Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þær brtt. sem Sjálfstfl. hefur haft forgöngu um að flytja við þetta frv. varpa nokkuð skýru ljósi á raunverulega afstöðu þess flokks til fjögurra höfuðmála sem hafa verið til umfjöllunar á Alþingi í vetur og undanfarin ár. Þessi fjögur höfuðmál eru öll grundvallaratriði í nútímaefnahagslífi og ríkisfjármálum. Það er mjög merkilegt að þær brtt. sem fulltrúi Sjálfstfl. mælti hér fyrir og hefur stuðning við frá þingmönnum annarra flokka, ganga þvert á þá grundvallarstefnu sem talsmenn Sjálfstfl., og reyndar ýmsir aðrir sem þessar brtt. flytja, hafa sagst styðja hér í sölum Alþingis í vetur og fyrri ár.
    Hverjar eru þessar fjórar höfuðstefnur sem menn hafa flutt um margar ræður hér á Alþingi? Þær eru í fyrsta lagi sú stefna að draga úr ríkisforsjá í atvinnulífi. Víkja af þeirri braut að illa rekin fyrirtæki eða eigendur fyrirtækja sem gera rekstrarleg mistök og fjárfestingarleg mistök sem þeir bera sjálfir ábyrgð á geti flutt hluta af þeirri ábyrgð og kostnaðinn af mistökum sínum yfir á almenning í landinu. Þessi gamla stefna hefur stundum hlotið nafnið pilsfaldakapítalismi og felur í sér að þegar tapið verður geti eigendur fyrirtækjanna hlaupið undir pilsfald ríkisvaldsins og látið almenning í landinu, skattborgarana, greiða kostnaðinn af tapi fyrirtækjanna. Og það er athyglisvert að þeir fulltrúar Sjálfstfl. sem nú gerast talsmenn aukinnar ríkisforsjár og aukins pilsfaldakapítalisma af þessu tagi í íslensku efnahagslífi eru jafnframt hér á Alþingi að reyna að slá sig til riddara vegna þess að þeir vilja að skattarnir séu lækkaðir og almenningur í landinu eigi að borga minna.
    Í öðru lagi er sú stefna að draga úr ríkisábyrgðum í atvinnulífinu. Stuðla að þróun nútímaatvinnulífs þar sem fyrirtækin sjálf, eigendur þeirra og rekstraraðilar, bera ábyrgð á rekstrinum en geti ekki skákað í því skjólinu að ríkissjóður, þ.e. almennir skattborgarar, beri í reynd ábyrgðina.
    Við höfum séð ýmis hagkerfi í austurhluta Evrópu hrynja vegna þess að þar var kerfi ríkisábyrgðanna útfært með svo afgerandi hætti að það náði nánast til allra sviða efnahagslífsins. Með brtt. sem Sjálfstfl. og nokkrir aðrir þingmenn flytja hér er verið að leggja það til að halda í auknum mæli út á braut ríkisábyrgða í atvinnulífi á Íslandi og gera það með þeim hætti að það sé nokkurn veginn alveg öruggt að verulegur hluti þess taps sem verður vegna ríkisábyrgðanna verði flutt yfir á skattborgarana í landinu. Það er satt að segja dálítið sérkennilegt að á þeim tímum sem maður hélt að hér væri að myndast meiri hluti á Alþingi um að draga úr ríkisábyrgðum, að feta okkur skref fyrir skref frá þeirri stefnu og efla hér atvinnulíf þar sem rekstrareiningarnar stæðu á eigin fótum, þá skuli myndast í fjh.- og viðskn. meiri hl. fyrir þeirri fornu stefnu, þeirri úreltu stefnu að auka ríkisábyrgðirnar.
