Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Örfá orð.
    Það er fyrst að bankakerfið hugsar aðeins um hagsmuni bankanna. Fjmrh. verður að sjálfsögðu að hugsa um hagsmuni ríkissjóðs en hann verður jafnframt að hugsa um þjóðarhag og hann verður jafnframt að gera sér grein fyrir því í hvaða stöðu ráðherrar landsins eru búnir að koma Framkvæmdasjóði Íslands eftir að þeir tóku við stjórn hans.
    Annað. Ég geri ráð fyrir að ríkissjóður verði seint rekinn ef engir borga skatta og ef það verður ekki stöðvað með því að ná fram efnahagslegum árangri í landinu að við töpum jafnmiklu af fólki úr landi og verið hefur að undanförnu er hætt við að erfitt verði að fá þær greiðslur í ríkissjóð sem við þurfum.
    Ég hef vissulega hrifist af því sem Össur Skarphéðinsson hefur skrifað um bleikjueldi og ég tel það glæsilegan valkost í íslensku atvinnulífi, en bleikjan er sennilega sá fiskurinn sem bestur væri til hafbeitar.
    Ég undirstrika það sérstaklega að í því frv. sem flutt var af fjvn. eru ákvæði í ákveðinni grein um hvernig bregðast skuli við ef fyrirvaralausar greiðslur falla á ríkissjóð, og að halda því fram að þetta sé eina ríkisábyrgðin sem hafi verið samþykkt án þess að upphæðin sé nefnd er ekki rétt. Hvað með stóra málið, húsbréfakerfið? Hvaða upphæð var samþykkt þar?
    Annað. Varðandi það að samþykkt hafi verið að engu mætti breyta. Ég veit ekki hver hefur tilkynnt hæstv. fjmrh. að þannig væru mál afgreidd í þingflokki Framsfl. Við höfum ávallt sett fyrirvara um það að menn mundu fylgja brtt. ef þeir teldu að þær væru skynsamlegri, enda er það stórfurðulegt ef mönnum dettur í hug að hægt sé að ganga þannig í þessi verk að Alþingi Íslendinga verði nánast óvirkt, það sé bara til að rétta upp hönd með eða á móti, umræðan fari öll fram utan Alþingis. Ég tek aftur á móti undir það að
það þarf vissulega að gæta heiðarleika í samskiptum, en það kemur þá líka fram hvernig þeir trúnaðarmenn sem menn hafa kosið til starfa hér í þinginu standa að því að gæta þess réttlætis sem þeim ber og mér finst kannski að hægt sé að ræða þau mál nokkuð lengi. En ég ætla að bæta þessu við: Ég vil skoða ýmsa möguleika eins og t.d. hugsanlega þann möguleika að slaka á og hafa óbreytt orðalag um hafbeitina því að mér skilst að ráðherra sé það þverast um geð af öllu, en ég tek ekki þátt í því að hafa lánað til fiskeldis úr sjóðum ríkisins eins og Byggðastofnun og standa svo hér upp á Alþingi og koma í veg fyrir að þessi fyrirtæki geti starfað eðlilega. Ég tek ekki þátt í því og ég trúi því ekki að það sé þjóðarhagur ef menn vinna þannig.