráð fyrir að menn hafi skilning á þeim erfiðleikum sem Norðmenn standa frammi fyrir í sjávarútvegsmálum og hafa leitt til ákvarðana af þessu tagi af þeirra hálfu. Það breytir hins vegar ekki því að þetta átti að vera megingrundvöllurinn í viðræðum við Evrópubandalagið

til þess að tryggja fríverslun með fisk og þar af leiðandi hindrunarlausan aðgang Íslendinga að þessum markaði. En þegar sá grundvöllur hefur verið veiktur með því að auka styrki hljóta menn að fallast á að tími sé kominn til að hugsa málið frá öðrum forsendum og öðrum sjónarmiðum en í upphafi var ætlað.
    Ég ætla ekki að rekja það í löngu máli hér en það mátti auðvitað vera ljóst þegar þessar umræður hófust að nauðsynlegt var að taka upp tvíhliða viðræður til að tryggja hagsmuni okkar í þessu efni. En því ljósara er það nú, þegar Norðmenn hafa tekið þessar ákvarðanir varðandi styrkina, að við verðum að huga að okkar hagsmunum á öðrum grundvelli en hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað.
    Ég minnist þess ekki að tillögum hafi verið mætt með jafnmiklum æsingi og með jafnmiklum fúkyrðaflaumi og tillögum okkar og fleiri hér á þinginu og sjávarútvegsins í landinu um formlegar tvíhliða viðræður. Þar fóru fremstir í flokki hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Þeir náðu varla upp í nefið á sér af hneykslan yfir því að lagt skyldi til að við ræddum meginhagsmuni okkar í þessu efni í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Að vísu tóku þessir hæstv. ráðherrar alltaf fram í hinu orðinu að þeir stæðu nú í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið á sama tíma og þeir með stóryrðum vísuðu á bug slíkum kröfum. Ég geri ráð fyrir því að þessar mismunandi yfirlýsingar af þeirra hálfu helgist af því að þeir hafi ætlað sér að leiða samningana til
lykta á grundvelli fríverslunarhugmyndanna en halda áfram óformlegum
kynningarviðræðum á málstað Íslands án þess að þar væri um að ræða eiginlegar samningaviðræður um hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum inn á þennan markað. Það er nánast eina málefnalega skýringin á viðbrögðum þeirra, annars er tvískinnungurinn í yfirlýsingunum algjörlega óskiljanlegur. Ég vil fyrir mitt leyti reyna að leggja þann skilning í þessar gagnstæðu yfirlýsingar sem er jákvæðastur fyrir hæstv. ríkisstjórn.
    Mér sýnist að flest það sem á dagana hefur drifið síðan þessar umræður fóru fram styrki það sjónarmið sem hér var sett fram, að við verðum að taka upp tvíhliða viðræður um útflutning á sjávarafurðum. Það er reyndar beinlínis gert ráð fyrir því í Oslóaryfirlýsingunni þar sem segir: Við viðurkennum sjálfsákvörðunarrétt hverrar einstakrar EFTA-þjóðar hvað varðar tvíhliða frumkvæði og samninga við EB með tilliti til sérhagsmuna þeirra.
    Þarna er beinlínis viðurkennt í Oslóaryfirlýsingunni að EFTA-þjóðirnar hver fyrir sig kunni að fara í tvíhliða viðræður án þess að það raski samningsgrundvellinum í heild sinni. Einmitt þetta atriði hefur valdið deilum og hæstv. ríkisstjórn taldi ekki unnt að fara í tvíhliða viðræður á sama tíma og heildarviðræðurnar stæðu yfir. En það kemur beinlínis fram í Oslóaryfirlýsingunni að ráð er fyrir því gert að svo geti orðið.
    Þá er einnig rétt að minna á það í þessu sambandi

að nýlega voru fluttar fréttir hér um að Færeyingar væru á lokastigi með samninga um aðgang að markaði Evrópubandalagsins sem tryggði þeim að mestu leyti tollfrjálsan aðgang að markaðinum, þar á meðal fyrir jafnmikilvæga útflutningsafurð og saltfisk. Jafnvel Færeyingar sýnast því vera komnir á undan okkur í að tryggja sína hagsmuni, útflutningshagsmuni, á þessum markaði. Ég hygg að það hljóti að opna augu hæstv. ríkisstjórnar fyrir því að ekki er unnt að láta þessi mál dragast endalaust þegar í ljós er komið að Færeyingar, samkeppnisaðilar okkar á þessum markaði, eru að tryggja hagsmuni sína með þessum hætti. Það hlýtur að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að taka á þessum málum fastari tökum en verið hefur.
