Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þar sem svo langt er um liðið frá því að skýrsla mín til Alþingis um undirbúning áformaðra samningaviðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið var lögð fram á Alþingi er kannski rétt að byrja með því að rifja upp, og líka að gefnu tilefni, forsendur þessara viðræðna. Af hálfu Evrópubandalagsins er alveg skýrt og ótvírætt að forsendur þess fyrir þessum viðræðum voru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Evrópubandalagið hefur lýst því yfir að það gefi ekki kost á því að veita viðtöku aðildarumsóknum fyrr en eftir árslok 1993. Það þýðir í reynd að umsóknir nýrra aðila geta ekki verið komnar til framkvæmda, þ.e. samningum um þær lokið, fyrr en í fyrsta lagi eftir miðjan þennan áratug. Á því getur orðið ein undantekning og var jafnvel um það rætt fyrir alllöngu síðan, þ.e. Austur-Þýskaland ef og þegar til sameiningar þýsku ríkjanna kemur.
    Í annan stað. Evrópubandalagið lýsti því yfir að það gæfi ekki kost á tvíhliða samningum við EFTA-ríkin hvert í sínu lagi og færði fyrir því eftirfarandi rök: Evrópubandalagið framfylgir nú áætlun um að framkvæma grundvallarreglur samrunaferilsins, koma á innri markaðnum fyrir árslok 1992 eða áramótin 1992--1993. Kjarni þess máls er sá að Evrópubandalagið er að samræma á sínu svæði grundvallarreglurnar um hið fjóreina frelsi og að hrinda í framkvæmd áætlunum um samræmingu á hvers kyns lögum, reglum og stjórnsýsluframkvæmd innan þessara landa. Þeir sögðu því að það gengi ekki upp að gera marga tvíhliða samninga við önnur ríki á sama tíma þar sem við því yrði að búast að frávik, undanþágur og aðlögunartími fyrir hvert land gæti gengið þvers og kruss á þessar grundvallarreglur auk þess sem þeir sögðu einfaldlega að þetta væri slíkt forgangsverkefni innan bandalagsins að þeir hefðu ekki tíma eða orku aflögu til þess að leggja í slíka samninga.
    Þriðja meginforsendan af hálfu Evrópubandalagsins var síðan sú að bjóða EFTA-ríkjunum í heild til viðræðna sem einum hópi að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Þ.e. Evrópubandalagið bauð EFTA-ríkjunum til viðræðna um samninga á takmörkuðu sviði sem leystu þeirra brýnustu vandamál. Skýrt var tekið fram að það yrði þá að vera við EFTA-ríkin í heild, að EFTA-ríkin kæmu fram sem einn aðili. Þau töluðu einni röddu, eins og það var kallað og markmiðið væri í raun og veru að yfirfæra grundvallarreglur innri markaðarins eða samrunaferilsins yfir á landsvæði ríkjanna 18 til þess að skapa raunverulega eina viðskipta- og markaðsheild.
    Þetta voru af hálfu EB þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar viðræðum sem síðan hafa farið fram. Af hálfu EFTA-ríkjanna var við þessu brugðist með þeim hætti að leiðtogar EFTA-ríkjanna komu saman í marsmánuði á liðnu ári, gáfu þar út sína svokölluðu Oslóaryfirlýsingu sem er forsendan fyrir

þeirri leið sem mörkuð hefur verið, þ.e. fyrir samningaleið EFTA-ríkjanna í heild. EFTA-ríkin lýstu sig þar reiðubúin til þess að ganga til slíkra viðræðna, hefja undirbúning að samningum og taka upp formlega samninga á þessum grundvelli, og þá var vitnað til ummæla forseta framkvæmdastjórnar EB, Jacques Delors, enda yrði að því stefnt að koma á samræmdu evrópsku efnahagssvæði 18 ríkja með 350 millj. íbúa og þar væri um að ræða, að því er varðar stjórnun hins sameiginlega evrópska efnhagssvæðis, sameiginlegar stjórnar- og ákvörðunarstofnanir.
    Það er á þessum forsendum sem EFTA-ríkin hófu þessar viðræður. Þær hófust í lok apríl á liðnu ári og fyrsta áfanga þeirra lauk raunverulega 20. okt. á sl. hausti og framhaldið var síðan staðfest með sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra beggja aðila 19. des. í fyrra. Og þær umræður gengu eftir samkvæmt tímaáætlun. Það var staðfest í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnunarnefndar æðstu embættismanna beggja aðila 20. okt. að könnunarviðræðurnar væru nægilega langt komnar, að þær væru nægilega yfirgripsmiklar og þær hefðu leitt í ljós með skýrum hætti að ekki væri um að ræða óyfirstíganleg vandamál þannig að með þeim hefði verið lagður grundvöllur að því að unnt væri að taka upp formlegar samningaviðræður á fyrri hluta þessa árs.
    Þetta var síðan staðfest aftur í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundarins 19. des. með alveg ótvíræðum hætti þannig að forsendur þessara viðræðna eru þessar: Það er markmið samninganna að koma á því sem kallað hefur verið sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði. Samningar um það hefjist á fyrri hluta þessa árs og verði lokið á fyrri hluta næsta árs eða jafnvel, eins og það er orðað, innan árs. Þetta geti gerst í formi milliríkjasamnings sem væri lagður fyrir þjóðþing EFTA-ríkjanna. Öllum þessum undirbúningi verði lokið með formlegri staðfestingu samninganna þannig að samningurinn geti komið til framkvæmda fyrir árslok 1992, þ.e. á sama tíma og lokið verði framkvæmd innri markaðarins innan Evrópubandalagsins.
