Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 668 en það er nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Það er skemmst frá því að segja að nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. og kem ég að því nokkru síðar. Meiri hl. skipa auk mín hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, Matthías Bjarnason og Guðmundur G. Þórarinsson. Áður en ég lýsi frekar afstöðu meiri hl. vil ég ræða örlítið um fyrirliggjandi frv.
    Hér er á ferðinni stjfrv. um breytta skipan á eldislánum. Núgildandi lög gera ráð fyrir að Tryggingasjóður fiskeldislána sem er í vörslu Stofnlánadeildar landbúnaðarins veiti greiðslutryggingar fyrir afurðalánum sem lánastofnanir veita. Greiðslutryggingar Tryggingasjóðs fiskeldislána fela í sér einfalda ríkisábyrgð. Í lögunum um hann er ákvæði um að ekki skuli gripið til greiðslutryggingar nema tjónabætur dugi ekki til greiðslu á láni og fyrirtæki geti ekki greitt það með öðrum hætti. Þetta þýðir í raun að greiðsluábyrgð kemur ekki til fyrr en eftir að viðkomandi fyrirtæki hefur verið sett í gjaldþrot.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir iðgjaldi fyrir veitingu ábyrgða og svokallaðri ábyrgð eftirlifenda, en það felur í sér að verði halli á sjóðnum eftir fjögur ár skuli hann, a.m.k. að hluta, greiddur af þeim fyrirtækjum sem þá verða starfandi í fiskeldi.
    Fiskeldismenn hafa kvartað mikið undan þeim kostnaði að taka þátt í þessum sjóði og telja sig greiða allt að 30% ofan á dollar. Þeir benda á að ábyrgðin er kollektív eða sameiginleg og enn fremur að Framkvæmdasjóði var skotið á milli Tryggingasjóðs og bankanna en Framkvæmdasjóður útvegar eða sér um sjálfskuldarábyrgðina og kostnaður við þetta er 25% ofan á það sem áður hefur verið nefnt. Mikil óánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag meðal fiskeldisfyrirtækja og þess vegna hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram þetta frv. um ábyrgðadeild fiskeldis. Helstu breytingar sem lagt er til að gerðar verði samkvæmt þessu stjfrv. eru:
    1. Hin nýja ábyrgðadeild veitir sjálfskuldarábyrgðir ríkissjóðs fyrir hluta af verðmæti eldisstofns til viðbótar við lán banka, en Tryggingasjóður fiskeldislána veitti aðeins einfalda ríkisábyrgð.
    2. Horfið er frá því skilyrði að fyrirtækin hafi samningsbundin viðskipti við banka fyrir ákveðinn hluta af verðmæti eldisstofnsins. Í stað þess kemur hið almenna skilyrði að um samningsbundin viðskipti sé að ræða.
    3. Gert er ráð fyrir svokölluðu sólarlagsákvæði þannig að ríkisábyrgð fyrir lánum hvers fyrirtækis hverfur á nokkrum árum.
    4. Ábyrgð eftirlifenda fellur niður.
    5. Í samræmi við það að hér er verið að veita beinar sjálfskuldarábyrgðir ríkissjóðs fyrir lánum er deildin vistuð í Ríkisábyrgðasjóði undir forræði hæstv.

fjmrh. Tryggingasjóður fiskeldislána verður því lagður niður.
    Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir nokkrum tillögum sem nefndarmeirihlutinn flytur en þær tillögur er að finna á þskj. 669. Þar er í fyrsta lagi lagt til að hin nýja ábyrgðadeild hafi heimild til að veita 50% ábyrgð í stað 37,5% ábyrgð eins og er í frv. Þessi tillaga er byggð á reynslu af viðskiptum banka og fiskeldisfyrirtækja á undanförnum missirum. Komi til þess að bankar dragi úr sínum lánum eða krefjist mjög aukinna trygginga gæti svo farið að eldislán lækkuðu mjög og eldisfyrirtækin stæðu verr eftir samþykkt frv. en áður. Með brtt. er komist nær því að tryggja eldisfyrirtækjum sambærilegt afurðalán og gerast í helstu samkeppnislöndunum.