    Í nýlegu fréttabréfi sem samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi gefa út er sagt frá fundi sem fulltrúar aðildarfélaga Vinnuveitendasambandsins og Félags ísl. iðnrekenda áttu í febrúarmánuði sl. með varaformanni framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. En þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi sem Henning Christophersen, varaformaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, átti með fulltrúum aðildarfélaga VSÍ og FÍI 22. febr. sl. var m.a. rætt um þá stefnu bandalagsins að krefjast aðgangs að fiskimiðum ríkja utan bandalagsins í stað viðskiptaívilnana fyrir þær sjávarafurðir þeirra sem seldar eru til aðildarríkja bandalagsins. Taldi Christophersen að sýnt væri að gera yrði undantekningu frá þessari reglu gagnvart Íslandi. Sagði hann að samskipti þessara aðila hefðu verið lengi í hnút og leita yrði nýrra leiða til að leysa hann.``
    Enn fremur segir í þessari frétt: ,,Á honum mátti skilja að samningar sem þessir þyrftu ekki að heyra undir viðræður Evrópubandalagsins og EFTA um sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði heldur mættu þeir fara fram í beinum viðræðum milli Íslands og bandalagsins.`` --- Og síðan segir: ,,Óhætt er að segja að hér kveði við nýjan tón og athygli vert er að hann kemur frá einum æðsta manni bandalagsins. Afstaða Christophersen lýsir skilningi á sérstöðu íslensks útflutnings og þeirri réttlætiskröfu að sömu lögmál eigi að gilda í viðskiptum með íslenskar sjávarafurðir og iðnvarning EFTA.``
    Með öðrum orðum, hér eru fluttar fregnir af því að varaformaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins telji ekki óeðlilegt að beinar viðræður fari fram milli Íslands og Evrópubandalagsins um þetta meginhagsmunamál Íslands í þessum viðræðum. Þetta hlýtur enn að hvetja hæstv. ríkisstjórn til þess að hugsa sinn gang í málinu.
    Ástæða er einnig til þess að rifja hér upp afstöðu atvinnurekenda í sjávarútvegi sem fram kemur í skýrslu samstarfsnefndar þeirra og birt var sl. haust. Þar er sérstök áhersla lögð á að teknar verði upp tvíhliða viðræður Íslendinga og Evrópubandalagsins til að tryggja þessi viðskipti. Hæstv. utanrrh. reyndi, eftir að þessi skýrsla kom út, að gera hana tortryggilega í blaðaviðtölum og réðst með miklu offorsi á forustumenn í íslenskum sjávarútvegi og sakaði þá m.a. um að hafa gefið þessa skýrslu út í áróðursskyni

fyrir Sjálfstfl. Í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér var slíkum ásökunum af hálfu hæstv. utanrrh. vísað á bug og sagt að þær ættu enga stoð í veruleikanum. Og jafnframt var lögð enn á ný áhersla á tvíhliða viðræður sem hljóta að verða formlegar, eins og þar segir.
    Ég vil enn fremur rifja hér upp ummæli Ólafs Davíðssonar á félagsfundi Iðnrekendafélagsins frá því á síðasta hausti þar sem fjallað var um þessi mál og vikið að saltfiskmálunum. Þar sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við getum flutt út flestar sjávarafurðir til Evrópubandalagsins tollfrjálst eða með lágum tolli. Veigamikil undantekning er þó saltfiskur sem að verulegu leyti lýtur einhliða ákvörðun Evrópubandalagsins um kvóta og tolla. Þetta vandamál verður eingöngu leyst í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið þar
sem ræða verður öll samskipti Íslendinga og Evrópubandalagsins á sviði sjávarútvegsmála.``
    Allt hnígur þetta því að sömu niðurstöðu og hefur áður verið áréttað hér í umræðunum. Ljóst er að ýmislegt er nú að gerast og hefur verið að gerast sem ætti að opna augu hæstv. ríkisstjórnar fyrir því að taka verður þessi mál fastari tökum en hún hefur gert fram til þessa.
