Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að lýsa yfir stuðningi við tvær af brtt. hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. Önnur þeirra laut að því að hann taldi eðlilegt að hægt væri að lengja sjálfskuldarábyrgðartímann í fjögur ár í stað þriggja. Hins vegar taldi hann að það mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum lengja í sólarlagsákvæðinu þannig að það yrði átta ár heldur skyldu sex standa. Enn fremur vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa sýnt það í verki að það er til smásveigjanleiki hjá honum þegar hann lýsti því yfir að hann gæti sætt sig við þá orðalagsbreytingu að breyta hugtakinu vátryggingar í tryggingar. Ég tel það meiri háttar tímamótaviðburð að hæstv. ráðherra skuli láta svo lítið að samþykkja það að styðja þessar tvær tillögur og verð ég að segja að það er mikil framför miðað við margt sem maður hefur séð af hendi hæstv. ráðherra bæði fyrr og síðar.
    Eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðherra efaðist ég satt að segja um að hann hefði lesið eigið frv. Það er t.d. athygli vert að líta aðeins í 3. gr. stjfrv., sem hæstv. ráðherra flutti, og skoða hvað þar stendur. Þar segir að hvert fiskeldisfyrirtæki geti fengið sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að o.s.frv. Með öðrum orðum það er verið að setja ákveðið hámark og það er ekki verið að setja þar neina skyldu því að annars staðar í frv. er rækilega gengið frá því að það er þriggja manna stjórnarnefnd sem á að skoða þessi mál mjög ítarlega og gera tillögur um hvernig beita skuli sjálfskuldarábyrgðunum allt eftir því hvort þeir telja fyrirtækin eiga lífvænlega framtíð.
    Og það segir meira í þessari 3. gr. því að þar segir að hámarkstími sem fyrirtækið getur fengið sjálfskuldarábyrgð séu sex ár. Það er verið að tala um hámarkstíma, en í raun og veru getur stjórnarnefndin ef hún vill það og gerir
tillögu þar um haft þennan tíma mislangan. Það eina sem hv. meiri hl. nefndarinnar, sem stendur að brtt., er að leggja til er að hægt sé að lengja í þessum tíma ef það gæti orðið til þess að sveigja lögin með þeim hætti að hægt verði að koma til móts við þau fyrirtæki sem eru lífvænleg og eiga framtíð fyrir sér í þessari grein. Allar yfirlýsingar hæstv. ráðherra um opna ábyrgð og opinn tékka eru auðvitað gersamlega út í hött. Hæstv. ráðherra leggst gegn því að hækka þá heimild sem er í lögunum úr 37,5% upp í 50% jafnvel þótt ljóst sé að slíkt geti haft þýðingu og það sé ástæðulaust, fyrst ákveðið er að fara út í ríkisábyrgð, að hafa þau ákvæði í lögunum sem leyfa að við viss skilyrði sé mögulegt að beita þessu heimildarákvæði. Og hæstv. ráðherra kemur hér í ræðustól og gerir mikið veður út af því að nú skuli það eiga að verða hlutverk ábyrgðadeildarinnar að veita sjálfskuldarábyrgð vegna hafbeitarfyrirtækjanna jafnvel þótt reglugerðir þar að lútandi séu á færi hans sjálfs og þeirra manna sem hann á samkvæmt lögunum að setja í viðkomandi stjórn. Auðvitað verður

að meta það á hverjum tíma hvernig fara eigi með hafbeitarfyrirtækin. Við höfum reynslu af slíkum fyrirtækjum. Við getum gert okkur grein fyrir því hvernig skilin eru hjá fyrirtækjunum og auðvitað verða að vera ákveðin öryggismörk þegar verið er að vega það og meta að hve miklu leyti veita skuli sjálfskuldarábyrgð um tímabundið skeið vegna þess að hér er um að ræða tímabundnar ráðstafanir á meðan hv. Alþingi og aðrir í þjóðfélaginu, þar á meðal lánastofnanir, eru að finna réttu leiðina til þess að koma til móts við þessi nýju fyrirtæki um afurðalán. Þannig hagar til í þessum rekstri að afurðirnar eru lifandi en ekki dauðar eins og t.d. gildir um afurðir í frystingunni sem við þekkjum mjög vel svo að ég bendi á hliðstæðu annars staðar þar sem um er að ræða afurðalánakerfið.