    Þá er álitið nauðsynlegt samkvæmt næstu brtt. að telja það vera hlutverk sjóðsins að veita hafbeitarfyrirtækjum eldislánaábyrgð fremur en heimild sé aðeins til slíks og verður þá notað sama orðalag um hafbeitarfyrirtækin og er í frv. um fiskeldisfyrirtæki.
    Ein brtt. gerði ráð fyrir breytingu við 3. gr. frv. Það er í fyrsta lagi breyting sem fylgir fyrri breytingu, að færa prósentuna úr 37,5% í 50%. Síðan er lagt til að sólarlagsákvæðið lengist um eitt ár og verði fjögur ár í stað þriggja. Þessi tillaga byggir á því að unnt verði á ábyrgðartímanum að ljúka eldisferli og framleiða stærri lax, þ.e. 4--6 kg lax en það mundi auka mjög á hagkvæmni eldisstöðvanna. Í þessu sambandi er rétt að ítreka að hér er aðeins um tímabundna aðstoð að ræða.
    Samkvæmt tillögum meiri hl. er gert ráð fyrir því að hugtakið tryggingar breytist í vátryggingar og telja flm. þessarar tillögu að hér sé verið að nota víðtækara hugtak en er í frv. Þá er gert ráð fyrir breytingum á 6. gr. en þar er lagt til að 2. málsl. greinarinnar falli brott. Það skal tekið fram að fjmrh. og sjóðsstjórn ákveða iðgjöldin. Lagagrein um að deildin skuli rekin hallalaus setur þá ábyrgð á sjóðsstjórn að leggja til nógu há iðgjöld. Ef litið er til reynslu Tryggingasjóðs fiskeldislána var auk 7% iðgjalds 7% áhættugjald eða 14% gjald í heild. Iðgjaldsupphæðin er þá ákveðin að hluta með líkindareikningi og öryggisstuðli þannig að ekki komi til halli á rekstri
sjóðsins. Líkur benda sterklega til að þetta ákvæði leiði til þess að iðgjöld hækki meira en þörf er á ella og það geti komið sér illa í byrjun hjá þessari atvinnugrein sem er nú í þröngri stöðu.
    Að lokum er um að ræða brtt. við 8. gr. Þar er lagt til að hin nýja ábyrgðadeild taki við ábyrgðum Framkvæmdasjóðs. Nú eru mál þannig, eins og áður hefur verið sagt frá, að Tryggingasjóður fiskeldislána veitir einfalda ábyrgð en Framkvæmdasjóður veitir sjálfskuldarábyrgð með bakábyrgð Tryggingasjóðs. Samkvæmt frv. tekur ábyrgðadeildin við hlutverki Tryggingasjóðs fiskeldislána, þ.e. heldur ábyrgðinni gagnvart Framkvæmdasjóði. Að áliti meiri hl. er það eðlilegra að nýja ábyrgðadeildin taki við málinu í heild og millibilshlutverki Framkvæmdasjóðs í þessu máli ljúki.

    Hæstv. fjmrh. og nokkrir hv. stjórnarþingmenn hafa ráðist að meiri hl. fjh.- og viðskn. að undanförnu. Hæstv. ráðherra sagði orðrétt sl. föstudag í viðtali við DV, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. og Guðmundur G. Þórarinsson eru með þessu að rífa upp öll öryggismörk og stórauka ríkisforsjána og búa til opinn ábyrgðartékka gagnvart fiskeldinu. Með því flytja þeir yfir á ríkissjóð og skattborgarana hluta af tapi fiskeldisins.``
    Í tilefni þessara ummæla hæstv. ráðherra skiptir miklu máli að menn átti sig á því að það stjfrv. sem hér er til umræðu er frv. til heimildarlaga. Hæstv. fjmrh. skipar samkvæmt frv. þriggja manna stjórnarnefnd sem afgreiðir umsagnir fyrirtækja. Í 5. gr. er um þetta fjallað en þar segir orðrétt:
    ,,Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um sjálfskuldarábyrgðir samkvæmt lögum þessum, og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis. Fyrirtæki koma því aðeins til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra til lengri tíma litið. Stjórnarnefndin skal samþykkja kjör og form lána sem sjálfskuldarábyrgð er veitt fyrir.``
    Í 6. gr. segir að hæstv. fjmrh. skuli að fengnum tillögum stjórnarnefndar ákveða þau iðgjöld sem greidd skulu vera fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgðar. Í grg. með stjfrv. er réttilega bent á að stjórnarnefndin, sem er skipuð þremur mönnum sem hæstv. fjmrh. velur, hefur miklu hlutverki að gegna. Á bls. 4 í grg. segir orðrétt:
    ,,Mikilvægt er að sú regla myndist strax í upphafi að ákvörðunum hennar verði ekki hnekkt af ráðherra eða ríkisstjórn. Með þessu móti er dregið úr áhættu ríkissjóðs.``
    Af þessu sem ég nú hef lesið má ráða að þetta stjfrv. til tímabundinna laga er þannig úr garði gert að fulltrúar hæstv. fjmrh. hafa veruleg tök --- ég segi nánast öll tök á því að lágmarka áhættu ríkissjóðs. Í ljósi þess verða ávirðingar hæstv. ráðherra í garð meiri hl. hv. nefndar torskildar. Ég vona að hv. þm. hafi kynnt sér efni frv. því að þá munu þeir fljótlega átta sig á því að það er í valdi þriggja manna, sem hæstv. fjmrh. skipar, að velja þá sem njóta eiga þeirra heimilda sem lögin geta um.