    Þriðja meginatriðið í nútímaefnahagslífi, sem rætt hefur verið um á undanförnum árum og maður hélt að

væri vaxandi stuðningur fyrir, er að viðskiptabankar og fjármálastofnanir á hinum almenna peningamarkaði eigi að annast eðlilega lánafyrirgreiðslu í þágu atvinnulífsins en ríkissjóður eigi ekki að vera eins konar viðskiptabanki atvinnufyrirtækjanna. Sumir, og jafnvel forsvarsmenn Sjálfstfl., ganga svo langt á hátíðastundum að segja að þeir vilji fylgja þessari stefnu eftir með svo afgerandi hætti að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög þannig að ríkið verði hvergi rekstraraðili í bankakerfinu. Með þeim tillögum sem hér hefur verið mælt fyrir er verið að ganga þvert á þessa stefnu og leggja til að ríkissjóður taki að sér þann hluta lánafyrirgreiðslu við fiskeldið sem eðlilega væri til kominn hjá viðskiptabönkunum og minnka þar með hlut viðskiptabankanna í eðlilegri rekstrarlegri lánafyrirgreiðslu til fiskeldisfyrirtækjanna. Og það er satt að segja mjög sérkennilegt að þurfa að standa í dag í þeim sporum að mæla gegn tillögu frá Sjálfstfl. og nokkrum öðrum þingmönnum og vara við því að Alþingi haldi inn á þá braut að gera ríkissjóð að eins konar viðskiptabanka fiskeldisfyrirtækjanna.
    Í fjórða lagi hefur verið vaxandi stuðningur fyrir því hér á Alþingi að ekki væru veittar opnar greiðsluheimildir fyrir ríkissjóð og fer nú fram í þessari hv. deild umræða um frv. allra þingmanna í fjvn. þar sem festa á í lög að ekki megi greiða úr ríkissjóði né skuldbinda ríkissjóð með neinum hætti án þess að til komi formleg afgreiðsla Alþingis á þeim upphæðum sem þar er um að ræða. Í þeim brtt. sem Sjálfstfl. ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, leggur hér til, er hins vegar gengið þvert á þessa stefnu. Í þessum brtt. er lagt til að veita opnar greiðsluheimildir, greiðslukvaðir á ríkissjóð og þar með skrifa opinn tékka á ríkissjóðinn sem fylla ætti síðan út í fjárhagsárum þessa áratugar án þess að nokkur viti hvaða upphæðir standi á þeim tékka. Og mér finnst satt að segja sérkennilegt að hafa staðið hér í síðustu viku og hlustað á ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar þar sem hann leggur höfuðáherslu á það hve brýn nauðsyn sé að samþykkja þetta frv. fjvn., og ég tók undir þau grundvallarviðhorf sem þar
komu fram, og standa svo hér í dag og þurfa að benda á það að í þeim brtt. sem Sjálfstfl. hefur hér flutt, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, er einmitt verið að leggja til að samþykktar verði slíkar opnar greiðsluheimildir án upphæða inn í framtíðina. Það er þess vegna alveg ljóst að þær brtt. sem hér var mælt fyrir af hv. þm. Friðriki Sophussyni ganga þvert á þessi fjögur grundvallaratriði í nútímaþróun viðskiptalífs og efnahagsmála. Þær fela í sér aukna ríkisforsjá, þær fela í sér auknar ríkisábyrgðir, þær fela í sér að ríkissjóður er látinn taka við hlutverki viðskiptabanka og þær fela í fjórða lagi í sér að í stað þess að engar greiðslur séu veittar úr ríkissjóði nema upphæðirnar séu ákveðnar fyrir fram sé verið að opna tékkhefti án upphæða fyrir ríkissjóð á næstu árum og skuldbinda hann til að greiða þar úr án þess að nokkur viti í dag hvaða upphæðir eiga að standa á þessum tékkum.