    Ég árétta þetta hér, virðulegi forseti, að gefnu tilefni. Tilefnið er það að ýmis ummæli forustumanna Dana, forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs og
utanríkisráðherra á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda í Turku í fyrri viku,
gefa til kynna að af þeirra hálfu séu bornar brigður á að þessar forsendur haldi.
    Það verður að taka fram að þau ummæli sem þessir norrænu stjórnmálamenn hafa látið falla eru dálítið óskýr og festir ekki gjörla hönd á nákvæmlega hvað þeir eru að segja. En þeir virðast vera að gefa í skyn að þeir vilji ráða EFTA-ríkjunum og þá sérstaklega Norðurlandaþjóðunum að fara aðra leið, nefnilega að sækja þegar í stað beint um inngöngu í Evrópubandalagið. Og þeir virðast einnig gefa í skyn, þó þeir fullyrði það ekki, að breytinga megi vænta á afstöðu Evrópubandalagsins þannig að sú leið sem EFTA-ríkin hafa mótað sé ekki vænleg til árangurs. Þetta er dálítið alvarlegt mál þegar forsætisráðherra og

utanríkisráðherra Danmerkur, sem er Evrópubandalagsríki, láta frá sér fara slíkar yfirlýsingar án þess þó að gera nánari grein fyrir þeim þegar eftir er leitað. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í fyrri viku var gengið eftir því, þótt naumur tími væri til viðræðna um þetta mál, hvað Danir hefðu fyrir sér í þessum ummælum en við því fengust engin svör sem haldbær geta talist, reyndar engin svör. Þess vegna var það að ég óskaði sérstaklega eftir viðræðum við utanríkisviðskiptaráðherra Svía, sem nú fer með formennsku í EFTA, á miðvikudag í fyrri viku til þess að fá alveg frá fyrstu hendi mat formennskulands EFTA á þessum ummælum. Jafnframt óskaði ég eftir viðræðum við danska utanríkisráðherrann í síðastliðinni viku í Kaupmannahöfn og var því líklega tekið en þegar á reyndi reyndist það ekki unnt.
    Nú þarf að taka skýrt fram hverjar þær upplýsingar voru sem ég fékk í hendur frá utanríkisviðskiptaráðherra Svía. Þær eru þessar: Forsætisráðherra Svía hefur sótt heim forsætisráðherra og ríkisstjórnir tíu aðildarlanda EB af tólf á undanförnum vikum og það er fullyrt, sem niðurstaða af þeim viðræðum, að alls staðar, af hálfu allra þessara ríkisstjórna, hafi verið skilmerkilega áréttað að Evrópubandalagið standi fast við þær forsendur sem lagðar voru í könnunarviðræðum á síðastliðnu ári, að það sé óbreytt að stefna að formlegum samningum snemma á þessu ári. Og reyndar fylgdi það sögunni að það hefði komið fram hjá fulltrúum þessara ríkisstjórna að stuðningurinn í höfuðborgum, þ.e. frá ríkisstjórnum Evrópubandalagsríkja við samninga við EFTA-ríkin, væri nú mun ákveðnari en hann hefur verið nokkru sinni fyrr, sérstaklega í ljósi þeirra tíðinda sem síðan hafa orðið í Þýskalandi, þ.e. varðandi þau áform sem nú eru uppi um sameiningu þýsku ríkjanna. Það var skýrt tekið fram að hvergi nokkurs staðar í nokkurri höfuðborg eða hjá fulltrúa nokkurrar ríkisstjórnar hefðu menn viljað kannast við neitt það sem gæfi til kynna að frá þessum forsendum yrði vikið, með öðrum orðum það fékkst engin staðfesting á þeim sögusögnum sem Danir hafa komið á flot. Þessu til viðbótar er þess að geta að utanríkisviðskiptaráðherra Svía sótti heim varaforseta Evrópubandalagsins, Frans Andriessen, vikuna áður en fundur utanríkisráðherra Norðurlanda átti sér stað og fékk þar sömu viðtökur og efnislega sömu niðurstöðu, að því færi fjarri að um væri að ræða stefnuhvörf eða stefnubreytingu. Hennar væri ekki að vænta, forsendurnar væru hinar sömu, þær væru óbreyttar og það væri fullur vilji á því að ganga til þessara samninga og ljúka þeim innan tilsetts tíma og stefna að þeim markmiðum sem þegar hefði verið yfir lýst.
