Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Því miður var mér ekki kunnugt um þessa umræðu. Mér hafði ekki verið gert aðvart um að hún mundi fara fram og hef því ekki haft mikinn aðdraganda að því að stíga hér í ræðustól til að taka þátt í henni. Ég náði ekki heldur að heyra það sem málshefjandi hafði fram að færa og ekki nema að litlu leyti svar forsrh. En það sem ég vil segja á þessari stundu er að Framleiðnisjóði er, samkvæmt þeim lögum sem voru samþykkt á Alþingi fyrir áramót, falið að fara með þessa skuldbreytingu. Það hefur hann gert og ég leyfi mér að fullyrða að unnið hafi verið að því máli eins og kostur hefur verið og af eins mikilli alvöru og af þeim hraða sem við varð komið af þeirra hálfu. Ég hef fylgst með því og ég hef líka séð til þess að landbúnaðarnefndir Alþingis hafi fengið að fylgjast með því hvernig að því hafi verið staðið og m.a. hafa verið haldnir sérstakir fundir með landbúnaðarnefndunum í framhaldi af þessari lagasetningu og áður en reglugerð var sett. Ég hygg að ekki séu ýkjamörg fordæmi fyrir því að þó það mikið samráð sé haft við fagnefndir Alþingis um slíka hluti.
    Það hefur hins vegar legið fyrir að vandi fóðurstöðvanna er gríðarlegur og vaxandi með því að samdráttur er í greininni og minni fóðursala og minni tekjur á ferðinni. Alltaf var gert ráð fyrir því að skoða þyrfti stöðu þeirra þegar skuldbreytingamálin væru að komast á hreint og ljóst yrði hvernig rekstrarumfang fóðurstöðvanna í hverju byggðarlagi yrði í framhaldi af þeim aðgerðum. Þá vinnu þarf nú að fara í og gert hefur verið ráð fyrir því, samanber umræður á Alþingi og nál. landbn. Ed., að Byggðastofnun færi sérstaklega með það verkefni. Um það höfum við hæstv. forsrh. rætt við þá stofnun.
    Ég kannast að sjálfsögðu ekki við, enda ekki fótur fyrir slíku, að ákvarðanir hafi verið teknar um eitthvað annað en að keyra þessar
skuldbreytingaaðgerðir áfram. Ég veit ekki hvar það fólk hefur verið sem ekki kannast við að slíkir hlutir taka sinn tíma og við því er ekkert að segja. Þannig hlýtur það að verða þegar um viðamikil mál með mikilli upplýsingaöflun er fjallað. En auðvitað ber að reyna að hraða því sem mest. Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir því að á síðasta ári, árinu 1989, var um 160 millj. kr. á þáverandi verðlagi með einum eða öðrum hætti veitt beint í formi framlaga til loðdýraræktarinnar í landinu, um 160 millj. kr. Á þessu ári hafa þegar verið teknar ákvarðanir um áframhaldandi verulegar styrkveitingar við greinina. Það mun hins vegar ekki standa á mér, vilji hið háa Alþingi leggja þar enn meira af mörkum og fagna ég að sjálfsögðu liðsmönnum í því sambandi hvaðan sem þeir koma.