Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Seint hættir hæstv. fjmrh. að koma manni á óvart. Það nægir ekki einungis samlíkingin við Janus sem hafði tvö andlit. Maður verður að grípa til samlíkingarinnar um risann Argus sem bjó yfir þeim eiginleikum að ef eitt höfuð var höggvið af honum spruttu samstundis tvö önnur í staðinn. Það var alveg með ólíkindum að hlusta á rök hans gegn þeim brtt. sem fluttar hafa verið við frv. og hann lét í veðri vaka að gjörbreyttu frv. öllu og væru einhvers konar óútfylltur víxill sem almennum skattgreiðendum bæri síðan að borga. Það vefst fyrir manni að skilja hvernig á því stendur að hæstv. fjmrh. flytur þetta frv. yfirleitt vegna þess hve hann fjölyrti hér í upphafi um það böl sem hlytist af ríkisábyrgðum og ríkisforsjá í öllum rekstri og sór svoleiðis gjörsamlega af sér það sem felst í þessu frv. og kenndi það í sífellu við einhverjar Austur-Evrópuaðferðir. Hann virðist vera svo upptekinn af því að þvo af sér og sínum einhverjar fyrri syndir eða yfirsjónir að þeir tilburðir verða nánast brjóstumkennanlegir. Nú skal hann frjálsari í huga en allir aðrir. Kapítalisminn blífur, bara hann sé ekki kenndur við pils. Og þar sem hæstv. fjmrh. hefur reynst flokkareikull maður á maður nú helst von á því að hann fari að leita sér að nýjum félagsskap, einhverjum þeim þar sem boðberar frelsis eða réttara sagt frjálshyggju eru í fleti fyrir. Það má ráða af orðum hans að líklega verði það ekki Sjálfstfl. því að hann sligar nú greinilega aðdáun á ríkisbákni og ríkisforsjá. Og hvar finnst þá næg frjálshyggja fyrir hæstv. fjmrh.? Jú, ætli það sé ekki helst í bandalagi við þá helstu frjálshyggjupostula sem hér eru á þingi, þá nafna og flokksbræður sem nú fara með utanríkismál og viðskipta- og iðnaðarmál? Þar er líklega helst að leita að uppfyllingu frelsis- og hreinsunardrauma hæstv. fjmrh.
    Eftir langa og ítarlega ræðu um ríkisábyrgðir og austantjaldsaðferðir sneri hann sér svo að frv. sjálfu og fullyrti þar æ ofan í æ alls konar hluti þvert
á frv. sjálft. Nú vil ég strax taka það fram að ég álít að ekki hægt sé að segja eitthvað af eða á um ríkisábyrgðir eða ekki ríkisábyrgðir. Mér þætti gaman að sjá þann íslenska stjórnmálamann sem væri tilbúinn að halda því fram að þær bæri að afnema alls staðar og ríkisforsjá og ríkisaðstoð væri alls staðar af hinu illa. Ég held að það mundi vefjast fyrir hæstv. fjmrh. að fylgja eftir þeim fjórum stefnuatriðum sem hann gerði hér að umtalsefni og kallaði fjögur grundvallaratriði. Ef hann ætlaði að fylgja þeim til hins ýtrasta held ég að færi nú að skerðast um skotfærin hjá örva gré í fleiru en fiskeldi.
    Ætli það hljóti ekki að vera matsatriði hverju sinni við hvað þarf að styðja og með hvaða hætti? Um það geta menn ekki sett reglur. Um það geta menn ekki haft fyrir fram svo fastmótaðar skoðanir að þeim verði ekki breytt. Og það mat hverju sinni hlýtur auðvitað að byggjast á mörgum atriðum, m.a. þjóðhagslegu gildi þeirrar atvinnugreinar sem um ræðir, þeirri

atvinnu sem um væri að ræða í atvinnugreininni o.s.frv.
    Ef ég sný mér þá að brtt. sjálfum hélt ég að þeir sem hér mæltu fyrir brtt. og reyndar sú sem hér stendur og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefðu fært fyrir því næg rök hvers vegna við vildum standa betur að þessum aðgerðum en gert er ráð fyrir í frv. og við erum ekki með því að framvísa neinum óútfylltum víxli.
