Lögskráning sjómanna
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Flm. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 43 frá 30. mars 1987, um lögskráningu sjómanna. Ég er einn flutningsmaður að þessu frv.
    Í greinargerð með frv. segir svo m.a.: ,,Á síðari árum hefur fiskibátum, 12 rúmlestir brúttó og minni, fjölgað mjög í skipastól Íslendinga og aflahlutdeild þeirra vaxið að sama skapi. Hins vegar skortir mjög á að þeir fjölmörgu sjómenn, sem róa á þessum bátum, njóti réttinda eða sinni skyldum til jafns á við starfsbræður sína á stærri skipum.`` --- En frv. þessu er einmitt ætlað að koma því til leiðar að heimilað verði að lögskrá skipverja á bátum undir 12 tonnum en það er ekki heimilt í dag. Það fer eftir ákvörðun lögskráningarstjóra hvort lögskrá skuli eða ekki.
    ,,Þrátt fyrir stórbættan aðbúnað og öryggisbúnað, sem fylgt hefur framþróun og nýsmíði í þessum flokki fiskibáta, hefur félagsleg réttarstaða þeirra sjómanna, sem á þeim róa, dregist aftur úr, m.a. vegna þess að lögskráningarstjórar hafa ekki talið sér skylt að verða við ósk um lögskráningu þeirra.
    Frv. þetta er lagt fram til þess að útgerð eða skipstjórar á minni bátum en 12 rúmlestir eignist ótvíræðan rétt til lögskráningar. Þeir sem nýta réttinn til lögskráningar stofna þannig gagnkvæmt aðhald milli útgerðar og sjómanna og gildir þá einu þótt útgerðarmaður og skipstjóri sé einn og sami aðilinn því að skyldur og réttindi, sem lögskráning kemur á, koma honum og hans nánustu engu síður að gagni en öðrum í áhöfn hans.
    Ávinningur þess að lögskráning fáist á þessa báta felst í auknu eftirliti, m.a. með því að:
    a. smábátar fari ekki á sjó öðruvísi en með fullgild haffærisskírteini,
    b. betur verði tryggt að allir stjórnendur smábáta verði með tilskilin réttindi,
    c. lögskyldar tryggingar liggi fyrir,
    d. vitneskja um áhafnir verði ætíð í höndum lögskráningarstjóra ef slys ber að höndum,
    e. samningsréttur sjómanna verði betur tryggður,
    f. sjómenn njóti mánaðarlega sjómannafrádráttar við staðgreiðslu skatta.
    Með frv. þessu er séð til þess að verði breytingar á öðrum lögum, svo sem um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, lögum er kveða á um haffærisskírteini og öðrum þeim lögum er varða réttindi og skyldur í útgerð smábáta, raskist ekki fyrirhugaður réttur til lögskráningar áhafna á smábátum.
    Ókostir þessara lögskráninga eru þeir helstir að:
    a. óregluleg mannaskipti eru nokkur á smábátum,
    b. strangt eftirlit með að útgerð og áhafnir uppfylli réttindi og skyldur kann að leiða til þess að réttmæt lögskráning dragist gegn vilja áhafnarinnar,
    c. eftirlitsskyldan vaxi fyrr en varir lögskráningarstjórum yfir höfuð.
    Á móti vega þær staðreyndir að lagt er til að þessar lögskráningar séu einungis heimilar en ekki

lögskyldar og því er ljóst að töluverður hluti
smábátaflotans mun eftirleiðis sem hingað til vera utan lögskráningar, fyrst og fremst bátar þeirra sem sækja sjóinn í frístundum og sér til skemmtunar á góðviðrisdögum.
    Loks skal á það bent að í núgildandi lögum eru lagðar nokkrar skyldur á útgerðarmenn eða forsvarsmenn útgerða til að annast lögskráningu, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um lögskráningu sjómanna, og verður svo áfram þrátt fyrir breytingar á lögunum samkvæmt þessu frv. Í refsiákvæðum laganna er hins vegar ekki gert ráð fyrir ábyrgð þeirra til að sæta sérstakri refsingu séu þeir sannanlega og ítrekað ábyrgir fyrir vanefndum á skráningarskyldu eins og stefnt er gegn skipstjórum í 2. málsl. 17. gr. frv.``
    Ég hef hér gert nokkra grein fyrir inntaki frv. En varðandi einstakar greinar segir m.a. í athugasemdum með 1. gr.: ,,Með ákvæði greinarinnar eru tekin af öll tvímæli um rétt skipstjóra eða útgerðar minni báta en 12 rúmlestir brúttó að fá lögskráningu.``
    Varðandi 2. gr. frv. segir: ,,Í 7. gr. gildandi laga eru talin upp í sex töluliðum þau atriði sem uppfylla ber til þess að lögskráning fáist. Í ýmsum lögum og reglum eru nú veittar heimildir til frávika frá þessum skilyrðum að hluta til eða að öllu leyti fyrir smábáta og verður því að taka tillit til þess svo að þau hindri ekki að lögskráning á þá nái fram að ganga.
    Með b-lið greinarinnar er áréttað enn frekar að lögskráningarstjóra beri að taka fullt tillit til þeirra frávika sem önnur lög eða reglur veita smábátum gagnvart þeim skilyrðum sem sett eru fyrir lögskráningu.``
    Í 3. gr. er verið að breyta 17. gr. laganna um ábyrgð verði trassað að lögskrá. 4. gr. þarf ekki skýringa við.
    Ég hef farið yfir þetta frv. og fjallað nokkuð rækilega um greinargerðina og á hvaða grunni þetta frv. er byggt og fært fyrir því rök bæði með og á móti að
megininntakið, sem er heimildarákvæði um lögskráningu báta undir 12 rúmlestum, verði að lögum.
    Að lokinni þeirri umræðu sem vonandi fer fram, eða a.m.k. þeirri umræðu sem ég hef haldið hér uppi, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn. Ég tel að þetta eigi að fara til samgn. og leiðréttir forseti mig ef ég hef þar á röngu að standa.