    Ég hélt að hæstv. ráðherra ætlaði að springa, hann tútnaði svo út þegar hann kom hér í ræðustól, blés út og varð rauður í framan og sagði að nú væri Sjálfstfl. að leggja til að reka skyldi ábyrgðadeildina með halla. Sjálfstfl. væri svo ábyrgðarlaus að hann legði bókstaflega til að reka skyldi þessa ábyrgðadeild með halla. Ég segi bara alveg eins og er, ég held að hæstv. fjmrh. ætti að lesa sitt eigið frv. því að í frv. segir mjög skilmerkilega, hvort sem frv. breytist eða breytist ekki, að stjórnarnefndarmennirnir eigi að gera tillögu til hans um iðgjöld og það er hann sem verður að staðfesta hver iðgjöldin eigi að vera. Nú kann svo að fara við viss tiltekin skilyrði að eitthvert fyrirtæki tapi. Þá er spurningin: Á að láta það tap lenda á hinum fyrirtækjunum sem standa sig í rekstri? Á að miða iðgjöldin við að svo og svo mörg fyrirtæki fari á hausinn? Okkar skilningur er sá að það skuli ekki gera, einfaldlega vegna þess að við teljum að stjórnarnefndarmennirnir, og við bendum á ákvæði því til stuðnings hér í frv., eigi að kanna það rækilega í upphafi hverjir það eru sem eigi að fá að njóta sjálfskuldarábyrgðar úr ábyrgðadeildinni. Það er grátlegt þess vegna að verða vitni að því að hæstv. fjmrh. komi hér í stól á Alþingi og tali nákvæmlega eins og hann hafi ekki lesið það frv. sem hann sjálfur fylgdi úr hlaði með ræðu hér á Alþingi fyrir skömmu.
    Hæstv. ráðherra notaði mestan hluta tíma síns til árása á Sjálfstfl. Hann sagði: Sjálfstæðismenn skilja ekki kall tímans. Sjálfstæðismenn gera sér ekki grein fyrir því hver þróunin er að verða í viðskiptaheiminum og í ríkisfjármálunum. Hæstv. ráðherra sem er prófessor og kennari við Háskóla Íslands setti sig í kennarastellinguna og sagði: Það sem er að gerast í heiminum, og allir vita, er að menn eru að draga úr ríkisforsjá, hverfa frá ríkiskapítalisma. Í öðru lagi eru menn að draga úr ríkisábyrgðum. Í þriðja lagi eru menn í ríkari mæli en áður að láta viðskiptabanka og almennar lánastofnanir um að lána á eigin ábyrgð og í fjórða lagi er það að gerast alls staðar að komið er í veg fyrir að fé sé látið af hendi rakna úr ríkissjóði án lagaboðs. Þetta voru þau atriði sem hann minntist á og sagði: Sjálfstfl. er nú að ganga gegn öllum þessum atriðum. Hann tútnaði hér út og sagði: Þetta eru alveg hrein ósköp, þessi flokkur

sem hefur innan sinna vébanda þingmenn sem hafa jafnvel lýst því yfir að þeir séu á móti bákninu, þessi þingflokkur sjálfstæðismanna skuli leyfa sér slíkt. Við skulum aðeins skoða þetta nánar. Það kemur nefnilega í ljós ef við lesum stjfrv., sem hæstv. fjmrh. hefur flutt hér inn á Alþingi, að allar þessar röksemdir, öll þessi atriði sem hæstv. ráðherra var að nefna í þessari ræðu eiga við um hans eigið frv. En auðvitað gerir hæstv. ráðherra ekki þær kröfur til sín sem hann gerir til sjálfstæðismanna, einfaldlega vegna þess að hæstv. ráðherra veit að það á að gera meiri kröfur til sjálfstæðismanna en þeirra sem hann starfar með. Það þykir hins vegar ekki mikill kjarkur og dugur í því að beita slíkum málflutningi sem beinist fyrst og fremst að því að gera kröfur til annarra en ekki til sjálfs sín. Það er t.d. furðulegt þegar maður veltir því fyrir sér hvernig stóð á þessari ræðu hæstv. ráðherra, hvernig stóð á því að hæstv. ráðherra flutti ekki þessa ræðu þegar hann flutti sína framsöguræðu fyrir frv. á sínum tíma. Hvernig stóð á því, þegar allir læsir menn sjá að öll þessi atriði sem hann lagðist gegn í brtt. eru í frv. sjálfu. Hann réðst ekkert á brtt. heldur hreinlega á þau meginatriði sem eru nú þegar í þessu stjfrv.
