Húsaleigusamningar
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Flm. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsaleigusamninga, nr. 44 frá 1. júní 1979, með síðari breytingum.
    Með þeirri breytingu sem hér er mælt fyrir um er verið að taka á vandamáli sem því miður er allt of algengt og kemur upp við lok leigutíma atvinnuhúsnæðis. Þá vill það oft brenna við að eigandi atvinnuhúsnæðisins neiti að framlengja leigumálann og nýti sér síðan húsnæðið og eigni sér þá viðskiptavild sem leigutakinn hafði aflað sér með sinni starfsemi. 1. gr. frv. er á þessa leið:
    ,,Á eftir 8. gr. laganna komi ný grein svohljóðandi og greinatala breytist samkvæmt því:
    Leigusala atvinnuhúsnæðis er óheimilt að nýta húsnæðið til sams konar starfsemi og þar var stunduð ef telja má víst að leigutaki hafi með starfsemi sinni skapað hinu leigða viðskiptavild og leigusali hafi hafnað ósk leigutaka um framlengingu leigumálans eða gerð nýs leigumála.
    Ákvæði 1. mgr. gilda einnig ljúki leigumála með riftun af öðrum ástæðum en þeim sem greinir í 21. gr. Ef telja má að riftun skv. 21. gr. leiði til óeðlilegrar auðgunar leigusalans gilda ákvæði 1. mgr.``
    Í grg. með frv. segir m.a.:
    ,,Með frv. er lögð til sú breyting á lögum um húsaleigusamninga, nr. 44 frá 1979, að áunnin viðskiptavild leigutaka verði að loknum tímabundnum
leigusamningi um atvinnuhúsnæði metin sem lögvarin eign leigutakans. Með frv. er með öðrum orðum lagt til að eign geti talist annað en lausir og fastir munir.
    Á undanförnum árum hefur það aukist að fyrirtæki, sem eru í leiguhúsnæði, séu seld. Kemur þá oft upp vandamál milli seljandans og leigusalans þar sem hinn síðargreindi er í þeirri aðstöðu að neita að samþykkja kaupandann sem leigutaka og þannig koma í veg fyrir að fyrirtæki sé selt. Er þessi réttur sjálfsagður og í samræmi við þau grunnsjónarmið kröfuréttar að eigandi þurfi ekki að hlíta samningum sem aðrir gera um ráðstöfun á eign hans. Það vandamál, sem upp kemur, er það verðmæti sem er fólgið í rekstrinum sem oft og tíðum er meira en verðmæti eignarinnar sem slíkrar. Koma því upp hagsmunaárekstrar milli leigutakans og leigusalans. Húsaleigulögin meta hagsmuni leigutakans einskis.
    Með frv. þessu er ekki gengið svo langt að skerða rétt leigusalans til að neita aðilaskiptum á leiguhúsnæði, heldur er verið með frv. að verja leigutakann gagnvart því óréttlæti við lok leigutímans að leigusali geti hagnýtt sér þá viðskiptavild, sem leigutakinn hefur áunnið sér, með því að neita áframhaldandi leigu.
    Þó svo að í húsaleigulögunum sé ákvæði þess efnis að leigutakanum sé tryggður framleiguréttur gildir sá réttur ekki ef leigusalinn sjálfur ætlar að nýta sér húsnæðið til eigin þarfa. Frv. er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að leigusali geti skotið sér á bak við þetta ákvæði sjálfum sér til framdráttar.
    Gert er ráð fyrir því að ákvæðið gildi einnig ljúki

leigusamningi með riftun ef telja má að leigusali verði fyrir óeðlilegri auðgun vegna riftunarinnar. Er þar einkum átt við að leigusali selji eftir riftun leigusamnings öðrum aðila reksturinn og hagnist með þeim hætti á riftun leigusamnings.
    Aðaltilgangur flm. með frv. er að tryggja að eign leigutakans verði ekki fyrir borð borin við lok leigusamnings og einnig að koma í veg fyrir þann möguleika að leigusalinn geti hagnast á kostnað leigutakans með því að lýsa yfir ótímabærri riftun eða með neitun á framlengingu tímabundins leigusamnings.``
    Ég hef hér gert grein fyrir frv. og því sem fram kemur í grg. og vonast eftir því að frv., þegar það kemur til meðferðar hv. félmn., fái skjóta afgreiðslu og að það verði samþykkt á þessu þingi. Ég hef borið frv. undir nokkra aðila sem hafa hagsmuni af því að þetta nái fram að ganga og hafa þeir lýst sig mjög ánægða með þetta mál.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja það til að málinu verði vísað til hv. félmn. og síðan 2. umr.