    Það er alveg rétt að fiskeldið á Íslandi á í miklum

erfiðleikum. Þeir erfiðleikar stafa annars vegar af því að fjölmargir sem þar hafa ráðist í framkvæmdir hafa reynst fylgja frekar kappi en forsjá og þeir erfiðleikar stafa af því að vonir manna um söluverðmæti og erlendan markað fyrir þessa vöru hafa ekki reynst réttar. Auðvitað er það þannig að í okkar þjóðfélagi hljótum við í nútíð og framtíð að byggja á margvíslegum áhættuatvinnugreinum þar sem vinningurinn er óviss og einstaklingarnir og hlutafélögin sem stofnuð eru um þennan rekstur verða sjálfir að taka áhættuna. Nú á hins vegar að fara að festa hér í sessi kerfi þar sem ríkissjóður, þar með talið skattborgararnir í landinu, eiga að taka að sér stóran hluta þessarar áhættu og flytja þannig
yfir á almenna skattborgara hluta af því tapi sem kann að verða af þessum tveimur ástæðum. Og ég spyr: Er það rétt stefna á hv. Alþingi að gefa einstaklingum í rekstri og fyrirtækjum í landinu og þeim sem kunna að fara inn í rekstur á næstu árum það til kynna að þeir geti nokkurn veginn leyft sér að taka þá áhættu sem þeim sýnist vegna þess að það verði alltaf á Alþingi einhver þingmeirihluti sem hleypur undir bagga og flytur tapið yfir á skattborgarana í landinu? Ég hélt satt að segja að slíkur boðskapur úr sölum Alþingis gengi þvert á þá nútímaþróun sem við viljum fylgja í efnahagsstefnu hér á Íslandi.
    Fyrir rúmu ári síðan var samþykkt hér á Alþingi frv. um Tryggingasjóð fiskeldislána. Það frv. var ákveðinn liður í því að reyna að stuðla að því að fiskeldið gæti komist yfir þann erfiða hjalla sem þá blasti við. En það var grundvallaratriði í þeirri löggjöf, og ég rifja það upp hér vegna þess að mér sýnist sumir ræðumenn hér í dag hafa gleymt því atriði, það var grundvallaratriði í þeirri löggjöf að fiskeldisfyrirtækin sjálf tóku á sig meginábyrgðina af framtíðarstöðu sjóðsins með því ákvæði að þau fyrirtæki sem störfuðu áfram í gegnum iðgjaldagreiðslur tækju á sig það tap sem sjóðurinn kynni að verða fyrir. Þannig var búin til heildarábyrgð fyrirtækjanna í fiskeldinu hvers gagnvart öðru, en almenningur í landinu í gegnum ríkissjóð ekki látinn koma inn sem ábyrgðaraðili. Þetta var auðvitað lykilatriðið í því að margir treystu sér til þess að samþykkja þetta frv. vegna þess að það gekk ekki þvert á þau grundvallaratriði sem ég hef verið að lýsa. Og forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækjanna lýstu því yfir þá að þeir teldu þetta mikinn áfanga og væru sammála þeirri stefnu að fiskeldisfyrirtækin tækju að sér í heild sinni þessa ábyrgð. Ábyrgð ríkissjóðs kom því aðeins til greina að fiskeldið allt sem heildaratvinnugrein biði skipbrot. En það var ekki ábyrgð gagnvart einstökum fyrirtækjum hverju fyrir sig.
    Á seinni hluta síðasta árs komu hins vegar upp þau sjónarmið af hálfu forsvarsmanna fiskeldisins að nauðsynlegt væri að breyta þessu skipulagi til þess að auðvelda þeim fyrirtækjum sem á annað borð væru með lífvænlegan rekstur, og ég legg aftur áherslu á það, þeim fyrirtækjum sem á annað borð væru með lífvænlegan rekstur að komast yfir þennan erfiða hjalla. Og eftir ítarlegar athuganir og mikla vinnu

sameinaðist ríkisstjórnin um að leggja hér til ábyrgðadeild fiskeldis þar sem tekin var upp ríkisábyrgð gagnvart hverju fyrirtæki fyrir sig en með þeim öryggisákvæðum, með þeim talnalegu öryggisnetum, að það væru fyrst og fremst þau fyrirtæki sem hefðu eðlilega rekstrarmöguleika sem inn í þetta kerfi gætu gengið. Með þeim brtt. sem hér hefur verið mælt fyrir er verið að rífa upp þessi öryggisnet, er verið að taka burtu þessa varnagla. Ég sé að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sem var einn af þátttakendunum í að semja það frv. sem hann nú vill breyta með liðsinni Sjálfstfl. hristir höfuðið. En ég spyr á móti: Ef tölurnar í frv. duga ekki, hvers vegna er verið að breyta þeim? Er ekki verið að breyta þeim, eins og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagði hér áðan, sem björgunaraðgerð, svo að ég noti hennar óbreyttu orð, björgunaraðgerð þar sem björgunin felst í því að flytja einhvern hluta af tapinu yfir á skattborgarana í landinu og þar með talinn ríkissjóð. Ég vil þess vegna fara hér yfir þær brtt., sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur hér mælt fyrir, til þess að skýra nokkuð nánar hvað felst í þessum tillögum. Vegna þess að mér fannst merkilegt að þeir sem styðja tillögurnar í hv. fjh.- og viðskn. vörðu ekki miklum tíma í ræðum sínum til þess að útskýra nákvæmlega hvað fælist í brtt.