    Til þess að árétta þetta enn fremur var mér tjáð að forsætisráðherra Svía ásamt með utanríkisviðskiptaráðherra þeirra mundu í dag, mánudag, óska eftir sérstökum fundi með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Írlands, sem nú fer með formennsku í Evrópubandalaginu, til þess að

fá það staðfest í eitt skipti fyrir öll hvort Evrópubandalagið standi við forsendur áformaðra samninga eða ekki, eða með öðrum orðum til þess að fá úr því skorið hvort nokkur flugufótur væri fyrir þessum yfirlýsingum hinna dönsku ráðamanna. Jafnframt var því heitið að á morgun, þriðjudag, mundu niðurstöður þeirra viðræðna verða kynntar utanríkisviðskiptaráðherrum annarra EFTA-landa. Svo að ég verð af þessu sérstaka tilefni að láta í ljós óánægju mína með að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Dana skuli með þessum hætti halda fram óstaðfestum sögusögnum um breytingar á stefnu Evrópubandalagsins sem, þrátt fyrir að eftir er leitað, fást ekki staðfestar nokkurs staðar á byggðu bóli hjá réttbærum aðilum. En meðan þannig er um hnútana búið er ekki hægt að segja annað en að við hljótum að sjálfsögðu að treysta því að forsendur þessara samninga, eins og þær hafa verið kynntar og eins og þær hafa verið settar fram í sameiginlegum yfirlýsingum réttbærra aðila frá báðum hliðum hvað eftir annað, að þær haldi og markmiðin séu óbreytt. Það er ljóst að formennskulandið, Svíþjóð, hefur viljað knýja á um aukinn hraða í þessum viðræðum og setti fram tímaáætlun sem miðaði við það að útlínur samnings lægju fyrir áður en þeir skiluðu af sér sem formennskuland, þ.e. fyrir mitt ár, og vonuðust til þess að samningagerð yrði lokið fyrir árslok. Þar settu þeir fram hugmyndir sem voru umfram það sem samkomulag varð um því að samkomulagið var aðeins um það að hefja formlegar samningaviðræður á fyrri hluta ársins og ljúka þeim, eins og stóð í upphaflegum textum, innan árs. Það er mat flestra, og var það strax í desember, að þess væri ekki að vænta að þeim gæti verið lokið fyrr en líða tekur á árið 1991. Ég hef frá upphafi litið svo á að það skipti ekki sköpum
mánuður til eða frá. Það sem skiptir sköpum er að tímaáætlunin í heild um það að ljúka samningsgerðinni og kynningu samninganna, staðfestingu þeirra í þjóðþingunum og öðrum undirbúningi framkvæmdar, að þessu verði öllu lokið fyrir árslok 1992.
    Þá vil ég næst, virðulegi forseti, víkja nokkuð að ólíku mati manna á því hvort rétt sé að fara þessa leiðina eða hvort við Íslendingar ættum fremur að leggja áherslu á hina svokölluðu tvíhliða leið. Fyrst vil ég nefna, af því að þess var getið hér í fjölmiðlum í tilefni af viðtali við lögmann Færeyinga og hann var borinn fyrir því að Færeyingar gerðu sér vonir um að ná nýjum tvíhliða samningi við Evrópubandalagið sem tryggði þeim tollfríðindi, a.m.k. að því er varðaði saltfisk. Fréttin var kannski ekki mjög skýr en alla vega notuðum við að sjálfsögðu tækifærið og ræddum við lögmann Færeyinga af því tilefni auk þess sem það átti að hafa samband við færeysk stjórnvöld og utanríkisráðuneytið í Danmörku. Staðreyndir liggja nú fyrir um það hvernig þetta mál er vaxið. Það er einfaldlega þannig að Færeyingar hafa samstarfssamning við Evrópubandalagið um fiskveiðimálefni. Og Færeyingar hafa líka samning við Evrópubandalagið um að veita Evrópubandalaginu veiðiheimildir, sem að vísu eru gagnkvæmar, innan

færeyskrar fiskveiðilögsögu. Þær veiðiheimildir nema um 20 þús. tonnum og þar af eru um 2 þús. tonn af þorski. Þessar veiðiheimildir sem Færeyingar sömdu um við Evrópubandalagið á sínum tíma eru forsendur fyrir þeim samningi sem þeir hafa við Evrópubandalagið. Sérstök nefnd starfar síðan til þess að endurskoða samninginn reglubundið og hér mun vera átt við þá nefnd og þá endurskoðun. Þessum samningi hefur ekki verið breytt. Áform og óskir eru uppi um það af hálfu Færeyinga og reyndar beggja aðila. Fundir um þetta mál munu fara fram í apríl þannig að það liggja engar niðurstöður fyrir enn í því efni. En óskir Færeyinga eru sérstaklega um afnám tolla á öðrum tegundum en þorski, þ.e. keilu, löngu og ufsa, sem skipta óneitanlega mun minna máli á þessum markaði. En staðreyndin er sú að þeir hafa svona samning. Hann er okkur kunnur frá fyrri tíð. Hann er byggður á því að þeir hafa orðið við kröfunni um veiðiheimildir fyrir tollaívilnanir og er enn eitt dæmið um framkvæmd á sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins, sem er nákvæmlega þessi, eins og öllum er kunnugt nema e.t.v. hugsanlega einum hv. þm. sem veit af því að þetta er svona. ( EKJ: Hann hefur rétt fyrir sér.) Ja, það skyldi nú ekki vera.
