Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér hefur farið fram gagnmerk umræða um mikið mál. Og það vekur athygli að hæstv. fjmrh. er einn í salnum af hálfu ráðherra, en óneitanlega má segja að þetta mál tengist beint eða óbeint þremur öðrum hæstv. ráðherrum.
    Í fyrsta lagi forsrh. þar sem þetta mál fjallar um efnahagsmál og möguleika til hagvaxtar í landinu. Í annan stað viðskrh. sem ekki hefur treyst sér til að semja þær reglur að hægt sé að veita fiskeldinu afurðalán, vegna þess að hann hefur ekki treyst sér til að mæla með því að tekið sé veð í lifandi fiski. Og í þriðja lagi landbrh. sem greinin heyrir undir. Það getur varla talist sanngjarnt að fjmrh. einn þurfi að sitja undir umræðu um þessi mál.
    Nú er það svo að stundum eru daprir dagar hjá ríkisstjórn, stundum eru góðir dagar. Að mínum skilningi eru það góðir dagar hjá ríkisstjórn þegar stjórnarandstaðan lýsir yfir stuðningi við stjfrv. Og gerir það, jafnvel þó hægt sé að finna rök fyrir því, eins og hæstv. fjmrh. gat hér um áðan, að frv. gangi þvert á stefnu ákveðinna stjórnmálaflokka. Og ekki síður ef hægt er að finna rök fyrir því að í frv. megi einnig finna hliðstæðu þess sem gert var þegar Atvinnutryggingarsjóður og Hlutafjársjóður voru stofnaðir með ríkisábyrgð vegna nauðsynjar íslenskrar þjóðar. Og það er líka að því leyti stór dagur í þessum efnum að átta sig á því að Kvennalistinn, sem vissulega verður ekki borinn þeim sökum að vera aðaleigandi fiskvinnslufyrirtækja í landinu, eða eiga svo stórra hagsmuna að gæta í fiskeldinu almennt að nokkrum heilvita manni detti í hug að halla orði á þann veg að slíkt gæti verið ástæða fyrir þeirra afstöðu, einnig má segja að það hefði kannski verið auðvelt að stökkva nú til hliðar og segja: Það er best að þeir beri alla ábyrgð á þessu eins og öðru. En það er ekki gert, heldur lýst yfir stuðningi.
    Þetta er nú eiginlega að fá óskabyr. Og ég á eftir að verða alvarlega hissa ef sú ríkisstjórn sem siglir þann óskabyr í þinginu lætur sér detta í hug að snúa skútunni við og fara að sigla beitivind á móti. Það er nú að vera elskur að barningnum, þó ekki sé meira sagt. Vitandi að öll völd í málinu eru eftir sem áður í höndum fjmrn. En ég get vel tekið undir það að auðvitað er það takmarkað í hverju við getum tekið veð. Ég minnist þess sem þingmaður hér á Alþingi að ég treysti mér ekki til að taka veð í sokknu skipi á Mýrdalssandi, þó mér væri sagt að farmurinn væri dýr. En hæstv. fjmrh. gæti farið yfir það hverjir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar treystu sér í veðtökuna forðum. Það voru glaðbeittir menn sem töldu sjálfsagt að taka veð á þeim tíma.
    Ég var mjög hikandi að treysta mér til þess að styðja jafnrúmar heimildir og eru í dag til að greiða laun þegar fyrirtæki verða gjaldþrota. Ekki vegna þess að ég teldi ekki að verður væri verkamaður launa sinna, heldur hins að ég óttaðist að þetta yrði misnotað. Og sama verð ég að segja um hinar stóru ríkisábyrgðir sem settar voru á með húsbréfakerfinu.

Ég óttaðist einnig að svo gæti farið að þó nokkuð félli á ríkið og þetta yrði misnotað. En í hvaða stöðu er íslensk þjóð í dag? Ég vil leyfa mér að lesa upp úr frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 á bls. 217. Þar stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Horfur í efnahagsmálum og ríkisfjármálum 1990. Nú eru horfur á að árið 1990 verði þriðja samdráttarárið í röð, einkum vegna þess að nauðsynlegt verður að draga úr sókn í fiskstofna. Þannig er gert ráð fyrir í þjóðhagsáætlun að þorskafli verði um 300 þús. tonn, samanborið við áætlaðan 340 þús. tonna afla í ár. Reiknað er með að heildarafli á föstu verði geti orðið um 6,5% minni en í ár, en að útflutningsframleiðsla sjávarafurða minnki minna, eða um 4,5%, vegna aukinnar vinnslu sjávarafurða. Útflutningsframleiðsla er talin muni dragast enn minna saman, eða 1,7%, einkum vegna mikillar aukningar á framleiðslu eldisfisks til útflutnings.``
    Ef þessi kafli er lesinn allur kemur í ljós að eina vonarglætan sem menn setja fram í aukinni þjóðarframleiðslu á þessu ári byggist á fiskeldinu. Og það væri alvarlegt mál ef í þriðja mánuði ársins kæmi það nú fram að sá sem þennan texta samdi og sendi inn í þing til að efla kjark okkar stjórnarsinna, til að þora að sigla nokkuð djarft í ríkisfjármálunum, hann boði það nú að það sé ekki gróða að hafa út úr þessu, þetta sé búið spil. Hins vegar vilji menn fara í ríkisábyrgðir upp á 37% til þess að minnka eitthvað hjá þeim tapið.