    1. brtt. felur í sér að sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs er aukin í allt að 50% að verðmæti eldisstofnsins í stað 37,5% í frv. Þessi breyting hefur í för með sér að draga úr þeim þrýstingi sem er á bankakerfinu til þess að veita afurðalán og taka hluta af þeim afurðalánum sem eðlilegt er að viðskiptabankarnir veiti í gegnum ríkisábyrgðakerfið eða með öðrum orðum flytja yfir á ríkissjóð hluta af eðlilegri lána- og ábyrgðarstarfsemi bankakerfisins. Hver er ástæðan fyrir því að viðskiptabankarnir voru tregir til þess að veita þau lán sem hér um ræðir og þær ábyrgðir? Hvers vegna er talin nauðsyn á því að hækka hlutfallið úr 37,5% í 50%? Jú, er ekki svarið að viðskiptabankarnir með sitt faglega mat, hagdeilda sinna og rekstrarráðgjafa hafa ekki treyst sér til þess að mæla með því við bankann að slík lána- og ábyrgðafyrirgreiðsla væri veitt? Það er auðvitað svarið. Og þess vegna sé verið að flytja þá neitun og þá höfnun á ábyrgð viðskiptabankanna, sem væntanlega hefur verið framkvæmd með faglegu mati viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis sem þekkir rekstur fyrirtækisins inn og út, yfir á ríkissjóð, yfir á skattborgana. Það sem viðskiptabankinn treystir sér ekki til að ábyrgjast eiga skattborgararnir í landinu að ábyrgjast. Og ég spyr: Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug eftir allar þær ræður um nútímahætti í viðskiptalífi og efnahagslífi að standa hér upp og leggja þetta til? Jafnvel sömu mennirnir sem gerast talsmenn þess að leggja eigi niður ríkisbankana til þess að hægt sé að taka upp almennt viðskiptabankakerfi hér á Íslandi. Þessi breyting ein og sér felur í sér að ábyrgðarhluti ríkisins verður aukinn um a.m.k. 300--400 millj. kr. Kom það fram hjá hv. flm. Friðrik Sophussyni eða hv. alþm. Þórhildi

Þorleifsdóttur, þessi upphæð? Nei. Það væri fróðlegt að vita hvort flm. þessarar tillögu hafa leitað sér upplýsinga um hvað hún þýðir í milljónum króna. Hún þýðir að það er verið að auka ábyrgðirnar um 300--400 millj. kr.