    Það verður auðvitað ekki við það unað að þessi mikilvægustu hagsmunamál Íslands verði látin bíða til loka samningaviðræðnanna. Enginn veit í dag hvenær þessum viðræðum lýkur. Að því hefur lengi verið stefnt að botn fengist í málið fyrir lok þessa árs. Ég ætla ekki að hafa uppi neina spádóma þar um en ef sá hraði yrði á málinu sem er auðvitað æskilegur þá liggur hins vegar ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn á eftir að svara ýmsum veigamiklum spurningum um afstöðu sína til þessara mála í heild. Og það er alveg ljóst að Alþingi þarf að fjalla um það á yfirstandandi þingi með miklu nákvæmari hætti ef á að takast að ljúka viðræðunum fyrir árslok. Dragist það á hinn bóginn að þessum umræðum ljúki er einsýnt að við getum ekki beðið með að hefja viðræður til að lækka tolla á íslenskum sjávarafurðum, þær verða að hefjast án tafar.
    Ég minni hér á þær deilur sem staðið hafa að undanförnu um útflutning á ferskum fiskflökum. Þessar deilur varpa mjög skýru ljósi á þá erfiðu aðstöðu sem við erum í um þessar mundir þar sem íslenskir aðilar standa mjög mismunandi að vígi gagnvart Evrópubandalaginu. Tollastefna Evrópubandalagsins miðar auðvitað að því að auðvelda fiskvinnslu innan bandalagsins að ná til sín hráefni og gera innflutningi á fullunnum sjávarafurðum erfiðara um vik að keppa á markaðinum. Þess vegna m.a. hafa menn lent í þeim erfiðleikum sem raun ber vitni í þessu efni.
    Ég geri ráð fyrir því að þær ákvarðanir sem hæstv. sjútvrh. hefur tekið byggi fyrst og fremst á því sjónarmiði að hindra útflutning af tæknilegum ástæðum. Þar sé um að ræða tæknilegar ástæður til að koma í veg fyrir útflutning á ferskum flökum fremur

en að í því felist almenn stefnumörkun varðandi utanríkisverslun með þessar afurðir. Ég hygg að menn hljóti að vera einhuga í því að gefa ekki Evrópubandalaginu neina forgjöf í þessum efnum. Við þurfum að knýja á, við þurfum að knýja dyra hjá Evrópubandalaginu og tryggja okkur tollfrjálsan aðgang með saltfisk inn á þennan markað og hljótum að gera þá kröfu að þær viðræður verði hafnar hið fyrsta. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. hafi skilning á því að í því efni megum við ekki gefa Evrópubandalaginu forgjöf. Við verðum að halda á öllu því sem við getum til að tryggja samningsstöðu okkar í þessu máli.
    En það er hætt við að við getum tapað tíma ef ekki fást skýrar yfirlýsingar um það hér og nú í þessari umræðu hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á þessu viðfangsefni. Það væri æskilegt að hæstv. utanrrh. gæti gefið um það skýrar yfirlýsingar í þessari umræðu að ríkisstjórnin hefði að athuguðu máli séð að rétt væri að ganga til formlegra tvíhliða viðræðna til að tryggja þessa hagsmuni. Því yrði vel fagnað ef hæstv. utanrrh. gæti skýrt og skorinort greint frá því að við nánari umhugsun hefði hann og hæstv. ríkisstjórn komist að þeirri niðurstöðu. Það mundi skapa hér miklu traustari og breiðari samstöðu um þau mikilvægu verkefni sem hér eru á döfinni.
    Þá ætla ég, frú forseti, að víkja örfáum orðum að þeim vanda sem uppi er í þessu efni vegna þeirra fyrirvara sem gerðir hafa verið af hálfu einstakra stjórnmálaflokka í þessari umræðu og sýnast setja málið í þó nokkra óvissu. Ég minni á að formaður þingflokks framsóknarmanna, hv. 1. þm. Norðurl. v., lýsti almennum fyrirvara við málið í heild en stuðningi við hugmyndina um fríverslun með fisk. Fyrirvari af þessu tagi getur verið býsna víðtækur ef hann er skilinn samkvæmt orðanna hljóðan og nánast þess eðlils að ekki sé fallist á grundvöll þeirra samninga sem hér standa fyrir dyrum. Og ég minni einnig í þessu sambandi á þann fyrirvara sem þingflokkur Alþb. gerði og formaður Alþb., hæstv. fjmrh., kynnti hér á Alþingi 29. nóv. sl. Þar var gerður fullur fyrirvari um þátttöku og fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahags- og atvinnulífi.
    Það kom svo fram í máli hæstv. fjmrh. að líta bæri á þessa yfirlýsingu og þennan fyrirvara sem hluta af fyrirvara Íslands í viðræðunum. Jafnframt var gerð sú krafa af hálfu hæstv. fjmrh. að þessi fyrirvari yrði sérstaklega kynntur utanríkisráðherrum annarra EFTA-ríkja og utanríkisráðherrum Evrópubandalagsríkjanna.