    Þetta er með öðrum orðum hliðstætt við samninga Norðmanna. Norðmenn veittu Evrópubandalaginu veiðiheimildir í Barentshafi 1985, notuðu þá tækifærið til þess að semja um frekari tollaívilnanir fyrir Norðmenn á saltfiskmörkuðum á Spáni og Portúgal þegar þau ríki gengu inn í Evrópubandalagið, veittu veiðiheimildir í staðinn sem var forsenda þeirra samninga. Sama er að segja um Grænland. Kanadamenn höfðu slíka samninga en sögðu þeim upp. Ef menn vilja draga einhverjar ályktanir af þessum færeyska samningi, eru þær ekki nýstárlegar vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að ef við viljum taka upp formlega tvíhliða samninga við Evrópubandalagið um frekari tollaívilnanir en við náðum með fríverslunarsamningum og bókun 6 og erum reiðubúnir til þess að láta af hendi veiðiheimildir fyrir þá er samningsstaðan öll önnur, þ.e. þá er það mitt mat að þar með gætum við opnað möguleika á frekari tollaívilnunum eins og samningar annarra þjóða sýna. En meðan við svörum því til að slíkt sé ekki á dagskrá og komi ekki til greina af íslenskri hálfu munum við, með því að óska eftir formlegum tvíhliða viðræðum, framkalla þær kröfur. Það vitum við einfaldlega. Það er svo. En ef ekki er meiningin að semja um eitt eða neitt á því sviði er hætt við því að þeir samningar leiði ekki til neinnar niðurstöðu.
    Mín afstaða til þeirrar spurningar hvort við eigum heldur að fara þessa leiðina eða hina, vera í EFTA-samflotinu eða taka upp tvíhliða samninga, svar mitt við því er afar einfalt: Það er ekki annaðhvort eða, þetta er ekki tvennt sem útilokar hvað annað. Við eigum út af fyrir sig að fara báðar leiðir. Við eigum að sækja fram á báðum vígstöðvum, eins og ég hef gjarnan orðað það, í hópi EFTA-landanna í heildarsamningunum, um allt samningssviðið, þar á

meðal að því er varðar kröfuna um fríverslun með fisk, og því næst eigum við að halda uppi tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið eins og við höfum gert og eins og við höfum gert á tveimur stigum. Við höfum gert það með því að búa í haginn fyrir samningagerðina síðar með viðræðum við alla þá forustumenn ríkisstjórna einstakra aðildarlanda Evrópubandalagsins sem við höfum átt þess kost að ræða við. Við höfum rætt við forsætisráðherra, utanríkisráðherra, utanríkisviðskiptaráðherra, sjávarútvegsráðherra og viðskipta- og iðnaðarráðherra Evrópubandalagslanda. Það eru ekki formlegar samningaviðræður vegna þess að þessir aðilar hafa ekki samningavald að því er varðar tolla eða fiskveiðistefnu. Það vald hafa ríkisstjórnir EB framselt í hendurnar á framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Hún hefur það vald. Við hana verðum við að semja ef við ætlum að fá frekari tollaívilnanir. Hjá því verður ekki komist og hún hefur ekki umboð til annars en að ganga til slíkra samninga á grundvelli þess samningsumboðs sem felst í hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu.
Síðar meir, þegar samningagerðin kemur til kasta hinna stjórnmálalegu leiðtoga Evrópubandalagsríkjanna, munum við væntanlega njóta þess ef við höfum einhverju áorkað í að auka skilning á sérstöðu Íslands og sérhagsmunum Íslands þegar þau mál koma til kasta ráðherraráðs Evrópubandalagsins.
    Við höfum reyndar gert meira en þetta því að við höfum líka haft frumkvæði að því að taka upp viðræður við framkvæmdastjórnina í Brussel, þ.e. fiskveiðideildina þar sem þessi missirin nýtur forustu framkvæmdastjóra sem er spænskur stjórnmálamaður og heitir Marin. Sjútvrh. hefur eins og kunnugt er rætt við hann og honum hefur verið boðið hingað og er væntanlegur í maí til framhaldsviðræðna. Það sem við höfum rætt við hann og aðra framkvæmdastjórnarmenn í Brussel er spurningin um samstarfssamning milli Íslands og Evrópubandalagsins á sviði fiskveiðimálefna. Og það hefur verið reifað hvort ekki væri tímabært að gera slíkan samning milli þessara tveggja aðila, eins og hafa verið gerðir við önnur ríki. Um hvað ætti hann að snúast? Um margvíslega sameiginlega hagsmuni á sviði sjávarútvegsmála, t.d. rannsóknir á lífríki hafsins, um fiskirannsóknir, um eftirlit, sérstaklega gæðaeftirlit og gæðastaðla og að sjálfsögðu er það opin spurning: Erum við tilbúnir að ræða innan slíks rammasamnings um frekara samstarf t.d. að því er varðar nýtingu á sameiginlegum stofnum eða flökkustofnum? Í því viðfangi munu Evrópubandalagsmenn eða framkvæmdastjórnin vafalaust koma fram með sínar sígildu kröfur að því er varðar hina sameiginlegu fiskveiðistefnu, þ.e. opna spurninguna um veiðiheimildir. Og þá er spurningin einfaldlega sú: Það er eitthvað sem íslensk stjórnvöld verða að gera upp við sig. Ef við ætlum að leggja á það höfuðkapp að fá fram með tvíhliða samningaviðræðum frekari tollaívilnanir verðum við að svara við að svara þeirri spurningu: Hvaða verði eru við tilbúnir að kaupa? Þetta er spurning sem ég ræddi