    2. brtt. sem lögð er til er að það eigi að vera skilyrðislaust hlutverk sjóðsins að veita ábyrgðir til hafbeitarfyrirtækja. Ég vænti þess að hv. alþm. geri sér skýra grein fyrir því hver er munurinn á rekstri og veðmöguleikum þeirra fiskeldisfyrirtækja sem þessu frv. er fyrst og fremst ætlað að þjóna og þeirra fyrirtækja eða þess hluta í rekstrinum sem fyrst og fremst fæst við hafbeit. Með þessari tillögu er verið að lögbinda í frv., með því að segja að það eigi skilyrðislaust að veita ábyrgð vegna hafbeitar, það er verið að opna kröfu á ríkissjóð sem enginn veit í dag hvað verður stór. Nemur hún hundruðum milljóna? Nemur hún milljörðum? Það veit enginn. Og flm. tillögunnar virðast ekki einu sinni hafa haft fyrir því að leita sér heimilda eða upplýsinga um það svo að þeir geti skýrt Alþingi frá því hvað þeir eru í raun og veru að leggja til með því að breyta því sem í frv. er heimild, sem verður ekki beitt nema að lokinni ítarlegri athugun og skoðun, í skilyrðislausa framkvæmd. Og ég spyr á móti: Hvernig á að ákvarða verðgildi eldisstofnanna sem synda í sjónum og enginn veit hvernig koma til með að skila sér? Það vita það allir hér að skilahlutfall hafbeitarlax er mjög mismunandi. Engu að síður er verið að leggja það til að það eigi að taka veð í laxinum sem syndir hérna úti í Atlantshafinu og enginn veit hvað skilar sér í ríkum mæli eða hvort skilar sér inn í viðkomandi stöð og veita fjármuni úr ríkissjóði og ábyrgðir í samræmi við það. Satt að segja á maður mjög bágt með að átta sig á því hvernig ábyrgir aðilar og kunnáttuaðilar í fiskeldi treysta sér til þess að leggja til að þetta eigi skilyrðislaust að gera án þess að fram hafi farið mjög ítarleg og nákvæm og tæknileg athugun á því í fyrsta lagi hvort þetta er framkvæmanlegt og í öðru lagi hvaða varnagla þurfi að setja í þeim efnum. Kannski er skýringin sú að menn vilji flytja möguleikana á því að almenningur sé ábyrgðaraðili að óútfylltum tékka yfir á alla hafbeitarræktina á Íslandi? Það er stór tékki. Og það eru ekki kjarklausir menn sem koma hér og leggja það til í örstuttri brtt. og án þess að rökstyðja það mikið í sínum málflutningi hvers vegna þeir kjósa að gera þá grundvallarbreytingu á frv. að það skuli lagaleg skylda að veita ábyrgðina gagnvart hafbeitinni. ( FrS: Hefurðu lesið frv.?) Jú, ég hef lesið frv. rækilega, hv. þm. Og ég hef líka lesið brtt. og ég er einmitt að lýsa eðli brtt. sem ekki var gert hér af hv. þm. Friðriki Sophussyni vegna þess að það var augljóst að hann var hálffeiminn við að mæla fyrir þessum brtt. hér og allur seinni hluti ræðu hans var í afsökunartón. Enda hlýtur þessum frjálshyggju-"báknið burt``-postula að líða illa í þessu hlutverki ríkisforsjármannsins og ríkisábyrgðarmannsins sem hann birtist í hér áðan. (Gripið fram í.) Ég kunni nú ekki við að nota það orð um hann beint og persónulega.

    Þriðja atriðið sem hér er lagt til er að hámarkstíminn sem fiskeldisfyrirtækin geti fengið fulla sjálfskuldarábyrgð er lengdur úr þremum árum í fjögur og það sem meira er, heildartíminn úr sex árum í átta. Það er vissulega rétt og það er að mínum dómi kannski eitt af því fáa sem lagt er til af flm. þessara brtt. sem fyrir eru efnisleg rök í sjálfu sér, að það geti verið rétt að framlengja hámarkstíma fullrar ábyrgðar úr þremur árum í fjögur. ( FrS: Farðu nú ekki að viðurkenna það.) Jú, jú, ég viðurkenni nefnilega það sem er efnislega rétt og kunna að vera rök fyrir en ekki bara hagsmunapot sem
