Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Í raun er afar erfitt að ræða þetta mál án þess að hæstv. landbrh. sé hér. Þegar ég var spurður að því fyrir helgina hvort ég mundi svara svona spurningu var hæstv. landbrh. ekki á landinu. En nú er hann kominn til landins og eðlilegra að beina spurningunum til hans. ( Gripið fram í: Hann er í húsinu.) Þá væri æskilegt að hann væri hér. Að vísu er erfitt að svara á svona stuttum tíma. En þetta mál er að sjálfsögðu á hans forræði.
    Hv. þm. rakti aðdraganda þeirra laga sem hér voru sett 14. des. Þar samþykkir Alþingi að veita sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs fyrir skuldbreytingu, allt að 60% af skuldum loðdýraræktarbús. Það er að vísu háð ýmsum skilyrðum. Það er háð því skilyrði að loðdýrabúskapurinn hafi hafist á árunum 1986--1989. Það er líka háð því skilyrði að eftir skuldbreytinguna fallist aðrir lánardrottnar á að lengja lán í átta ár. Það er einnig háð því skilyrði að Stofnlánadeild landbúnaðarins felli niður verðtryggingu og vexti og fresti greiðslum afborgana í fimm ár. Reglugerðin hefur verið gefin út og mér er tjáð að í Stofnlánadeildinni hafi verið fjallað um málið og þar muni ekki á því standa. Mér er hins vegar tjáð að það gangi afar erfiðlega að fullnægja því skilyrði að sýna fram á rekstrargrundvöll búanna. Það er ekki síst það sem hefur tafið framgang þessa máls. Því miður hefur afkoma loðdýrabúa síður en svo batnað.
    Hv. fyrirspyrjandi spurði síðan um fóðurstöðvar sem að sjálfsögðu hafa afar slæma rekstrarafkomu, ekki síst þegar loðdýrabúum hefur fækkað. Ég held ég fari rétt með að á Austfjörðum séu aðeins orðin eftir þrjú loðdýrabú og ég hygg að fóðurstöð verði varla með nokkru móti rekin til að sjá fyrir þremur búum. Víðar hefur fækkað þó það sé ekki mikið. Í Eyjafirðinum eru tvær fóðurstöðvar og ein á Sauðárkróki. Þær eru með öðrum orðum allt of margar.
    Byggðastofnun hefur fyrst og fremst aðstoðað fóðurstöðvarnar þótt einnig hafi komið aðstoð í gegnum Framleiðnisjóð óbeint með því að greiða niður fóðrið, eins og hv. þm. þekkja. En Byggðastofnun hefur veitt fóðurstöðvum lán. Ég ræddi við framkvæmdastjóra Byggðastofnunar að ósk hæstv. landbrh. Hann taldi að Byggðastofnun hefði ekki minnstu möguleika til að lána frekar til fóðurstöðvanna því þar væru engin veð, miklu meira veðsett en fóðurstöðvarnar sjálfar, einnig persónulegar eignir manna. Hefur þar verið haldið áfram uppteknum hætti og bankar hafa tekið veð í persónulegum eignum stjórnenda og mun það vera fullveðsett þannig að forstjóri Byggðastofnunar taldi eðlilega, ég tek það fram, að stofnunin hefði ekki fjármagn til að lána frekar.
    Ég lýsti þeirri skoðun þá að líklega væri skynsamlegast fyrir fóðurstöðvar að biðja um greiðslustöðvun á meðan þetta gengur yfir. Það er að vísu háð vissum erfiðleikum en líklega er það eina leiðin meðan svona er, á meðan verið er að ganga frá

skuldbreytingu hjá þeim bændum sem hafa rekstrargrundvöll. En mér er tjáð að ekki hafi verið vilji til þess.
    Hæstv. landbrh. er hér kominn og þó að hann muni ekki hafa mikinn tíma getur hann kannski bætt einhverju við. Þetta mál hefur því miður þróast á verri veg, ekki vegna þess að stjórnvöld hafi ekki í gegnum mánuðina og árin gert æðimargt, fyrst í stofnlánum o.s.frv. til að aðstoða loðdýraræktina, heldur vegna hins að verð á skinnum hefur stöðugt fallið, hefur hríðfallið. Um leið og menn hafa þóst sjá rekstrargrundvöll hefur hann brugðist vegna verðfalls á skinnum. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að vel kunni svo að fara að það verði meginverkefni stjórnvalda og Alþingis að koma í veg fyrir að menn missi sínar eignir og rati í þá mannlegu erfiðleika sem því fylgir á einn eða annan máta. Vonandi geta einhver bú haldið áfram rekstri þannig að ef bati verður í loðdýraframleiðslunni geti þetta vaxið hægt og þétt aftur. En ég óttast, og hef það frá þeim mönnum sem gerst þekkja, að sá bati sé síður en svo á næsta leiti og sumar spár um bata innan 2--3 ára eru taldar mjög vafasamar í dag, því miður.