við fulltrúa SÍF núna fyrir hádegið þegar við vorum að ræða hagsmunamál að því er varðar saltfisksútflutning. Og ég spurði þessa menn: Hver er ykkar afstaða? Eruð þið tilbúnir að mæla með því að Íslendingar kaupi frekari tollaívilnanir að því er varðar saltfiskmarkaðina með því t.d. að ganga til samninga við Evrópubandalagið sem fælu í sér í fyrsta lagi það umræðuefni, nýtingu á sameiginlegum stofnum eða flökkustofnum? Nú eða hugsanlega ef hægt væri að ná þessu fram með nánast málamyndaveiðiheimildum, gagnkvæmum að sjálfsögðu, hver er ykkar afstaða, hvað munuð þið ráðleggja íslenskum stjórnvöldum? Og sannleikurinn er sá að það voru skiptar skoðanir um þetta. En það var mikill meiri hluti sem sagði: Það á ekki að neita viðræðum. Og ég segi ekki meira um þetta mál annað en það að þeir sem telja að þetta sé brýnt og þeir sem telja að sá sem hér stendur eða íslensk stjórnvöld hafi vanrækt hagsmuni íslensks sjávarútvegs á þessu sviði, þeir sem eru þeirrar skoðunar að við eigum að óska eftir formlegum tvíhliða samningaviðræðum við Evrópubandalagið um frekari tollaívilnanir verða að svara því í leiðinni hvaða verði þeir eru reiðubúnir að kaupa slíkar hugsanlegar tollaívilnanir. Menn taka ekki upp samninga nema vita hvað þeir vilja fá út úr þeim samningum og hvað þeir vilja leggja á borðið með sér í þeim. Þetta er ósköp einfalt mál og á ekkert að ræða sem neitt launungarmál vegna þess að hér er vissulega um mikla hagsmuni að ræða. Það ber að meta hvort við viljum halda áfram þeirri stefnu sem við höfum fylgt hingað til, sem hefur ekki leitt til niðurstöðu, eða hvort við viljum taka upp sveigjanlegri stefnu ef við leggjum á það kapp að ná tollívilnuninni, sem vissulega skiptir verulegu máli og má reikna í einhverjum hundruðum millj. kr. á ári hverju eins og talsmenn SÍF hafa sett það dæmi fram.
    Hv. 1. þm. Suðurl. vitnaði til frásagnar af viðræðum við Christophersen, einn af varaforsetum Evrópubandalagsins, og sagði að ummæli hans væru nýlunda og mættu heita tíðindi. Ummæli hans eru ágæt og jákvæð í garð okkar Íslendinga en þau eru ekki nýlunda. Þau staðfesta einmitt árangurinn af þessari viðleitni okkar til tvíhliða viðræðna ekki bara við forráðamenn einstakra ríkisstjórna heldur líka við framkvæmdastjórnarmenn í Brussel. Og ég minni á að umræddum Christophersen, fyrrv. utanríkis- og fjármálaráðherra Dana, var boðið í opinbera heimsókn hingað til Íslands af hálfu viðskiptaráðherra. Viðskiptaráðherra hefur síðan þegið boð hans og sótt heim Brussel til viðræðna við hann þannig að þessir tveir aðilar hafa ræðst við mjög rækilega einmitt um þessi mál, um sérstöðu Íslands í sjávarútvegi, um líkurnar á árangri að því er varðar kröfu EFTA-ríkjanna sameiginlega um fríverslun með fisk, um markaðstruflandi áhrif styrkjakerfis EB að svo miklu leyti sem það er svo, um það hvernig best væri að halda á þessum málum í heild sinni af hálfu Íslendinga. Og um líkurnar á því hvort unnt væri á ákveðnu skeiði samninganna að fá viðurkenningu á því að sérstaða Íslands væri slík að hin sameiginlega

fiskveiðistefna gæti ekki átt við í okkar tilviki þótt öllum beri saman um að ekki stoði fyrir okkur að setja fram kröfu um að Evrópubandalagið falli frá eða leggi niður sína sameiginlegu fiskveiðistefnu. (Gripið fram í.) Ég nenni nú satt að segja ekki að taka þátt í umræðum um þetta á öðru plani en staðreyndaplani. Og það er mjög einfalt mál, það vita allir hér inni, það hafa allir sem vilja gögn um það í hverju þessi sameiginlega fiskveiðipólitík er
fólgin. Hún snýst annars vegar um það að innan Evrópubandalagsins er um að ræða víðtækt styrkjakerfi og menn hafa upplýsingar um í hverju það er fólgið. Að því er varðar samninga við önnur ríki utan bandalagsins um
viðskiptafríðindi eða tollaívilnanir þá setur Evrópubandalagið fram kröfuna um veiðiheimildir í staðinn. Þetta eru einfaldlega staðreyndir og þýðir ekkert að neita þeim.