felst í því að láta skattborgarana taka að sér peningagreiðslur sem eigendur fyrirtækjanna eiga, samkvæmt lögmálum eðlilegs efnahagslífs, að standa ábyrgir fyrir. Og þess vegna væri í sjálfu sér hægt að samþykkja þá brtt. á frv. að lengja þennan tíma úr þremur árum í fjögur. Það eru hins vegar engin rök fyrir því að framlengja heildartímann í átta ár sem líka er lagt til. Ákvæðin um hámarkstíma ábyrgða í frv. voru sett til að koma í veg fyrir það, og ég legg ríka áherslu á það, til að koma í veg fyrir það að fiskeldisfyrirtækin festust til frambúðar í kerfi ríkisábyrgða. Þess vegna var sett eðlilegt sólarlagsákvæði, sex ár, sem eiga samkvæmt öllu rökum að duga fiskeldisfyrirtækjum í eðlilegum rekstri og á þeim tíma væri ríkisábyrgðin hnigin til viðar. En með því að framlengja tímann í átta ár væri í reynd verið að setja ríkisábyrgðina fram yfir eðlilegan rekstrartíma og stofntíma viðkomandi fyrirtækja. Og hver er ástæðan? Er kannski ástæðan sú að menn vilja hafa það vað fyrir neðan sig að geta komið tapinu yfir á ríkið á þessum tíma? Þessi brtt. bendir þess vegna til þess að þeir sem leggja til að sólarlagstíminn sé lengdur úr sex árum í átta ár hafi ekki sjálfir trú á rekstraráætlunum þeirra fiskeldisfyrirtækja sem mundu sækja um og séu þess vegna að veita þeim aukinn aðgang að greiðslu skattborgaranna á þeirra tapi. Sérhver sem hefur eðlilega trú á rekstraráætlunum fyrirtækjanna mun að sjálfsögðu fallst á að sex ára tími sé nægilegur. Ég legg hins vegar áherslu á það, eins og ég gerði hér áðan, að það getur alveg komið til greina, og fyrir því eru eðlileg rök efnislega, að breyta þremur árunum í fjögur án þess að hreyfa við heildartímanum sex ár eða breyta honum í átta. Sama gildir reyndar um þá brtt. sem lögð er fram varðandi 8. gr., að í stað orðsins ,,vátryggingar`` komi orðið tryggingar. Það er breyting sem er efnislega eðlileg og getur verið sjálfsagt og rétt að fallast á, enda sé ekki jafnframt verið að auka ábyrgðir eða áhættu ríkissjóðs að öðru leyti.
    Þessi tvö atriði, að breyta þremur árum í fjögur og breyta vátryggingum í tryggingar, eru satt að segja þau atriði í brtt. sem full og eðlileg, efnisleg rök eru fyrir og snerta ekki meginviðleitni hinna þáttanna að flytja tapið af rekstri fiskeldisins yfir á skattborgarana.
    Síðasta brtt., sem sumir af þeim sem hér töluðu áðan minntust hins vegar ekki á einu orði eða mjög lítið, er þó öllu alvarlegust, það er brtt. við 6. gr. þar

sem lagt er til að úr henni falli niður þessi setning: ,,Iðgjöld skulu við það miðuð að deildin skuli rekin hallalaus.`` Með því að fella niður þessa setningu er í reynd verið að kippa öllum hlutlægum og efnislegum grundvelli undan ákvörðun iðgjaldanna og gera ákvörðun iðgjaldanna nánast alfarið að mati á því hvað ríkissjóður eigi að borga mikið tap, hvað reikningurinn sem skattborgararnir fá á hverju ári sé hár.
    Grundvallaratriðið í eðlilegu ábyrgðarkerfi, sem menn kæmu upp út frá efnislegum rekstrarforsendum og út frá heilbrigðri löngun til þess að efla atvinnugreinina sem slíka, felur auðvitað í sér að miða iðgjöldin við það að ábyrgðarkerfið í heild sé rekið án halla. En hér er beinlínis lagt til, og að því leyti til má segja að þessi brtt. sé virðingarverð að þarna viðurkenna flm. að það eigi að vera verulegur halli á ábyrgðadeildinni og þann halla eigi skattborgararnir síðan að greiða þó þeir bæti því ekki við.
    Ég hef hér, virðulegur forseti, farið í gegnum þær brtt. sem mælt hefur verið fyrir við þetta frv. Þær þeirra sem eru efnislega stærstar, að hækka hlutfallið úr 37,5% í 50%, að gera það að skilyrðislausri kvöð að ábyrgðirnar nái til hafbeitarfyrirtækjanna, að lengja ábyrgðartímann úr sex árum í átta og fella niður það ákvæði að iðgjöldin skuli miðuð við það að deildin sé rekin hallalaus, miða allar að því að taka hér upp víðtækt ábyrgðarkerfi á fiskeldisfyrirtækjum sem ekki geta sjálf staðið undir eðlilegum greiðslum.
