Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Það er einkennandi þegar menn hafa setið hér of lengi á þingi að þeir fara að rugla eins og hv. þm. Pálmi Jónsson gerði hér áðan, virðast hafa misst heyrn eða misskilja hvað sagt er. Ég sagði það eitt hér að ég ásakaði ekki hæstv. fjmrh. þó að það gerðist að mennirnir sem með klippurnar eru innheimti skuldir við ríkissjóð eftir almennri reglu. Ég nefndi aldrei landbrh. Ég tel að landbrh. verði að komast hér að niðurstöðu í því máli sem rætt var um. Það getur hann vel gert í samráði við forsrh. Það sem ég sagði, hættan er þessi að jafnvel í fyrramálið verði hvergi hægt að framleiða fóður í þau dýr sem til eru. Það er okkar skylda miðað við þá niðurstöðu sem við blasir að leysa vanda fóðurstöðvanna. Þetta tekur það langan tíma, þ.e. skuldbreytingin, að fóðurstöðvarnar eru í mikilli óvissu. Þess vegna sagði ég við hæstv. umhvrh.: Þér verð ég að fela málið þar sem þetta getur orðið umhverfismál í fyrramálið því að bændurnir eiga þá ekki annan kost en að slátra eða sleppa dýrunum út.