Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt viðbót. Ég vil geta þess að þáttur í því að koma í veg fyrir vinnu unglinga undir 16 ára aldri á hættulegum vélum er að vinnuveitandinn getur ekki tryggt unglinga undir þessum aldri sem fullgildan starfsmann og því lenda hugsanlegar skaðabætur beint á atvinnurekandanum. Það á þátt í því að þessa hefur verið frekar gætt.
    Það var ýjað að því að stjórn Vinnueftirlitsins gæti ekki sett reglur um þetta. Ég mótmæli því harðlega. Ég held að það sé alveg fullfært um það og bendi á að við Vinnueftirlitið starfar fólk sem þekkir mjög vel til verka. Annað er líka að engar reglugerðir eða reglur eru þar settar fram öðruvísi en þær hafi verið yfirfarnar af þeim sem gerst til þekkja. Auðvitað hafa menn ekki vit á öllu frekar en við hér í Alþingi og því er leitað til vísra manna um aðstoð í þeim efnum. Í stjórninni eiga sæti fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni annars vegar og vinnuveitendum hins vegar og síðan ríkinu.
    Ég vil líka geta þess af því að sá misskilningur hefur oft verið hér uppi í Alþingi að Vinnueftirlitið væri dýrt. Það hefur vaxið mjög á síðustu árum, en það þarf að koma fram að ekki fer ein einasta króna úr ríkissjóði til Vinnueftirlitsins. Allar tekjur sem Vinnueftirlitið fær eru af skoðunargjöldum og öðrum gjöldum. Stofnunin stendur því alveg fyrir sínu peningalega séð. En ég fullyrði að Vinnueftirlitinu er mjög vel treystandi til þess að setja fram reglur í þessum efnum. Þær verða ekki settar fram öðruvísi en að yfirsýn bestu manna, eins og einhvern tíma var sagt.