    Ég nefndi í upphafi minnar ræðu að við höfum, bæði hér á Alþingi og sérstaklega í þeim heimshluta sem við tilheyrum, orðið vitni að víðtækum
efnahagslegum breytingum og umræðum sem miða að því að efla heilbrigt atvinnulíf án ríkisforsjár, án ríkisábyrgða og án þess að með lagaskyldu sé almenningur í landinu knúinn til þess að greiða kostnaðinn við rangar fjárfestingar og rangar rekstrarákvarðanir eigenda fyrirtækjanna. Það þjónar ekki hagsmunum fiskeldisins á Íslandi að gefa Íslendingum það til kynna að greinin sé svo vanburða að það sé nauðsynlegt að flytja stóran hluta af ábyrgðunum og tapinu yfir á skattborgarana í landinu. Það vekur aðeins upp tortryggni gagnvart fiskeldinu og andstöðu við þessa nýju atvinnugrein. Við búum ekki til traustan efnahag fyrir almenning á Íslandi með því að nýju atvinnugreinarnar í landinu séu fluttar inn í gamla ríkisforsjárkerfið sem við vorum væntanlega öll sammála um að leggja af, ef vaxtarblóminn í íslensku atvinnulífi á að vera háður því að hann sé fluttur yfir í gamla ríkisforsjár- og ríkisábyrgðarkerfið.
    Og það er satt að segja merkilegt að Sjálfstfl., sem hefur árum saman reynt að telja þjóðinni trú um að hann sé helsti talsmaður þess að vikið sé frá ríkisforsjá, hann sé helsti talsmaður þess að fyrirtækin eigi að standa á eigin fótum, hann sé helsti talsmaður þess að draga úr ríkisábyrgðum, hann sé
helsti talsmaður þess að viðskiptabankarnir eigi að sinna eðlilegri lánafyrirgreiðslu en ekki ríkissjóður, hann sé helsti talsmaður þess að ekki eigi að greiða úr ríkissjóði neinar upphæðir nema þær séu fyrir fram

ákveðnar í fjárlögum eða fjáraukalögum, gerist núna hér á Alþingi forustuflokkur fyrir því að auka ríkisforsjána, auka ríkisábyrgðirnar, flytja byrðarnar yfir á almenna skattborgara og framlengja það gamla kerfi að ríkissjóður eigi árlega að fylla út einhverja tékka sem upphæðirnar hafa ekki verið skráðar á í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson gerði það að miklu atriði í sinni ræðu hér áðan að fulltrúar fjmrh. ættu að tryggja að þessar ábyrgðir yrðu ekki misnotaðar. Í reynd viðurkenndi hann þannig allt það sem ég hef hér sagt sem efnislega gagnrýni á þessa brtt. En vörn hans fólst í því eingöngu að þeir, sem fjmrh. veldi til þessara verkefna, ættu að sjá um það að ekkert færi úr skorðum. En ég spyr: Hvers vegna geta menn þá ekki bara samþykkt frv. eins og það er upphaflega frekar en að búa til eitthvert kerfi þar sem lagaleg kvöð er á því að ábyrgðirnar séu 50%, að hafbeitin sé inni, að sólarlagsákvæðin séu lengd og að iðgjöldin eigi ekki að standa undir hallanum og ætlast svo til þess að einhverjir einstaklingar valdir af fjmrh. komi í veg fyrir það að almenningur í landinu borgi tapið? Hvers konar kerfi er þetta eiginlega sem menn vilja koma hér upp á síðasta áratug tuttugustu aldar?