    Ég ætla að minna hæstv. ráðherra á, af því að ég heyri að hann hefur ekki lesið þetta frv., að þessi lög eru heimildarlög. Það er ljóst samkvæmt 5. gr. sem hv. síðasti ræðumaður las hér enn á ný fyrir hæstv. ráðherra að hæstv. ráðherra hefur öll tök á þessu máli og sú nefnd sem hann skipar, og hann skipar hana einn, hann meira að segja var svo harður í horn að taka í stjórnarsamvinnunni að hann féllst ekki á tillögu Alþfl. um að skipa nefndina öðruvísi. Þeir vildu skipa þessa nefnd öðruvísi. En hæstv. ráðherra vildi hafa alla mennina á sínum snærum. Til hvers? Til þess að láta ríkissjóð tapa? Nei, væntanlega, ef hann fylgir því sem hann er að boða sjálfur, ef hann fer eftir sínum eigin boðorðum, væntanlega til þess að lágmarka áhættu ríkissjóðs. Hæstv. ráðherra á ekki að komast upp með það að koma hér í ræðustól á hinu háa Alþingi og hafa slíka tilburði uppi sem hann hafði og kenna öðrum um það sem hann sjálfur hefur gert. Það liggur alveg ljóst fyrir að frv. sem við ræðum hér er stjfrv., frv. sem hæstv. ráðherra flutti sjálfur inn á Alþingi og það eina sem meiri hl. hv. nefndar hefur gert er að flytja nokkrar brtt. sem gætu orðið til þess að gera þessi lög sveigjanlegri og komið í veg fyrir það að lögin næðu ekki tilgangi sínum jafnvel gagnvart fyrirtækjum sem eru lífvænleg og eiga ágætar framtíðarhofur.
    En nú skulum við skoða, hv. þm., boðorðin, grundvallaratriðin sem hæstv. ráðherra var að segja að alls staðar væri verið að fylgja um þessar mundir. Draga úr ríkisforsjá, draga úr ríkisábyrgð, láta viðskiptabankana og lánastofnanir sjá um að lána á eigin ábyrgð og greiða ekki fé úr ríkissjóði nema lög mæli fyrir.
    Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Var hann í ríkisstjórn þegar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ákvað að setja lög um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina? Getur verið að sá sjóður njóti

ríkisábyrgðar að hluta? Það er von að hæstv. ráðherra hverfi úr þingsalnum. ( ÓÞÞ: Hann greiddi ekki atkvæði, ég man það vel.) Hann greiddi ekki atkvæði vegna þess að hann hefur ekki atkvæðisrétt og það er ekki hægt að fría sig af því, það væri lítilmannlegt að fría sig af því að hann hafi ekki greitt atkvæði með þessu vegna þess að hann hefur ekki atkvæðisrétt.
    Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Fylgir ríkisábyrgð vissum hluta af hlutdeildarskírteinum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar? Svarið er auðvitað: Já. Hver stóð að því að setja þessa löggjöf hér á hinu háa Alþingi? Var það Sjálfstfl.? Nei, það var hæstv. fjmrh. sem hér kemur í ræðustól og belgir sig út yfir þeim óforskömmugheitum af hálfu Sjálfstfl. að ætla að laga til það frv. sem hann hefur flutt hér inn á Alþingi. Kannast hæstv. ráðherra við það að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi lánað Verðjöfnunarsjóði talsvert fjármagn, nokkra milljarða, og að það fjármagn eigi eftir að falla á ríkissjóð, ekki að greiðast af þeim sem njóta lána úr Verðjöfnunarsjóðnum og framlaga þaðan? Kannast hæstv. ráðherra við það? Eða þorir hæstv. ráðherra ekki að kannast við það? Hvað er það annað en ríkisforsjá og ríkisafskipti sem hann er nú að mæla gegn? Það sem hæstv. ráðherra er að gera er að gera kröfur til annarra en
sjálfs sín í því augnmiði að slá ryki í augu manna og hefja sig upp yfir aðra. Hann, hvítþveginn maðurinn, hann hefur aldrei syndgað. Hann getur kastað steinum í aðra eins og sumir forðum. Skyldi nú hæstv. ráðherra nokkurn tímann hafa notað aukafjárveitingar án þess að fyrir fram lægju lög um það að verkefnin ættu að njóta þeirra fjármuna? Kannast hæstv. fjrmh. við það að hafa í lok ársins 1988 staðið að samþykkt fjárlagafrv. fyrir árið 1989 með tekjuafgang upp á 600 millj. kr.? Kannast hæstv. ráðherra við það? Þekkir einhver hv. þm. það að hæstv. ráðherra hafi staðið hér í þessum stól og sagt: Nú hef ég lagt á 7 milljarða kr. nýja skatta. Til hvers? Til þess að fjárlögin yrðu raunhæf. Hvað þýðir það? Það þýðir að nú má taka mark á fjárlögunum. Þau verða ekki eins slæm og í fyrra, nei, nú verður enginn halli á fjárlögum íslenska ríkisins því nú eru þau raunhæf. Og m.a.s. eiga þau að skila rekstrarafgangi upp á 600 millj. kr. Haldið þið að hæstv. ráðherra muni koma hér upp og endurtaka þessa ræðu sína? Á einhver von á því að hann komi hér upp og segi: Ég get kastað steinum í aðra því ég er syndlaus. Ég bjargaði ríkisfjármálunum. Ég greiði
ekki út aukafjárveitingar. Ég skilaði ríkissjóði með tekjuafgangi upp á 600 millj. kr. Haldið þið að hann muni gera það? Nei, hann hefur þvert á móti dreift hér út pappírum og flutt ræðu um að það hafi nú bara viljað svo til --- ekki var það honum að kenna, að sjálfsögðu var það öðrum að kenna --- að það varð halli á fjárlögum íslenska ríkisins. Og ekki bara 600 millj. kr. eins og afgangurinn átti að verða, heldur 6 milljarðar kr. Og auðvitað kom hann hvergi nærri, það var ekki honum að kenna. Syndlaus maðurinn, ekki fer hann að standa að þessum ósköpum. Þess vegna getur hann komið hér upp og kennt öðrum um. Hann

getur komið upp og sagt: Sjálfstæðismenn, þeir eru að standa að því sem ég mun aldrei gera, þ.e. að greiða fé úr ríkissjóði án lagaboðs, því ég er á móti of miklum ríkisafskiptum, ég er á móti of miklum ríkisábyrgðum.
    Það þarf ekki, virðulegur forseti, í raun og veru að hafa mörg fleiri orð um ræðu hæstv. ráðherra. Hún var dæmigerð fyrir mann sem veit ekki hvernig hann á að bregðast við þegar hann finnur að völdin eru að skríða frá honum. Þegar hann finnur að samstarfsmenn hans hafa gefist upp á að styðja þetta frv. og hafa reynt að koma viti í það frv. sem hér liggur fyrir og notað sinn þinglega rétt til þess að eiga um það samstarf við stjórnarandstöðuna.
    Það var auðvitað svo, virðulegur forseti, að menn hlutu að velta því verulega fyrir sér hvort grípa ætti til ríkisábyrgðar yfirleitt í þessum málum. Var það Sjálfstfl. sem stakk upp á því? Er það ekki Sjálfstfl. að kenna eða þakka að þetta frv. kom fram? Var það ekki Sjálfstfl. sem lagði til að það yrði ríkisábyrgð? Nei, hann situr hérna, hæstv. fjmrh., sá sem flutti inn á Alþingi frv. til laga um ábyrgðadeild í fiskeldinu og það var hann, í nafni hæstv. ríkisstjórnar, sem lagði til að það yrði ríkisábyrgð, sjálfskuldarábyrgð. Það voru ekki sjálfstæðismenn. Við sjálfstæðismenn veltum því hins vegar fyrir okkur hvort við ættum að styðja slíkt frv. Og eftir að hafa skoðað málið komumst við að raun um það að í þessu undantekningartilviki ættum við að gera það því þessi grein er í erfiðleikum, m.a. vegna þess að ekki hefur enn þá tekist að finna það fyrirkomulag að veita afurðalán fyrir lifandi fisk í landinu. Við viljum gera þetta um tímabundið skeið.
