Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. mun að sjálfsögðu svara ítarlegri ræðu hv. 1. þm. Suðurl. en tveimur, þremur atriðum vildi ég koma á framfæri. Tvíhliða viðræður fara að sjálfsögðu fram þó þær séu ekki formlegar. Ég vil upplýsa í því sambandi að ákveðið hefur verið að ég eigi fund með forseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Delors, 18. apríl nk. og að sjálfsögðu mun ég þar gera grein fyrir viðhorfum Íslendinga og óskum í sambandi við þessar viðræður. Sömuleiðis vil ég upplýsa að framkvæmdastjóri sjávarútvegssviðs, Marin, mun heimsækja Ísland í maímánuði sem gestur sjútvrh. Þar fara að sjálfsögðu fram viðræður um sömu áhersluatriði okkar Íslendinga. Þannig fara tvíhliða umræður fram þótt ekki hafi verið óskað eftir þeim formlega.
    Hér var nokkuð rætt um Færeyinga og þær fréttir sem þaðan hafa borist um tollfrelsi fyrir færeyskar sjávarafurðir. Ég hygg að þarna muni eitthvað vera orðum aukið og veit reyndar að það er ekki tollfrelsi fyrir saltaðan þorsk t.d. Ég vek hins vegar athygli á því að Færeyingar eru með tvíhliða fiskveiðisamning við Evrópubandalagið og samkvæmt þeim samningi fær Evrópubandalagið heimild til 20 þús. tonna veiði innan fiskveiðilögsögu Færeyinga, þar af 2000 tonn af þorski. Við höfum ekki viljað fallast á slíkan tvíhliða samning sem, eins og margoft hefur komið fram hjá þeim sem fara með sjávarútvegsmál hjá Evrópubandalaginu, er skilyrði fyrir frekari tollaívilnunum. Spurningin er: Viljum við fá slíka kröfu? Það er mín skoðun að á þessu stigi sé ekki rétt að bjóða upp á slíka kröfu.
    En eins og ég sagði áðan mun utanrrh. gera ítarlega grein fyrir því sem fram hefur farið. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það hafa orðið miklar breytingar í Evrópu sem að sjálfsögðu gera það að verkum að nauðsynlegt er að ræða þessi mál stöðugt. En ég stóð fyrst og fremst upp til að gera grein fyrir þeim tveimur fundum sem fram undan eru, annars vegar minn við Delors og hins vegar sjútvrh. við Marin.