    Mín niðurstaða er óbreytt að því leyti til að ég tel að forsendurnar, sem lagðar voru fyrir viðræðuferlinum við Evrópubandalagið á sl. ári, standi. Markmiðin eru óbreytt og þær viðræður eru í undirbúningi og þær munu hefjast innan tíðar. Tvíhliða viðræðurnar halda enn áfram og verður haldið áfram í næsta áfanga þegar framkvæmdastjóri fiskveiðideildar Evrópubandalagsins kemur í sína heimsókn til Íslands sem hefur dregist allt of lengi. Honum var boðið að koma hingað á sl. hausti en nú er niðurstaðan sú að hann mun koma hingað í maí. Ég vil mælast til þess við hv. þm. að mikla ekki fyrir sér einhvern ágreining í þessum efnum. Ég held að sá ágreiningur sé mun minni en margir vilja vera láta vegna þess að þetta er ekki annaðhvort eða. Þetta er ekki annaðhvort þessi leiðin eða hin leiðin. Við eigum að fara báðar þessar leiðir. Til eru að vísu þeir menn hér inni sem hafa viljað hafna EFTA-leiðinni. Það hefur komið fram. Þeir segja einfaldlega að sérstaða Íslands sé svo mikil að við eigum ekki samleið með öðrum Norðurlandaþjóðum eða EFTA-þjóðum. Það er skoðun út af fyrir sig. Ég er ekki sammála þeirri skoðun og það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar.
    Miklu púðri hefur verið eytt í að ræða um kröfur um fyrirvara sem gerðir hafa verið. Það er ekki flókið mál. Þeir fyrirvarar sem gerðir hafa verið af Íslands hálfu í könnunarviðræðunum og kynntir þar eru þessir:
    Við höfum sagt: Við viljum fá fríverslun með fiskafurðir innan Evrópubandalagsins vegna þess að ef það næst ekki fram er hinn viðskiptalegi ávinningur okkar, vegna sérstöðu Íslands, miklum mun takmarkaðri en annarra þjóða af þessum samningum í heild sinni og við höfum fengið stuðning annarra EFTA-ríkja við þá kröfu. Það mun styrkja stöðu okkar verulega. Til eru þeir sem segja: Hin ríkin munu styðja þá kröfu hangandi hendi vegna þess að það eru miklu minni hagsmunir í húfi hjá þeim. Enn eru aðrir sem segja: Til hvers er að fara fram á fríverslun ef okkur er gert að keppa á fiskmörkuðum í Evrópu við fyrirtæki sem njóta margvíslegra styrkja, þ.e. vegna hins þáttar hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins? Þetta er auðvitað álitamál. Sjálfur

er ég þeirrar skoðunar að þrátt fyrir hina umtalsverðu styrkjapólitík Evrópubandalagins sé ekki nóg að nefna þar bara tölurnar. Það ber fyrst og fremst að skoða: Hvað er það af þessum styrkjum sem mundi skaða samkeppnisstöðu annarra, sem hefur markaðstruflandi áhrif? Og lítum á: Helmingurinn af þeim fjármunum sem Evrópubandalagið ver til styrkja til sjávarútvegs, sem er innan við 1% af þeirra þjóðarframleiðslu, sjávarútvegurinn í heild, helmingurinn fer í að kaupa veiðiheimildir samkvæmt hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu. Það út af fyrir sig skaðar ekki að öðru jöfnu íslenska hagsmuni. Það eru talsverðir hagsmunir fyrir granna okkar Grænlendinga svo að ég nefni dæmi.
    Annar þáttur þessarar stefnu er sá að þeir verja talsverðum fjármunum í úreldingarsjóð fiskiskipa með það að markmiði að minnka skipastólinn. Það er okkur frekar í hag. Það varðar aðallega Spánverja sem hafa allt of stóran skipastól.
    Þriðji þátturinn er fiskiðnaði og fiskverslun í Evrópubandalaginu til góða vegna þess að hann er í því fólginn að verja fé til að byggja upp dreifingarkerfi, kynningarkerfi og markaðskerfi fyrir fiskafurðir og skaðar okkur út af fyrir sig ekki.
    Það er fyrst og fremst fjórði þátturinn í þessu, sem eru bein framlög eða styrkir til fiskvinnslu á sumum svæðum Evrópubandalagsins, sem skaða okkur og hafa markaðstruflandi áhrif. Þess vegna er það að á undirbúningstíma samninganna var ákveðið af hálfu EFTA strax í byrjun janúar að fela sekretariatinu í EFTA, þ.e. viðskiptastefnudeildinni og hagfræðideildinni, að gera alveg sérstaka úttekt á þessu styrkjakerfi með það í huga að greina áhrif þess að því er varðar markaðstruflandi eða samkeppnistruflandi áhrif. Niðurstaðan liggur ekki fyrir en það er margt fróðlegt í því að finna og m.a. þetta: Það er ekki ástæða til þess að ætla, þrátt fyrir þær háu fjárhæðir sem hér er um að ræða í styrkjum, að við gætum ekki haft verulegan ávinning af fríverslunarfyrirkomulaginu með fiskafurðir. Í annan stað er á það að líta að flestir menn spá því að það muni draga úr þessum styrkjum á næstu árum þannig að ef við hugsum til lengri tíma væri ávinningur okkar af fríverslunarreglunni mjög umtalsverður. Ég tek því ekki undir með þeim sem segja að stuðningur EFTA-ríkjanna við grundvallarregluna um fríverslun með fisk sé málamyndagerningur og ég held að hann eigi eftir að skila okkur verulegum ávinningi og þeim mun meiri sem lengra líður á tímann.