    Við viðurkennum það að hæstv. ráðherra á að hafa tögl og hagldir. Af því að hann ber ábyrgð á ríkisfjármálunum verður hann og hans menn að skoða það hvaða fyrirtæki eigi að njóta þessara fríðinda. En við ætlum að hjálpa til til þess að þessi lög verði þannig úr garði gerð að þau komi að gagni, en verði ekki gagnslaust tól í höndunum á hæstv. ráðherra. Þakkirnar hafa allir séð. Það voru ósvífnar skammir og vammir um okkur sjálfstæðismenn þegar við vildum gera þessi lög sveigjanlegri.
    Það er gamall siður og þekktur hjá þeim sem eru tiltölulega andlega skyldir hæstv. ráðherra, eða voru það a.m.k. hér áður, að þegar þeir þorðu ekki að skamma Kína þá skömmuðu þeir Albaníu. Ég hygg að þessi reiðilestur hæstv. ráðherra sem beindist að Sjálfstfl. hafi í raun og veru verið reiðilestur sem átti að beinast gegn samstarfsráðherrum hans í ríkisstjórn. Hann var að skammast út í það að hafa verið svikinn, eins og honum finnst hann hafi verið, því það var ekki farið að í einu og öllu eins og hann einn vildi í þessu máli.
    Hæstv. ráðherra verður að sætta sig við það að náðst hefur meiri hluti í hv. nefnd fyrir breytingum sem eru til þess gerðar að gera frv. skynsamlegra og það er ekki hægt fyrir hæstv. ráðherra að koma hér upp og kenna stjórnarandstöðunni, og þó einkum Sjálfstfl., um að hann beri ábyrgð á þeim grundvallaratriðum sem koma fram í því frv. sem

hann sjálfur flytur hér inn á Alþingi. Slíkar aðferðir eru lítilmannlegar.
    Það er allt í lagi fyrir hæstv. ráðherra að reyna að slá ryki í augu fólks hér á landi og kenna öðrum um. Okkar hlutverk sem tökum starf okkar alvarlega er það að reyna að átta okkur á því hvenær við eigum að flytja frv., hvenær við eigum að styðja stjfrv., hvenær við eigum að sýna andstöðu við slík frv., hvenær við eigum að flytja brtt. við fram komin frv. Það er alls ekki létt verk fyrir okkur að þurfa að taka ákvörðun um það að styðja frv. um
ríkisábyrgð en við höfum fært ítarleg rök fyrir því hvers vegna við gerum það í þetta sinn. Við höfum sýnt fram á það að það eina sem okkur hefur gengið til í okkar málflutningi og tillögugerð er að gera þessi lög þannig úr garði að þau séu sveigjanlegri og að þau komi að gagni. Og enn á ný ítreka ég að þetta eru heimildarlög. Hæstv. ráðherra skipar alla þá menn sem ráða því hvernig farið verður með regluna sem fylgt verður og hann getur ekki skotið sér undan þeim skyldum.
    Ég skora að lokum á hæstv. ráðherra að lesa þetta frv., kynna sér það ítarlega því ég efast um, eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra, að hann viti um hvað þetta frv. snýst. Ef hann veit það þá a.m.k. þykist hann ekki vita það. Og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra láti af þessari þembu og þumbaragangi og noti nú tækifærið, þá sjaldan hann hefur slíkt tækifæri, til að koma til móts við okkur í stjórnarandstöðunni, semja frið í þessu máli. Sú atvinnugrein sem hér er verið að fjalla um á annað og betra skilið en að við séum hér í stríði í langan tíma. Ég skora á hæstv. ráðherra að reyna nú á bak við tjöldin, því auðvitað er hann lipur og sveigjanlegur þegar hann vill, að beita sér fyrir því að laga þetta frv. þannig að það komi að því gagni sem ætlunin var þegar hann í upphafi lagði það fram á hinu háa Alþingi.