Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Þessar umræður hafa nú staðið nokkuð lengi og fram yfir þann tíma sem þeim var ætlaður og ég mun þess vegna reyna að stytta mitt mál eftir föngum. Ég veit að aðrir hv. þm. vilja gjarnan koma sínum sjónarmiðum á framfæri og mér er ljóst að mikilvægt er að ljúka þessari umræðu hér í kvöld.
    Það var mikil varnarræða sem hæstv. ráðherra flutti hér, sú seinni í þessari umræðu, og það var áberandi í þeirri umræðu hve lítið hann virtist gera úr hlutverki þeirra stjórnarnefndarmanna sem hann á sjálfur að skipa og eiga skv. 5. gr. laganna að rækja mikilvægt hlutverk í þessum málum öllum. Þetta sjónarmið hæstv. ráðherra er þeim mun einkennilegra fyrir þær sakir að hann hefur lagt ofurkapp á það í undirbúningi málsins að allir þeir þrír stjórnarnefndarmenn sem skipaðir verða til starfsins séu skipaðir af hæstv. fjmrh. og undir það hafa þeir tekið sem standa að meirihlutaálitinu. Ef skoðaður er texti grg. með frv. sést að vakað hefur fyrir hæstv. ráðherra að skipa til þessara starfa ,,harðsvíraða nagla``, eins og hann sjálfur komst að orði, því að á bls. 4 í grg. segir, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Stjórnarnefnd gegnir mikilvægu hlutverki í þessu tillögum, þar sem gert er ráð fyrir að hún samþykki fyrirtæki inn í kerfið á grundvelli ítarlegs mats á stöðu fyrirtækis, rekstraröryggi og því hvort fyrirtækið hafi rekstrargrundvöll um lengri tíma litið.`` Ég vil benda hæstv. ráðherra á að þessi regla sem þarna er sett er skrifuð af hæstv. fjmrh. og engum hefur dottið í hug að breyta henni og skiptir þá engu máli hvort sjálfskuldarábyrgðin er 37,5% eða 50%. Þetta verður hæstv. fjmrh. auðvitað að viðurkenna.
    Hæstv. ráðherra hefur sakað okkur, flutningsmenn breytingartillagnanna, um það að við höfum ekki skoðað þetta mál á ,,hörðum peningalegum grundvelli`` eins
og hann orðaði það í sinni ræðu. Hann hefur sakað okkur um það að hafa ekki lýst því í okkar ræðum hvað þetta kostaði ríkissjóð. Ég kannast ekki við að hæstv. ráðherra hafi, og þá hvorki í framsöguræðu sinni né heldur í þeim báðum ræðum sem hann hefur flutt hér í kvöld og í dag, sagt frá því hvað sjálft frv. kostar ríkissjóð. Málið hefur ekkert snúist um það og auðvitað verður hæstv. ráðherra að gera sömu kröfur til sjálfs sín eins og hann gerir til annarra. Það er út í bláinn að koma hér upp í ræðustól og segja að við eigum að leggja fram tölur um það hvað þetta kostar ríkissjóð þegar hann hefur sjálfur ekki gert það, ekki í þeim þremur löngu ræðum sem hann hefur flutt. ( Fjmrh.: Sú fyrsta var nú mjög stutt.) Já, sú fyrsta var reyndar styttri.
    Hæstv. ráðherra sagðist sakna þess að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, 8. þm. Reykv., skyldi ekki sitja í þessari hv. deild, það hefði verið gaman að spyrja hann. Ég get að nokkru leyti svarað þeim spurningum sem hann vildi beina til hv. þm. Í fyrsta

lagi veit ég að fyrirtæki það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson stendur að mun ekki sækja um sjálfskuldarábyrgð ábyrgðadeildar fiskeldislána þannig að það liggur þegar fyrir. Í öðru lagi get ég sagt hæstv. ráðherra frá því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson styður þær brtt. sem hér eru til umræðu. Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að það fengu alls ekki öll fyrirtækin sem sóttu um ábyrgð Tryggingasjóðs fiskeldislána þá ábyrgð sem þar er hægt að leita. Þetta veit auðvitað hæstv. ráðherra.
    Hæstv. ráðherra vék síðan að því í sinni ræðu að það væri mótsögn í því að flytja tillögur á Alþingi um að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum og þeirri afstöðu sem kemur fram í þessum tillöguflutningi. Þetta er auðvitað alrangt. Við hljótum að gera sömu arðsemiskröfu til viðskiptabankanna hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða annarra aðila. Þetta veit auðvitað hæstv. ráðherra þó að hann kjósi að gera sér mat úr þessu sem allir sjá að er út í bláinn. ( Forseti: Klukkan er nú orðin 7. Forseti talaði um að fundur stæði ekki lengur en til 7. Á mælendaskrá eru enn tveir hv. þm. Forseti telur hins vegar mikils virði að standa við það loforð að atkvæðagreiðsla geti farið fram kl. 2 á morgun. Það hefur verið hringt í hv. þm. sérstaklega út af þeirri atkvæðagreiðslu og ef þeir sem eiga eftir að tala og hv. ræðumaður sem nú í stól stendur treystast til þess að ljúka máli sínu á tiltölulega skömmum tíma mun forseti framlengja þennan fund í 10 mínútur en ekki sekúndu lengur.) Virðulegur forseti. Ég mun senn ljúka mínu máli.
    Það kemur í ljós í ræðum hæstv. ráðherra, þegar hann ræddi um drengskap í stjórnarsamstarfinu, hvers vegna hann er svona reiður og hvers vegna hann berst svo um á hæl og hnakka. Ég ætla ekki að leggja dóm á vinnubrögð núv. stjórnarflokka, en þetta virðist vera meginástæðan fyrir þeim árásum sem hann hefur stundað hér á tillögumenn því að öll rökin sem komu fram hjá hæstv. ráðherra voru rök gegn því frv. sem hann sjálfur hefur lagt fram hér á hinu háa Alþingi.
    Ég vil að allra síðustu segja það, virðulegur forseti, að ég fagna því þó að hæstv. ráðherra skyldi hafa í lok ræðu sinnar opnað dyr fyrir því að hægt sé að ná samkomulagi um þetta mikilvæga mál og ég vonast til að þess verði freistað áður en gengið verður til atkvæða um þetta mál kl. 2 á morgun.