Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi koma hér upp og lýsa stuðningi mínum við tilgang þessa frv. Ég tel það gott mál að finna einhverjar ráðstafanir eða einhver ráð til þess að koma í veg fyrir alvarleg vinnuslys vegna vinnu barna og unglinga.
    Það hefur komið fram hér að börn og unglingar á Íslandi vinna mikið. Þau eru alin upp við mikla vinnu. Þau venjast því frá blautu barnsbeini að vinna, a.m.k. yfir sumartímann og foreldrar sækjast eftir því að koma börnum í sveit. Þetta er sá hugsunarháttur sem ríkir hjá okkur að það sé þroskandi fyrir börnin að læra snemma að taka til hendi. Ég hugsa að við séum öll sammála um það. Skólabörn á Íslandi hafa lengra sumarleyfi en gerist víða annars staðar þó það hafi að vísu styst á undanförnum árum og það er áreiðanlega gott og þroskandi fyrir börn að taka til hendi. Og ekki verra þótt þau læri snemma að meta vinnuna og það sem þau fá greitt fyrir hana. Það er ekki allt saman sjálfgert. Þau þurfa stundum að vinna fyrir hlutunum sjálf, enda geri ég ráð fyrir því að flm. þessa frv. séu mér sammála í því efni.
    Á hinn bóginn hefur það allt of oft gerst að börn og unglingar verða fyrir slysum þegar þau eru við vinnu. Við þekkjum dæmi þess, jafnvel þegar börn eru send í sveit til að öðlast þroska við vinnu á sveitaheimilum. Þar eru líka hættur og því miður hafa orðið hörmuleg slys af þeim sökum þar sem börn hafa lent í dráttarvélaslysum, svo að dæmi séu tekin. Og eins og kom fram áðan er erfitt að ráða við fríska unglinga sem hafa áhuga á því að vinna á vélum, sláttuvélum, traktorum eða hvað nú er ef við tökum sveitastörfin sem dæmi. Þess vegna hafði ég hugsað mér að spyrja hvernig þetta kæmi inn í kjarasamninga en hv. 4. þm. Reykn. kom einmitt inn á þann þátt hér, að þetta væri í kjarasamningum hvernig börnin mættu vinna og það er auðvitað af hinu góða.
    Ég vildi aðeins lýsa stuðningi mínum við meginhugmyndir að baki þessu frv. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar og hef því tækifæri til að fylgjast með því hvaða afgreiðslu það fær í félmn. Ég hef ekki alveg gert mér grein fyrir því hvernig stjórn Vinnueftirlitsins getur fylgt því eftir, eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Suðurl., en ég vil sem sagt í stórum dráttum lýsa stuðningi mínum við meginefni frv.