    Hv. þm. rökstuddi einnig brtt. á þann veg að fyrst ríkisstjórnin hefði ákveðið að stofna þessa ábyrgðadeild þá væri um að gera að vera ekki með neitt hálfkák. Eða með öðrum orðum, að fyrst á annað borð sé opnaður sá möguleiki að eðlilegar ríkisábyrgðir geti verið gagnvart fiskeldinu þá sé um að gera að opna allar gáttir þannig að ábyrgðarkerfið sé nánast rústað og tap almennings verði sem mest. Ég spyr aftur: Hvers konar röksemdafærsla er þetta eiginlega? Að úr því á annað borð sé gengið inn á einhverja braut þá þurfi endilega göngulagið að vera með þeim hætti að allt fari um koll. Nei, þessar röksemdir sýndu auðvitað að hv. flm. þessara brtt. og Sjálfstfl. í heild sinni hefur slæma samvisku af því að vera að flytja þessar brtt.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagði hér að Kvennalistinn hefði gagnrýnt frv. um Tryggingasjóð fiskeldis vegna þess að það hefði ekki verið nægilega vel undirbúið og menn vissu ekki nægilega vel hvað þeir væru að gera, það hefði ekki verið nægilega vel ígrundað. En ég spyr á móti: Hafa þessar brtt. sem Kvennalistinn nú styður verið nægilega vel ígrundaðar? Veit Kvennalistinn nákvæmlega inn á hvaða braut hann er að fara með því að styðja þessar brtt.? Ég vona að þær athugasemdir sem ég hef hér gert við brtt. varpi nokkru ljósi á það að hér er Kvennalistinn, án þess að hafa nákvæmar upplýsingar um hvað felst í þessum brtt., að styðja það að Sjálfstfl. og aðrir þeir sem vilja láta almenna skattborgara í landinu greiða fyrir tap eigenda fyrirtækjanna nái þeirri stefnu sinni fram.
    Og reyndar bar á þeim sama hugsunarhætti að fyrst á annað borð væri farið inn á þessa braut þá væri um að gera bara að sulla nógu miklu inn í frv. Þetta eru sömu aðilarnir og hafa gagnrýnt núv. hæstv. ríkisstjórn fyrir, síðan hún var mynduð, að koma hér upp

Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði til þess að efla atvinnulífið og forða því frá hruni. En ég segi, þau skilyrði sem felast í þessum brtt. eru miklu veikari en hægt er að finna í lögunum um Atvinnutryggingarsjóð eða Hlutafjársjóð. Og það sem er kannski hin sérkennilega pólitíska þversögn við þennan tillöguflutning Sjálfstfl. hér að með honum hrynur öll gagnrýni Sjálfstfl. undanfarið eitt og hálft ár á Hlutafjársjóð og Atvinnutryggingarsjóð. Vegna þess að Sjálfstfl. hefur sýnt það með þessum brtt. að hann vill ætla Ríkisábyrgðasjóði miklum mun meira og stærra forsjárhlutverk og ábyrgðarhlutverk í atvinnulífinu og þar með fyrir hönd skattborgaranna en nokkurn tímann Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði er ætlað.
    Það er kannski það sem sumir geta glaðst yfir við þennan tillöguflutning að hann sviptir burtu þeim blekkingum sem Sjálfstfl., sem hinn gamli ríkisforsjárflokkur hér á Íslandi, hefur fylgt í áratugi.
    Ég á líka bágt með að skilja að þeir sem hafa mælt með því frv. sem fjvn. flutti hér um nýskipan í ríkisfjármálum, hvað þá heldur þeir sem eru flm. að því frv. eins og sumir þingmenn Sjálfstfl., geti farið að greiða þessum brtt. atkvæði sitt. Það gengur satt að segja alveg þvert á þá grundvallarhugsun sem í því frv. er að finna.
    Virðulegi forseti. Ég tel mjög brýnt að á Íslandi eflist sá skilningur að atvinnufyrirtækin og atvinnulífið á að standa á eigin fótum. Það er mjög brýnt að við sýnum í verki að þeir sem stýra fyrirtækjunum og eiga þau sýni fulla ábyrgð. Og ef gengið er inn á þá braut að veita um skamman tíma ríkisábyrgðir og ríkisaðstoð verði að gera það í slíku hófi að það sé augljóst og sannanlegt að þar með sé ekki verið að opna möguleika á því að fyrirtæki geti með léttum hætti flutt tap sitt yfir á almenning og skattborgarana í landinu. Þess vegna hlýt ég að mæla eindregið gegn því að flestar af þessum brtt. verði samþykktar þó ég telji að tvær þeirra séu með þeim hætti að þær sé hægt að samþykkja.
Hinar eru hins vegar allar á þann veg að opna á ný gamla óútfyllta tékkheftið um ríkisforsjá og ríkisábyrgðir í íslensku atvinnulífi. Og það er brýnt á þeim tímamótum, sem hagkerfi heimsins er að fara í gegnum, að við stígum ekki slíkt skref aftur á bak hér á Alþingi Íslendinga.