    Aðrir fyrirvarar okkar lúta að spurningunni um fjármarkaðinn, þ.e. atvinnurekstrarréttindi erlendra aðila til þess að nýta auðlindir okkar, þ.e.
til þess að eiga í fyrirtækjum eða fjárfesta í fyrirtækjum sem nýta okkar auðlindir. Það tekur fyrst og fremst til sjávarútvegs og orkuauðlinda. Fyrir því höfum við, satt að segja, talsverð rök. Rökin eru þau að auðlindir sjávar, hinir nýtanlegu fiskstofnar, eru óskipt auðlind. Í sínu náttúrlega formi er þeim ekki skipt upp þannig að þeir séu eins og skógarmerkur Finnlands í einkaeign og gangi þess vegna og í því

formi kaupum og sölum. Að íslenskum lögum eru þessar auðlindir sameign íslensku þjóðarinnar. Íslenska ríkið er að segja með þessum fyrirvara: Við áskiljum okkur rétt til þess að ráða því sjálfir hvernig og hverjum verði heimilt að nýta þessa auðlind. Sama á við um orkulindirnar og við vísum til þess að sami háttur er á hafður að því er varðar t.d. Bretlandseyjar sem er Evrópubandalagsríki og olíuauðlindir Norðursjávar. Breska ríkisstjórnin hefur ekki afsalað sér valdinu til þess að láta í hendur eða selja consessions eða bjóða út nýtingu á þeim auðlindum. En það er hún sem ræður því og aðildin að Evrópubandalaginu breytir engu um það.
    Þriðji fyrirvarinn er að því er varðar fólk. Hann er, eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl., almenni fyrirvarinn sem við þekkjum að því er varðar norræna vinnumarkaðinn, með öðrum orðum að íslenska ríkisstjórnin ætlast til þess að fámenni þjóðarinnar verði að því leyti viðurkennt að ef á það reynir getum við skorist í leikinn ef um væri að ræða innstreymi fólks þannig að það raskaði gersamlega jafnvægi hér á vinnumarkaði, annaðhvort í heild eða í einstökum greinum.
    Þetta eru raunverulega þeir fyrirvarar sem við höfum gert og sem skipta máli. Annað kynnu að vera samningar sem eru með venjuleg, tímabundin ákvæði um aðlögunartíma eins og alkunna er af samningum annarra þjóða við Evrópubandalagið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að gera neina fleiri fyrirvara. Lítum á. Var það ekki haft eftir Mitterrand forseta að enginn samningur væri án undanþága en það væri heldur enginn samningur sem væri bara tómar undanþágur. Og hvað er nú þessi samningur sem við erum að gera? Hvernig mun hann birtast okkur? Það hefur svolítið verið haft í flimtingum að hann mun verða meira en þverhandarþykkur þegar allt er saman komið. Við getum gert ráð fyrir því að hann verði að magni til, þ.e. lög og reglur Evrópubandalagsins sem við höfum fallist á að gera að lagagrundvelli hins nýja evrópska efnahagssvæðis, eitthvað um 30 þúsund síður af laga- og reglugerðartexta, þ.e. talsvert mikið meira en íslenska lagasafnið og talsvert meira að vöxtum en texti heilagrar ritningar og sýnu lakari. Það skal viðurkennt.
    Þetta er milliríkjasamningur sem lagður verður fyrir þjóðþing. Ef þjóðþingin fallast á slíkan samning verður hann hluti af íslenskri löggjöf og hann felur ekki í sér afsal löggjafarvalds. Við erum hins vegar því vön við gerð annarra milliríkjasamninga, ég nefni sem dæmi mannréttindasáttmálann og mannréttindadómstólinn, að við eins og aðrar smáþjóðir eigum mikið í húfi að það sé tryggt að framkvæmd samnings, milliríkjasamnings, sem við gerum við stundum öflugri ríki, verði traust og örugg. Þannig að við munum setja upp nokkrar stofnanir til að tryggja samræmda framkvæmd og til þess að tryggja réttindi okkar, íslenskra þegna og íslenskra fyrirtækja, til þess að fá lausn á deilumálum eða fá réttindi tryggilega framkvæmd samkvæmt samningnum.

    Þetta er það sem ég tel ástæðu til þess að ræða sérstaklega um fyrirvarana. Nú er rétt að geta þess að frá því að þessi mál voru seinast rædd hér á hinu háa Alþingi hefur mikil vinna verið í það lögð af okkar hálfu að undirbúa þetta. Það er undirbúningstími núna fram í maí. Sá undirbúningstími snýst fyrst og fremst um það að við höfum skipað samningamann af Íslands hálfu. Formenn undirnefndanna sem störfuðu á könnunarviðræðutímabilinu halda áfram sem partur af þessum samningahóp. Starfsfólk ráðuneytanna sem einkum kom að þessum samningum hefur haldið áfram sinni vinnu við að bera saman lagareglur og reglugerðir Evrópubandalagsins á þessu samningssviði við íslensk lög. Við viljum standa við okkar skyldur að búa okkur undir það að þýða þennan mikla laga- og reglugerðabálk yfir á íslenska tungu. Það er dálítill handleggur og það kostar svolítið og það hefur verið leitað eftir aðstoð Orðabókar Háskólans, sérfræðinga þeirra og þess tölvuvædda kerfis sem þeir ráða yfir til þess að vinna það verk. Það vekur svo reyndar að vísu athygli mínka að við höfum tilboð á hendi um að það verk verði unnið fyrir upphæð sem er ekki nema 1 / 3 af því sem það mun kosta samkvæmt áætlun í löndum eins og Svíþjóð og Noregi og munu þeir þó geta notast við danskan texta mun betur en við.
