Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni og lagt þessu máli lið og tekið undir erindi þess. Sérstaklega vil ég þakka hv. 4. þm. Reykn. sem hefur mikla reynslu á sviði vinnuverndar og er því mjög vel hæfur til að gefa okkur upplýsingar um það hvernig framkvæmd þessara mála er í raun. Ég vil segja hér nokkur orð til að svara sumum þeirra athugasemda sem komu fram.
    Ég vil undirstrika það að hér er ekki verið að leggja til eða reyna að koma í veg fyrir að börn njóti þeirrar dýrmætu reynslu sem er fólgin í því að læra í þeim skóla sem er skóli lífsins. En þar er vinnan einmitt drjúgur kennari. Hér er hins vegar fyrst og fremst verið að leggja til, af gefnu og ærnu tilefni, að vinnuálag verði ekki of þungt á börnum eða að þau séu sett til starfa við hættulegar vélar eða við hættulegar aðstæður. Eins og kom fram í máli mínu áðan eru allt of mörg dæmi þess að mjög alvarleg slys hafa hlotist af. Ég valdi þá leið að lýsa ekki slíkum slysum með dæmum þó að ástæða hefði kannski verið til einmitt til að varpa ljósi á það hvers konar aðstæður ég ætti við. Ég get nefnt sem dæmi unglinga sem hafa hreinlega misst útlimi sem ekki var hægt að græða á aftur, eins og kom fram hér áðan, ýmist handleggi eða fótleggi eða hluta af útlimum við vinnu á vélum í frystihúsum eða við gatnagerð eða ýmis önnur störf. Ég get nefnt dæmi um réttindalausa unglinga sem aka lyfturum í lagervinnu og valda þannig slysum og örkumlum á öðrum. Ég get nefnt dæmi um 13--14 ára ungmenni sem eru ráðin sem ódýr vinnukraftur á skemmtistöðum við að bera glös, sem eru ýmist tóm eða hálffull af víni, fram í eldhús fram eftir nóttu. Þarna er auðvitað enginn staður fyrir unglinga. Þetta mætti flokka undir hættulegar aðstæður. Þannig mætti nefna mörg tilvik um það hvar unglingar eða börn eru sett til vinnu þar sem þau eiga í raun ekki heima.
    Það kom fram í máli hv. 4. þm. Suðurl. að rétt væri að setja eftirlit með vinnu barna og ungmenna í hendur atvinnurekenda. En, eins og reyndar kom fram í máli hv. 4. þm. Reykn., þá tel ég vera ýmislegt við það að athuga. Auðvitað getur eftirlit verið með ýmsum hætti hjá vinnuveitanda hverju sinni, allt eftir því hverja hann álítur vera helstu hagsmuni sína.
    Þá ber þess að geta líka að vinnuveitendur og verkstjórar fara eftir settum reglum sem Vinnueftirlitið hefur sett um vinnu fullorðinna og það sama hlýtur einnig að gerast með börn og ungmenni. Um þau hljóta einnig að gilda reglur sem settar eru og samþykktar af aðilum vinnumarkaðarins og Vinnueftirlitið sér um að framfylgja. Þessu eftirliti er framfylgt með reglubundnum skoðunum hjá fyrirtækjum til að kanna hvernig starfsemin fer fram og hvaða vélar eru í notkun og hverjir fara með þær vélar. Þetta er auðvitað matsatriði, margt af þessu, og viðfangsefni Vinnueftirlitsins á hverjum degi er að meta aðstæður og hættur sem bundnar eru við ákveðna vinnu. Ég vil leggja áherslu á það líka sem

kom fram í máli hv. 4. þm. Reykn., börn eru ekki metin eins og fullorðnir þegar kemur að bótum. Það er þá undir vinnuveitanda komið hverju sinni hvort hann er borgunarmaður fyrir þeim bótum sem börn eiga rétt á.
    Annar þáttur er líka sem ég vil vekja athygli á og Vinnueftirlitið hefur reyndar kært. Það er sívaxandi tilhneiging til að ráða bæði ungmenni og aðra sem verktaka til ákveðinna verkefna. Það er dæmi þess að unglingi var ráðlagt af vinnuveitanda að ráða sig sem verktaka við vinnu með vél sem var vanbúin og unglingurinn kunni ekkert með að fara. Hann hafði mjög litla reynslu og lítið vit á því hvaða hættur fólust í því verkefni sem hann tók að sér. Hann varð fyrir alvarlegu slysi þar sem hann skaddaðist á auga, líklega varanlega, og hefur enga tryggingu vegna þess að hann gætti þess ekki að tryggja sig sem skyldi. Vinnueftirlitið hefur reyndar kært þennan vinnuveitanda fyrir vítaverða vanrækslu.
    Sú reglugerð sem hv. 4. þm. Suðurl. vitnaði til og er hér með sem fylgiskjal og greinir skýrt á um það sem piltum leyfist og það sem stúlkum leyfist ber þess kannski einmitt merki hve gömul hún er og þess að hún þarfnast endurskoðunar.
    Hv. 6. þm. Reykn. minntist á dráttarvélarslysin sem hafa verið mörg, allt of mörg og hörmuleg. Aðbúnaður á dráttarvélum hefur verið lagfærður þannig að þær eru öruggari en þær voru. Samt sem áður þurfa vitanlega að gilda ákveðnar reglur um það hverjir mega nýta þær vélar og hvernig.
    Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um málið hér í þessari 1. umr. en ég vil enn og aftur þakka fyrir þær góðu undirtektir sem það hefur fengið og vonast til að það nái fram að ganga sem fyrst því ég held það verði til mikilla bóta og til þess að tryggja öryggi barna og ungmenna.