Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Efni þess frv. sem hér liggur fyrir hefur oft verið rætt, hvernig með skuli fara. Ég bendi á að þau ákvæði sem hér er talað um eru í kjarasamningum. Í kjarasamningum eru ákvæði um það að unglingum innan 16 ára er bannað að vinna á hættulegum vélum, sem þá eru tilgreindar mjög tæmandi. Ég held því reyndar fram að ástandið í þessum efnum hafi batnað mikið. Það hafi framkallast vilji fyrir því að koma í veg fyrir slys því að slys voru nokkuð tíð hjá börnum á þessum aldri.
    Ég minnist þess að fyrir eitthvað tveim vikum síðan var ég á vinnustaðafundi og þá sem formaður verkalýðsfélags að ræða um ýmis mál. Þar kom fram að einn drengurinn þar, 15 ára gamall, var mikið á roðflettingarvél. Ég upplýsti það að þetta væri algerlega bannað og einhverjir vissu það þarna. Eftir það ræddi ég við vinnuveitandann og varð hann alveg æfur út af því að drengurinn skyldi gera þetta vegna þess að honum hafði verið margbannað að fara á þessar vélar. Tilfellið er að oft er þetta erfitt agaspursmál að því leyti til að krakkar sækja mjög í að vinna á svona vélum. Og ég býst við að svo verði áfram þrátt fyrir að við lögfestum þetta ákvæði. Það hefur verið býsna mikil barátta gegn því að unglingar starfi á svona vélum og ég tel að sú barátta hafi skilað árangri.
    Ég tel að það muni þó vera til góðs að lögfesta þennan þátt. En eins og hér kom fram áðan verður að skilgreina við hvað er átt. Ég býst við að ég hefði orðið alveg æfur þegar ég var á þessum aldri ef ég hefði aldurs vegna ekki mátt fara á sjó. Hygg ég að svo sé farið með marga aðra.
    Þetta mál var rætt í stjórn Vinnueftirlitsins fyrir nokkru síðan, reyndar í tilefni af því að stórslys hafði átt sér stað suður í Sandgerði þar sem stúlka missti framan af hendi, sem var reyndar grædd á hana aftur. Þá voru menn að ræða um endurskoðun laga um vinnuvernd líka. Þau voru með sólarlagsákvæði og áttu að gilda, ég man ekki hvort það voru fimm eða tvö ár. Mönnum kom saman um það þar að fresta þessu til þeirrar endurskoðunar. En ég vil samt leggja áherslu á að fyllsta ástæða er til að þessi ákvæði verði lögfest. Ég tel að þau verði til bóta en það þarf að skoða ýmsa þætti í þessu í nefnd. Ég þakka hv. flm. fyrir að hafa hreyft þessu máli og tel að sú hugsun sem fylgir frv. verði að komast í lög.