    Virðulegi forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt. Það er ljóst að ef af þessum samningum verður munu þeir hafa víðtæk áhrif á flesta þætti íslensks efnahags-, viðskipta- og þjóðlífs. Kannski er þetta í þeim skilningi stærsta mál sem við höfum fengist við í samskiptum við aðrar þjóðir. Samningssviðin fjögur, hindrunarlaus viðskipti með vörur, þar með talið fiskafurðir, einn samfelldur fjármagnsmarkaður, einn samfelldur markaður með þjónustu og loks einn samræmdur búsetu- og atvinnumarkaður, þetta mun ekki aðeins þýða að við erum að taka á okkur einhverjar skuldbindingar. Þetta er ekki bara spurning um hvort við erum að tefla í tvísýnu eða stofna í hættu einhverjum réttindum sem
við höfum áunnið okkur. Við verðum að meta þetta allt saman í ljósi þess hverjar væru afleiðingarnar ef við létum þessa þróun mála í Evrópu fram hjá okkur fara, hverjar væru afleiðingarnar af því ef Ísland eitt Evrópuríkja einangraðist frá þessari þróun. Hverjar væru afleiðingarnar fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska fiskvinnslu og lífskjör þess fólks sem vinnur í þessum greinum ef markaðurinn sem nú tekur við 70% af okkar útflutningsafurðum á fiski yrði okkur lokaður, ef við hefðum ekki jafnan samkeppnisrétt á þessum mörkuðum á við samkeppnisþjóðir okkar? Menn verða að gera þetta upp við sig: Er þörf á því að efna til aukinnar samkeppni á fjármagnsmarkaðinum? Mundi íslenska bankakerfinu veita nokkuð af slíku aðhaldi? Er eitthvað að því að íslensk fyrirtæki, eða eins íslenskir ríkisborgarar, geti ávaxtað sitt fé á þessu fjármagnsmarkaðarsvæði á sömu kjörum og aðrir? Er eitthvað að því að íslenskir atvinnurekendur eigi rétt á því að fá áhættufé af hálfu erlendra aðila til þess að taka þátt í uppbyggingu íslenskra fyrirtækja? Það er nóg erlent lánsfé á Íslandi

og líka í íslenskum sjávarútvegi. Það er dýrt lánsfé og það er án áhættu fyrir lánardrottnana. En er nokkuð að því að við förum eins að þegar við byggjum upp fjölbreyttara atvinnulíf í okkar þjóðfélagi, eins og allar aðrar þjóðir hafa gert sem farið hafa þann feril, nefnilega að opna fyrir þátttöku erlends áhættufjármagns við uppbyggingu á atvinnurekstri? Hvað ætli unga fólkið á Íslandi segi um það? Gerir það ekki kröfu til þess að eiga áfram aðgang að menntastofnunum á grundvelli sömu réttinda og sömu kjara og aðrir Evrópubúar? Ætli ávinningur Íslendinga af þeim hundruðum áætlana sem uppi eru um samstarf þessara þjóða, í vísindum, í rannsóknum, hagnýtum rannsóknum fyrir atvinnulíf, í hátækni, skipti ekki máli fyrir íslenskt þjóðarbú?
    Þetta er stórt mál og ég vildi gjarnan mega láta í ljós þá ósk og þá von að um meginatriði þess og þær meginleiðir sem við höfum mótað gæti skapast sem mest og víðtækust samstaða á Alþingi Íslendinga. Við erum lítil þjóð og við eigum þarna meiri hagsmuna að gæta kannski en margar aðrar af því að utanríkisverslunin og utanríkisviðskiptin og markaðsmálin eru okkur miklu stærra mál en flestum öðrum þjóðum. Það er ekki ástæða til þess að mikla fyrir sér ágreininginn. Hann getur ekki snúist um það hvort við eigum að fara annaðhvort þessa leiðina eða hina leiðina. Menn hljóta að átta sig á því að í samningum á þessu samningssviði með EFTA-þjóðunum er leikið á geysilega víðu sviði. Í tvíhliða viðræðunum værum við auðvitað fyrst og fremst að ræða sérmál Íslands og sjávarútvegsmálefnin sérstaklega.
    Ég hef aldrei útilokað það að svo kynni að fara að upp kæmi sú staða að það ætti að láta reyna á þá leið og við höfum undirbúið það og erum í slíkum viðræðum þó að ég telji það ekki rétt á þessu stigi málsins.
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að aftur verði tækifæri til að ræða þessi þýðingarmiklu mál þegar skýrsla utanrrh. kemur til umræðu á Alþingi þannig að ég tek undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að það er ástæða til að ræða þessi mál ítarlega, vandlega og málefnalega. Ég vona að okkur takist að ljúka þessari umræðu nú en það verða ekki seinustu orðin sem um þessi mál verða sögð.