    Virðulegur forseti. Fyrrv. landbrh., hv. þm. Jón Helgason, skipaði á árinu 1988 nefnd til að gera athugun á starfsskilyrðum fiskeldis á Íslandi. Í áfangaskýrslu nefndarinnar sem birt hefur verið er m.a. fjallað um fyrirkomulag þessarar greinar í öðrum löndum. Í skýrslunni eru borin saman skilyrði fjármögnunar til stofnframkvæmda í fiskeldi á Íslandi við nokkur samanburðarlönd og þar kemur fram m.a. eftirfarandi:
    1. Samanburðarlöndin, önnur en Færeyjar, veita verulega styrki til stofnframkvæmda eða 25--30% en á Íslandi fást engir styrkir. Það má kannski geta þess jafnframt að það er talið að í Færeyjum geti fyrirtæki fengið styrki úr öðrum sjóðum en nefndin, sem að þessu starfaði, vissi um á þeim tíma.
    2. Til að fyrirtæki fái stofnlán er krafa um eigið

fjármagn að lágmarki 33% á Íslandi en getur verið verulega lægri í samanburðarlöndunum eða frá 20% og allt niður í 5%.
    3. Stofnlán og styrkir í samanburðarlöndunum geta numið allt að 80--95%. Þetta fæst með því að þegar löndin leggja fram ákveðið fjármagn kemur Evrópubandalagið til skjalanna og leggur fram jafnháan styrk á móti. Á Íslandi nemur lánsfé 67% til stofnframkvæmda.
    4. Það er mikilvægt að átta sig á því að okkar næstu nágrannar í Skotlandi fara þannig að að rekstrarkostnaður fram að fyrstu tekjum er að jafnaði talinn til stofnkostnaðar en það er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt.
    5. Í sumum samanburðarlöndunum er hluti stofnlána með niðurgreiddum vöxtum og á Írlandi að hluta vaxtalaus. Á Íslandi gilda markaðsvextir. Á þessu sést að aðstaða til uppbyggingar fiskeldis verður að teljast mun betri í samanburðarlöndunum vegna styrkja, hærra lánshlutfalls, niðurgreiddra vaxta og lægri eiginfjárkröfu en á Íslandi.
    Sé litið til rekstrarlánanna fá fiskeldisfyrirtækin í samanburðarlöndunum yfirleitt lán til fjármögnunar allt að 100% rekstrarkostnaðar. Í Noregi er veitt ríkisábyrgð fyrir rekstrarlánum sem mun nú að jafnaði vera um 45%, til skamms tíma allt að 50% og þar áður allt að 100%. Í Skotlandi er
rekstrarkostnaðurinn fram að fyrstu tekjum skilgreindur sem stofnkostnaður, eins og ég sagði áður, og lánað til hans til langs tíma. Samkvæmt skýrslu OECD um fiskeldi, sem gefin var út árið 1988, eru styrkir til fjárfestingar og rekstrar veittir í allríkum mæli til fiskeldis í löndum innan samtakanna. Rekstur fiskeldisfyrirtækja verður að teljast mun auðveldari í samanburðarlöndunum þar eð fiskeldisstöðvar eiga kost á lánum fyrir öllum rekstrarkostnaði, sums staðar með ríkisábyrgð á rekstrarlánum.
