Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég get tekið undir flest það sem frsm. sagði um þetta mál og nauðsyn þess að sjá til þess að börnum sé hvorki ofgert með vinnu né þau sett á þau hættusvæði þar sem megi búast við að þau geti farið sér að voða. En þegar verið er að setja ákveðnar reglur eða lög á Íslandi tel ég að það sé nauðsynlegt að við bindum okkur ekki mjög við fyrirmyndir frá öðrum löndum vegna þess að okkar þjóðfélag er á þann hátt að víða er það raunverulega kannski mikið atriði að börn og unglingar fái og megi, án þess að foreldrar eða aðstandendur séu þar í einu eða neinu að brjóta reglur, sinna atvinnurekstri og ýmiss konar verkum sem þarf að vinna. Ég vil t.d. benda á það að ég vildi ekki segja við ungling sem væri að leita eftir skiprúmi, sem er hættulegt starf og það hættulegasta starf sem við Íslendingar förum í, að hann þurfi að verða fullra 18 ára þegar hann leitar til þess starfs. Ég vil líka nefna að smalamennska á Íslandi er vitaskuld hættuleg vinna en ekkert er sjálfsagðara en leyfa unglingunum að taka þátt í þeirri vinnu að ákveðnum mörkum.
    Og um ýmislegt annað í hinni almennu vinnu á Íslandi, ég er þá ekki að tala hér um verksmiðjuvinnu eða þess háttar, má ekki setja þannig reglur. Ég er ekki viss um að það felist kannski endilega í þessu. Ég vil þó láta þetta koma fram og vara við því að foreldrar og umsjónarmenn unglinga þurfi ekki að finna fyrir því að þeir séu að brjóta lög eða reglur þegar verið er að láta unglinga taka þátt í sameiginlegu starfi fjölskyldunnar undir sumum kringumstæðum, eins og ég nefndi í sambandi við skráningu til sjóstarfa, að þar þurfi að fylla einhvern ákveðinn aldur langt fram yfir það sem áður var talið, langt fram yfir fermingarár. Oft var það nú þannig, og ég held að það hafi ekki orðið neinum til skaða, að eftir ferminguna var fyrsta verkið að láta skrá sig í skipsrúm og fara á síld eða fara á sjó á einhvern annan máta. 14--15 ára unglingar geta oft sinnt slíkum störfum, þó þau séu hættuleg, alveg á sama máta og fullorðinn maður og ég held að í ótalmörgum tilfellum hafi unglingarnir gott af því. Og skólafólkið hefur ábyggilega gott af því að stunda sumarvinnu á þann máta sem ég er hér að nefna, annaðhvort til sveita eða sjávar. Það er mikið heilbrigðara fyrir þetta fólk að stunda slíka vinnu og hafa þá heimild til þess án þess að vera að brjóta reglugerðir en að vera að vinna alls konar aukastörf þegar skólinn stendur yfir eins og nú tíðkast miklu meira en áður var.