Lögskráning sjómanna
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég hélt að það kæmi engum hv. alþm. á óvart að umræður urðu hér nokkrar, líklega fyrir þrem, fjórum, fimm árum eða svo einmitt varðandi lögskráningarmálin. Þetta hefur farið í gegnum sjómannasamtökin og forustumenn þeirra og þeir hafa sjálfir talið að þarna væri ýmislegt sem þyrfti að bæta um. Hér eru ekki neinar sérstakar ásakanir á útvegsmenn. Ég hygg að bæði sjómenn og útvegsmenn eigi að fylgjast með því hvort þessum tryggingum er fylgt, hvort lögskráning á sér stað. Það er ekki síður einstaklinganna sjálfra sem þurfa að sækja sinn rétt að ganga úr skugga um það að lögum sé framfylgt. Það er ekki bara einhliða. Það þurfa menn að hafa í huga. Þannig að ég er ekkert að ásaka sérstaklega útvegsmenn gagnvart þessu. Ég veit ekki heldur hvort þetta er breytilegt milli lögsagnarumdæma í þessum tilvikum, en það kann að vera að það sé mjög breytilegt. Um það vil ég ekki fullyrða en bendi hins vegar á þetta.
    Varðandi frv. sem slíkt og þá einstaklinga sem kynnu að falla undir þá löggjöf. Nú veit ég ekki betur en að þeir einstaklingar borgi tryggingar á þessum bátum til þess að tryggja sig, ég kann þetta ekki nógu vel, þori ekki að fara í rökræður við hv. þm. sem er lögfræðingur að mennt og ætti að vita þetta. En ég hygg þó að menn kaupi sér tryggingu á þessum fleytum hvort sem það er nægjanlegt til þess að bera það uppi sem það á að gera og hvort frv. sem slíkt kann að bæta þar við skal ég ekkert um segja. En eigi að síður held ég að þetta sé rétt hjá mér að þarna sé um tryggingar að ræða.
    Ég vildi sem sagt koma því á framfæri að ég er ekki að ásaka útvegsmenn sérstaklega í þessum efnum. Svo kann að vera að einhverjir þeirra séu með því marki brenndir, en ég tel líka að sjómenn eigi sjálfir að huga að sínum málum og ganga úr skugga um það hvort fullnægt er þeim tryggingum sem lög gera ráð fyrir að eigi að vernda þá.