    Ég verð að segja eins og er að mér fyndist slík tíðindi það stór að sanngjarnt væri að ríkisstjórnin öll væri við. Ég held aftur á móti að sem betur fer horfi nú um sumt á betri veginn miðað við það sem hér stendur. Ég trúi því að fiskverð hafi hækkað þannig að við séum að sigla upp úr öldudalnum. Og ég tek ekki þátt í því að afskrifa þá möguleika sem íslensk þjóð á í fiskeldi, ég trúi enn að það sem stendur í þessu fjárlagafrv. sé rétt. En það skal skýrt fram tekið að því eins höfum við arð af fiskeldinu að við ölum fiskinn. Og á Hvanneyri var það kennt að eldi væri það sem skepnurnar fengju fram yfir viðhaldsfóður. Það er nefnilega stór munur að halda honum lifandi fram á haust og hinu, að láta hann stækka. Til að hafa af þessu arð verður hann að stækka. Ég held því að í þessu máli reyni mjög á fjmrh. og ég
held að þeir sem hér eru ekki mættir í salnum séu kannski aðilarnir sem hafa á honum legið að ganga ekki lengra. Ég vil nefnilega ekki trúa því að menn átti sig ekki á því að fiskeldið er í dag sá möguleiki, ásamt ferðamannaþjónustu og orkufrekum iðnaði, sem við eigum sem bestu valkosti í íslensku atvinnulífi.
    Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að það fór margur af stað í þessum efnum með minna fé og meira áræði en sérfræðingar hefðu talið rétt hlutfall þar á milli. Eigum við að stilla þessum mönnum þannig upp í dag að þeir fái ekki lán hjá íslenskum bönkum, þeir fái ekki lán í erlendum bönkum, en það eina sem þeir geti gert sé að kaupa sér flugfar til London, til kóngsins Kaupmannahafnar, til Svíþjóðar og bjóðast til að selja sitt hlutafé? Er

það innlend atvinnustefna sem stillir mönnum upp fyrir framan þessa valkosti? Þetta er það sem þeim er frjálst að lögum í dag. Ætlum við, vegna þröngsýni, að færa þessa atvinnugrein í hendurnar á útlendingunum fyrir ákaflega hagstæðan prís vegna þess að menn eru í þeirri stöðu að tapa öllu eða selja það fyrir slikk? Það er ekki innlend atvinnustefna að standa þannig að málum. Og það er einmitt þessi alvara sem ég hygg að hafi haft áhrif á það að Kvennalistinn, þrátt fyrir gagnrýni á forsögu málsins, fylkir sér um björgunaraðgerðir og ég vil taka það fram að ég met þá afstöðu.
    Ég ætla aftur á móti að segja það hér og nú að ég heyrði einu sinni sögu af hæstv. fjmrh. Þá hafði hann látið falla orð um það á Ísafirði að sem innfæddur Ísfirðingur gæti ekki gengið upp annað en hann færi í hærri lyftuna á Seljalandsdalnum og renndi sér þar niður. Þeir sem hafa séð aðstæður vita að þetta er snarbratt. Ég hef aldrei álpast þarna upp, það segi ég mönnum hér og nú. Og hæstv. fjmrh. stóð við stóru orðin. Hann fór upp og horfði yfir landið. Nú átti hann val að standa við stóru orðin eða láta vit ráða. Hann spennti af sér skíðin og hélt niður brekkuna. Ég hef alltaf tekið þetta sem dæmi um það að þar færi maður sem léti skynsemina ráða, hvað sem háðsglósum og öðru liði. Og það er nú einu sinni svo að það reynir á menn þegar þeir sitja uppi með athugasemdir fjöldans og andstæðinga, þá reynir á það hvort þeir láta vitið ráða eða hvort þeir láta kannski misheppnaðar fyrri yfirlýsingar ráða.