    Hæstv. fjmrh. sagði sjálfur að frv. væri m.a. flutt til þess að draga úr þeim þrýstingi sem væri á bankakerfinu. Með því er hann með nokkrum hætti að viðurkenna að það sé ekki auðsótt mál fyrir fiskeldisfyrirtæki að sækja þangað fyrirgreiðslu, og þegar búið er að fella brott úr frv. eða gera þær breytingar á þeim lögum sem nú eru í gildi að skilyrða lán, jafnháum lánum úr bönkum, þá blasir við sú hætta að bankarnir kippi að sér hendinni og veiti alls enga fyrirgreiðslu eða réttara sagt svo lága að hún skipti í raun og veru engu máli. Það nægir reyndar fyrir fiskeldisfyrirtæki að hafa þess vegna 1% lánafyrirgreiðslu frá banka og uppfylla þar með skilyrði til þeirra sjálfskuldarábyrgðarlána sem hér er um rætt. Ef svo færi er verr af stað farið en heima setið því að þá stendur greinin verr en hún gerði fyrir gildistöku þessara laga ef þau ná fram að ganga óbreytt. Heimildir fyrir eldislánum, sjálfsábyrgðarlánum í fiskeldi, að hámarki 50% eru skilyrtar á nákvæmlega sama hátt eins og þau 37,5% sem fjmrh. sjálfur leggur til. Það eru ekki gerðar þær breytingar á frv. að nú skuli allt gert skilyrðislaust, þannig að víxlarnir séu óútfylltir. Það mátti helst ráða á stundum, þegar maður hlýddi á mál hæstv. fjmrh., að hann hefði ekki einu sinni lesið frv. sem hann samdi þó sjálfur. Hér stendur skýrum stöfum í 5. gr. frv.:
    ,,Fjármálaráðherra skal skipa þriggja manna stjórnarnefnd, þar af einn formann, til þriggja ára í senn. Jafnframt skulu skipaðir þrír varamenn. Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um sjálfskuldarábyrgðir samkvæmt lögum þessum og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis. Fyrirtæki koma því aðeins til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra
til lengri tíma litið. Stjórnarnefndin skal samþykkja kjör og form lána sem sjálfskuldarábyrgð er veitt fyrir.``
    Ég held að þessi grein taki af öll tvímæli um það að það sé stjórnarandstaðan sem sé að senda óútfyllta víxla í höfuðið á almennum skattborgurum þessa lands eins og hæstv. fjmrh. sagði aftur og aftur. Það er í valdi fjmrh. sjálfs, eða reyndar þeirra manna sem hann velur til starfa, að sjá til þess að svo verði ekki og að skilyrðum sé fullnægt með viðunandi hætti til lántöku. Það sem hann með þungum áherslum kallaði hér aftur og aftur skilyrðislaust er þess vegna bara marklaust hjal. Það hefur enginn gert tillögur um nokkrar breytingar þess eðlis að lánveitingar skuli vera skilyrðislausar. Það er eitthvert hugarfóstur hæstv.

fjmrh.
    Hann gerði líka athugasemdir við að orðalaginu að ,,heimilt`` væri ,,að veita sjálfskuldarábyrgðir fyrir lánveitingum banka og lánastofnana til hafbeitarfyrirtækja`` yrði breytt í ,,hlutverk sjóðsins er einnig``, og þarna gerði hann enn að umtalsefni óútfyllta víxla og einhverjar stórkostlegar upphæðir sem almennir skattborgarar ættu að greiða. Í lok 2. gr. þar sem talað er um sjálfskuldarábyrgðir fyrir lánveitingu banka og lánastofnana til hafbeitarfyrirtækja segir skýrum stöfum: ,,Skal þá stjórnarnefnd deildarinnar móta sérstakar reglur fyrir veitingu slíkra sjálfskuldarábyrgða og skulu þær samþykktar af fjármálaráðherra í formi reglugerðar.``
    Aftur er það hann sem á að gefa víxilinn út. Aftur er það hann sem ákveður ábyrgðarmennina á víxlinum þannig að ég held að ráðherra fari nokkuð offari í því að gera þessar brtt. tortryggilegar.
    Hæstv. fjmrh. lýsti sig samþykkan því að lengja mætti lánstíma úr þrem árum í fjögur og er það út af fyrir sig gleðiefni að hann skuli sjá samhengi á milli vaxtartíma fisksins og þess tíma sem fyrirgreiðsla þarf að koma til. En þá skil ég ekki að hann skuli ekki jafnframt vera sammála ákvæðum um þann tíma sem lán skulu endurgreidd á. Hann hlýtur að kannast við það, ef ekki í opinberri fjársýslu þá a.m.k. í eigin fjárreiðum, að það getur skipt sköpum um það hvernig gengur að borga af lánum, hve fljótt þau skulu greidd niður. Og það liggur í hlutarins eðli að fái fyrirtæki lán í fjögur ár í stað þriggja, þá er greiðslubyrðin þyngri og því sjálfsagt að breyta greiðslutíma til samræmis við lánstíma.
    Hæstv. ráðherra hafði einnig þungar áhyggjur af því að við 6. gr. væri gerð brtt. þess efnis að taka út málsgrein þar sem kveðið er á um að deildin skuli rekin hallalaust. Ég held að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi þegar gert svo góða grein fyrir þessari brtt. að óþarfi sé að fjölyrða um hana en vil samt ítreka enn einu sinni að iðgjöld eru, eins og flest annað í framkvæmd þessa frv., á ábyrgð hæstv. fjmrh. sjálfs. Hér stendur í upphafi 6. gr.:
    ,,Fjármálaráðherra ákveður að fengnum tillögum stjórnarnefndar þau iðgjöld sem greidd skulu fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgða.`` Enn er ábyrgðin hans, enn er ekki verið að kasta óútfylltum víxlum í höfuð skattgreiðenda.
    Í rauninni væri verðugt umtalsefni í löngu máli afstaða hæstv. fjmrh. til eigin frv. svo sérkennilega sem hann beitti sér í raun gegn því í flestu því sem hann sagði. En líklega hefur ill nauðsyn knúið hann til þess að leggja fram þetta frv. og honum væri sæmra að standa með því og taka á brtt. sem hafa verið gerðar við það af einhverri skynsemi í stað þess að láta heiftina ráða eða kannski löngunina til þess að sanna í verki að hann sé ekki haldinn neinum austur-evrópskum grillum lengur. Það má teljast hæstv. fjmrh. til happs að hann hefur ekki atkvæðisrétt á Alþingi þannig að hann þurfi ekki að sitja hér og greiða atkvæði gegn eigin frv. sem hann hlyti þó að gera samkvæmt orðanna hljóðan.