    Ljóst má vera samkvæmt orðanna hljóðan í þessu efni að fyrirvari af þessu tagi getur falið í sér andstöðu við grundvallaratriði samninganna sem hér er verið að fjalla um.
    Nú er ekki ágreiningur um það, og ég hygg fullur skilningur af hálfu beggja samningsaðila, að í einstökum afmörkuðum atriðum geta þjóðirnar hver fyrir sig þurft að gera fyrirvara vegna sérstöðu eða óskað eftir sérstökum aðlögunartíma. En engum dettur í hug að taka þátt í viðræðum af þessu tagi ef alger

andstaða er við alla grundvallarþætti samningaviðræðnanna. Það hefur enn ekki verið skýrt af hálfu Alþb. né hæstv. ríkisstjórnar hversu víðtækir þessir
fyrirvarar eru í raun og veru. Ég hef skilið þá fyrirvara sem hæstv. utanrrh. hefur lýst og gert grein fyrir af sinni hálfu. Þeir lúta fyrst og fremst að fjárfestingu útlendinga í íslenskum auðlindum og að því að við höfum sambærilegar reglur gagnvart evrópska vinnumarkaðnum og við höfun nú gagnvart norræna vinnumarkaðnum. Um fyrirvara af þessu tagi hygg ég að ekki þurfi að vera ágreiningur hér á Alþingi.
    En spurningar hljóta að vakna um fyrirvara af því tagi sem ég hef hér minnt á af hálfu Alþb. og bæði Alþingi og þjóðin hlýtur að óska eftir því að fá nánari skýringu á því hversu víðtækur þessi fyrirvari er. Ég minni á að hann er mjög sambærilegur þeim fyrirvara sem hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., lýsti af sinni hálfu. Og ég hlýt líka að minna á ummæli hæstv. fjmrh. sem sagði hér á Alþingi í nóvember að viðmælendum Íslendinga ætti að vera fyllilega ljóst að hér á landi væru margvíslegar efasemdir um þessar viðræður. Með öðrum orðum, því hefur verið lýst yfir af hálfu fjmrh. hæstv. ríkisstjórnar að verulegar efasemdir séu um þessar viðræður. Og er nema von að menn spyrji: Hver er hin eiginlega stefna hæstv. ríkisstjórnar? Getur hún ekki eytt þessum efasemdum? Getur hún ekki talað svo skýrt og svo einhuga að þessum efasemdum sé eytt, a.m.k. þannig að ekki séu efasemdayfirlýsingar af hálfu ráðherra hæstv. ríkisstjórnar? Það er a.m.k. lágmarkskrafa að gera til hæstv. ríkisstjórnar að hún eyði efasemdum innan sjálfrar ríkisstjórnarinnar. En æskilegt væri að hún gæti eytt efasemdum hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu um þessa stefnu.
    Ég innti hæstv. utanrrh. eftir því fyrir skömmu hér á Alþingi hvort hann hefði gert viðmælendum okkar og samstarfsaðilum í EFTA grein fyrir þessari fyrirvarasamþykkt Alþb. sem hæstv. fjmrh. hefur sagt að líta beri á sem huta af heildarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. utanrrh. taldi það vera af og frá, sitt hlutverk væri ekki að gera grein fyrir samþykktum Alþb. Ég fagnaði þeirri yfirlýsingu. Ég taldi ekki að þessi samþykkt Alþb. væri útflutningsvara og var þess vegna mjög ánægður að heyra þetta svar hæstv. utanrrh. En því miður stóð hv. 2. þm. Austurl. upp í framhaldi af þessu og lýsti því yfir að Alþb. væri alls ekki fallið frá yfirlýsingunni, hún stæði enn sem hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar. Og þess vegna var óvissunni komið á jafnharðan. Hæstv. utanrrh. hafði reynt að eyða henni en þá stóð talsmaður Alþb. upp og kom óvissunni á aftur. Nauðsynlegt er að knýja á um að hæstv. ríkisstjórn geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni.