    Þegar nefnd fyrrv. landbrh. dró saman þær aðferðir sem til greina kæmu til að bæta skilyrði greinarinnar var m.a. bent á ríkisábyrgð á hliðstæðan hátt og í Noregi. Ríkisábyrgðirnar þar mega nú vera hæst 50% af rekstrarlánum, ábyrgðargjaldið er 1% og að sögn framkvæmdastjóra samtaka norskra fiskeldismanna hefur byggðastofnunin í Noregi ekki tapað á ábyrgðum á fiskeldi fram til þessa. Þess skal getið að þessi skýrsla er skrifuð 1988 og ég hef ekki nýrri upplýsingar um þetta mál þaðan.
    Eins og allir vita er fiskeldi ung grein hér á landi sem átt hefur í miklum erfiðleikum. Ýmislegt hefur farið úrskeiðis á bernskuskeiði þessarar greinar. Rannsóknum hefur verið ábótavant áður en ráðist var í framkvæmdir. Stundum hafa ferðir hafist án fyrirheits, t.d. þegar seiðasala brást og ákveðið var að nota seiðin til framleiðslu á matfiski. Með því stjfrv. sem hér er til umræðu er gerð tillaga til tímabundinna ráðstafana til að koma greininni yfir þröskuldinn ef svo má að orði komast. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort grípa eigi til ríkisábyrgðar og flestum er ljóst að ríkisábyrgð á ekki að vera aðalregla þegar um lánafyrirgreiðslu er að ræða til atvinnugreina. Hæstv.

ríkisstjórn hefur hins vegar valið þá leið enda er hún þekkt í öðrum löndum á þessu sviði. Það er álit hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. að fyrst hæstv. ríkisstjórn valdi þessa leið sé eðlilegt að það sé gert með þeim hætti að sem mestur árangur náist. Ég minni jafnframt á það að þessi lög falla úr gildi árið 1999 og þarf þá að sjálfsögðu að vera búið að leysa rekstrarfjármögnunarvanda greinarinnar til frambúðar.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, ítreka nokkur atriði sem fram hafa komið áður.
    1. Lög þessi eru heimildarlög.
    2. Hæstv. fjmrh. skipar þriggja manna stjórnarnefnd sem hefur víðtækt vald til að velja þau fyrirtæki sem koma til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða.
    3. Hæstv. ráðherra ákveður iðgjald að fengnum tillögum frá stjórnarnefndinni.
    Af þessu sést að þau rök sem fram hafa komið frá hæstv. ráðherra, og ýmsir hv. ríkisstjórnarstyðjendur hér á hv. Alþingi hafa tekið undir með ráðherra, eru villandi og það er í meira lagi á misskilningi byggt að halda því fram að þeir sem vilja laga þetta frv., þannig að það geti komið að gagni og ekki sé komið í veg fyrir það, séu á villigötum og séu meiri ríkisábyrgðarmenn en aðrir. Staðreynd málsins er sú að hæstv. ríkisstjórn með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar reið á vaðið vegna þess að hann vildi, að maður skyldi ætla, skapa þessari nýju grein sams konar starfsskilyrði og henni eru sköpuð í nágrannalöndunum. Það sem meiri hl. nefndarinnar hefur gert er að laga þessi ákvæði, auðvitað og ekki síst í trausti þess að hæstv. ráðherra velji sem stjórnarnefndarmenn í þessari nýju deild þá aðila sem gerst þekkja þessi mál og geta lágmarkað áhættu ríkissjóðs en jafnframt komið í veg fyrir að lagaákvæðin verði til þess að fyrirtæki í greininni, sem eiga von í framtíðinni til þess að geta spjarað sig og gefið okkur gjaldeyristekjur, þurfi að líða fyrir galla í lagasetningunni.
    Að endingu, virðulegur forseti, er rétt að leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt að þetta lagafrv. fái sem fyrst afgreiðslu, enda bíða fjölmörg fyrirtæki eftir því að hv. Alþingi afgreiði þessi lög, og þannig verði fiskeldisfyrirtækjum búin þau starfsskilyrði sem við helst viljum.