Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég mun ræða við hæstv. forseta út af þessari tilkynningu hans. Ég segi hins vegar það í sambandi við það sem hv. 1. þm. Norðurl. v., sem talaði fyrir minnihlutanefndarálitinu, tók fram, að hann teldi að menn væru bundnir af frv., að breyta því ekki. Ég er búinn að vera a.m.k. hér um bil eins lengi og þeir sem lengst hafa verið hér á þingi. Ég man ekki eftir að nokkurn tímann hafi verið tekið svo til orða nema í sambandi við fjárlög. Og það veit a.m.k. hæstv. fjmrh. að ég tók það fram við hann þegar ég vissi um þetta frv. að ég mundi ekki geta staðið að því í því formi sem það er. Það er vegna þess að verið er að stíga spor aftur á bak, frá þó þeim lögum, þó ill séu, sem við búum við. Það er ástæðan fyrir því. Og ég verð nú að segja það við vin minn, hæstv. fjmrh., að ég var alveg undrandi á hans málflutningi hér áðan. Þegar hann er að ræða um að verið sé að fara fram á að ríkið borgi tapið. Það er fyrst og fremst verið að fara fram á að þessi atvinnugrein búi við sömu eða svipuð skilyrði og annar atvinnurekstur í landinu. Það er alveg rétt að bankarnir hafa neitað í mörgum tilvikum að lána nokkur afurðalán og neita því að taka veð í hinum lifandi fiski. Þetta getur verið í vissum tilvikum eðlileg neitun, ég játa það, þar sem er verið með sjókvíar á stöðum þar sem undirkæling er mjög líkleg, en hún getur ekki verið eðlileg t.d. í strandeldi þar sem er góður útbúnaður og öryggis gætt eftir því sem hægt er. Ef meira en helmingurinn af fiskinum drepst í þessum stöðvum leiðir það auðvitað til þess að þessi rekstur hættir og þá getur ríkið lent í ábyrgð. Ef við förum að athuga hvernig rekstrarskilyrði eru fyrir þessa atvinnugrein er ekki hægt að segja það að hæstv. ríkisstjórn standi sig vel gagnvart þessari grein. Það er ekki hægt að fá afurðalán út á framleiðsluna í bönkunum öðruvísi en að ríkið geri ráðstafanir til þess. Það er ekki ætlast til þess að það lendi á ríkinu. En ef ekki fæst afurðalán er hægt að loka
þessum fyrirtækjum, hvorki meira né minna. Það er ekkert um annað að gera. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að ríkisstjórnin geri þetta með allt öðrum hætti. Ég ætla ekki að fara að tefja tímann hér og nú með því að ræða það, en hún verður náttúrlega að tryggja að það sé hægt að standa að þessum atvinnurekstri og það séu sambærileg skilyrði og aðrir hafa.
    Það er rétt að fiskeldið á Íslandi fór ekki nógu vel af stað. Uppbyggingin varð allt of dýr, en þar komum við líka að atriði, sem við skulum bara hafa í minni, að vaxtaokrið hér í landinu, að því leyti til sem hefur verið lánað út á þessar framkvæmdir og þennan rekstur hér innan lands, hefur verið þannig að það getur enginn atvinnurekstur borið það og ekki þarf að hafa mörg orð um slíkt. Fiskeldið verður að borga orkuverð sem er margfalt við stóriðjuna. Ekki er hægt að kenna því um að þetta sé vegna þess að það sé bara hluta úr sólarhringnum sem fiskeldisstöðvarnar nota þessa orku. Það er alveg sambærilegt við

stóriðjuna að því leyti að þetta er notað allan sólarhringinn. Hins vegar er búið svona að greininni að hún verður að borga margfalt orkugjald á við t.d. hina fyrirhuguðu stóriðju sem er verið að ræða um. Og það kann að vera að menn ætli að gera slíka samninga að það verði að hækka orkuverðið í landinu, m.a. til fiskeldisstöðva, ef samið verður á þeim nótum sem maður er að heyra að nú séu uppi í sambandi við nýja stóriðju í landinu.
    Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ætlist ríkisstjórnin til þess að hv. þm. samþykki þetta frv. óbreytt tel ég að verið sé að stíga spor aftur á bak. Það sé verri kostur en þó það sem fiskeldið býr við. Og þá líst mér nú ekki á þennan rekstur í framtíðinni.
    Það er eitt sem ég tel að vísu vafasamt í þessum tillögum og það eru ákvæði um hafbeitina. Ég skal ekkert segja um hvernig hafbeitin verður í framtíðinni ef hægt er að stöðva veiðar á hafinu. Það kann að vera að það verði þá alveg kapítulaskipti um það, en eins og heimturnar voru t.d. á síðasta ári stendur það alls ekki undir neinum rekstri. Það gerir það ekki. Það er þess vegna það eina í þessum tillögum sem ég mundi hika við að samþykkja, en það er alveg óumflýjanlegt að hækka þessa heimild í 50% því að það er alveg greinilegt að bankarnir bæta ekki við nema þeir sem eru í þessu geti greitt þau lán að fullu. Og það er alveg sama hvaða tölu við setjum hér inn, bankarnir munu ekki gera það. Þó veit ég um banka sem hefur lánað einni fiskeldisstöð rekstrarlán upp í eða yfir 70%. Þannig er nú fyrirtækjunum mismunað. (Gripið fram í.) Lánin? Ég er að tala um hlutfall. (Gripið fram í.) Fyrirtækin, það er ekki fyrir það.
    En ég vil nú vinsamlegast biðja hæstv. fjmrh. að hugleiða mál sitt svolítið betur því að þessir punktar, sem hann var fyrst og fremst að telja upp sem rök gegn því að þetta yrði gert, eru miðaðir við allt annað en hér er verið að tala um. Þetta snýst einfaldlega um þetta: Verður fiskeldi atvinnugrein á Íslandi eða verður það ekki? Ég er alveg tilbúinn að skoða það síðan hvort ekki er hægt að finna aðrar leiðir í þessu efni. Þær eru auðvitað til en það þarf kjark til að lögfesta slík ákvæði.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja umræður um þetta hér. Ég beini því til
þingmanna að hugsa sitt ráð vel áður en þeir fella þessar tillögur og taka þá þeim afleiðingum sem af því hljótast, nema þeir geri þá aðrar ráðstafanir sem jafngilda þessu a.m.k. Og það þarf að huga að fleiru. Það þarf að huga að orkuverðinu, að ógleymdu vaxtaokrinu sem þessir menn búa við eins og aðrir í landinu. Það kann að vera að menn séu orðnir leiðir á því að talað sé um vaxtaokur í þessu landi og séu bara ánægðir með það að bera þá krossa sem hvíla á fyrirtækjum og einstaklingum af völdum vaxtanna, en þá eru þessir hv. þm. ekki í sambandi við þjóðfélagið, þjóðina, einstaklingana sem vextirnir eru að drepa þannig að margir eru að flýja land. Það eru fjöldamargir að missa sínar íbúðir og þeim fer fjölgandi. Á þeim málum ber ríkisstjórninni að taka.