    Ég vil líka minna á þær umræður sem urðu hér á Alþingi fyrir fáum dögum þegar hæstv. viðskrh. lýsti því yfir að nauðsynlegt væri að breyta ríkisbönkum í hlutafélög og taka ákvarðanir þar um þegar á þessu ári til að mæta nýjum aðstæðum í kjölfar samninganna

við Evrópubandalagið. Fyrst og fremst taldi hæstv. ráðherra þetta nauðsynlegt af þeirri ástæðu að styrkja þyrfti eiginfjárstöðu bankanna þegar þeir mættu, í kjölfar samninganna, samkeppni frá erlendum viðskiptabönkum. Og miklu heppilegra væri að gera það með því að leita eftir viðbótarhlutafé en að leggja nýja skatta á landsmenn í þessu skyni. En hæstv. viðskrh. hafði ekki fyrr gefið þessa yfirlýsingu en hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu að ekki kæmi til greina að slíkar ákvarðanir yrðu teknar í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Nú hagar svo til að hvorki Alþingi né þjóðin hefur neina tryggingu fyrir því að hæstv. ríkisstjórn fari frá fyrr en við næstu alþingiskosningar að ári liðnu. Það er engin trygging fyrir því að hæstv. ríkisstjórn fari frá fyrr en gengið verður til alþingiskosninga. Því verður þetta mál í uppnámi þangað til mynduð verður ný ríkisstjórn. Það er ljóst af yfirlýsingum þessara tveggja hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin getur ekki tekið á viðfangsefni sem þessu sem hæstv. viðskrh. lýsir þó sem óhjákvæmilegu verkefni í tengslum við samningana við Evrópubandalagið, verkefni sem verður að taka ákvarðanir um á þessu ári. En hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir að þetta verkefni ætli hún sér ekki að leysa og geti ekki leyst. Þannig er ugglaust unnt að halda lengi áfram. Innan hæstv. ríkisstjórnar virðist ekki vera samstaða um að taka á ýmsum grundvallaratriðum í löggjöf og skipan efnahags- og peningamála sem tengjast þessum nýju samningum við Evrópubandalagið. Það grefur því undan trausti okkar í þessum viðræðum þegar yfirlýsingar af þessu tagi eru gefnar. Það veikir trú alls almennings á getu hæstv. ríkisstjórnar til að takast á við þessi viðfangsefni.
    Ég þykist alveg vita að hæstv. utanrrh. sem fer með þessi mál hafi vilja til þess eins og hæstv. viðskrh. að taka á slíkum viðfangsefnum. Ég lýsi því hér sem minni skoðun að ég er í einu og öllu sammála því sem hæstv. viðskrh. sagði um þetta efni hér á dögunum og geri síður en svo ágreining þar um. Ég þykist alveg vita að hæstv. utanrrh. vilji styðja hann í þeirri viðleitni að búa okkur sem best undir það að þessir samningar verði og við gerum þær breytingar á okkar löggjöf sem því fylgir. En það liggur hins vegar fyrir, þrátt fyrir þennan góða vilja, að ríkisstjórnin getur ekki og ætlar ekki að taka á viðfangsefni eins og þessu. Það sýnir að hæstv. ríkisstjórn er hér í miklum ógöngum og reyndar ófær um að taka á málinu.
    Frú forseti. Ég hef hér dregið fram nokkur þeirra atriða sem hafa leitt til ágreinings í tengslum við þessar viðræður. Ég hef varpað hér ljósi á nokkra þá þætti sem sýna að hæstv. ríkisstjórn er ekki í færum að takast á við þetta mikla verkefni, fyrst og fremst vegna innbyrðis ágreinings. Niðurstaðan af þessu er sú að það liggur fyrir að ekki hefur verið lögð nægjanleg áhersla á tvíhliða viðræður til þess að tryggja tollfrjálsan aðgang íslenskra sjávarafurða að mörkuðum Evrópubandalagsins. Þar um þarf að knýja hæstv. ríkisstjórn til skjótari vinnubragða nú alveg á

næstunni.
    Í öðru lagi liggur fyrir að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er ekki samstaða um eðli og umfang þeirra fyrirvara sem gerðir hafa verið í svo veigamiklum atriðum að það hlýtur að veikja traust ríkisstjórnarinnar og ala á efasemdum um möguleika hennar til þess að taka af nægjanlegri festu á málinu.
    Í þriðja lagi liggur fyrir að ekki er samstaða innan ríkisstjórnarinnar að taka á verkefnum sem fylgja munu í kjölfar þessara samninga eins og að breyta ríkisbönkum í hlutafélög. Þess vegna er óhjákvæmilegt að gerðar verði tilraunir til að mynda hér á Alþingi meiri hluta sem getur staðið að skýrri stefnumótun og einhuga framkvæmd samninga við Evrópubandalagið og breytinga á íslenskri löggjöf sem leiða munu af þeim samningum.