Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Friðrik Sophusson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég hef óskað eftir því að taka hér til máls um atkvæðagreiðsluna en 2. umr. um þetta mál, sem er 265. mál, lauk í gærkvöldi. Frá því að umræðunni lauk hefur verið unnið að samkomulagi á milli annars vegar flm. brtt., sem er að finna á þskj. 669, og hæstv. fjmrh. hins vegar. Niðurstaðan er sú að flm. brtt. eru tilbúnir til þess að kalla aftur nokkrar af þeim brtt. sem fyrir liggja á þskj. 669. Við 2. gr. verður kölluð aftur till. sem merkt er b. Við 3. gr. verða kallaðar aftur till. sem merktar eru c, d og e, en tekið skal fram að till. sem merktar eru c og d eru kallaðar aftur vegna þess að efnisatriðum þeirra þarf að breyta við 3. umr. málsins þar sem e-liður er afturkallaður.
    Loks hafa flm. brtt. fallist á að kalla aftur 4. brtt. sem er við 6. gr. frv. Þetta hafa flm. brtt. fallist á að kalla aftur í trausti þess að þannig hafi náðst víðtækt samkomulag hér í hv. deild um afgreiðslu málsins með skjótum hætti og að sem flestir hv. þm. deildarinnar geti þá greitt öðrum brtt. sem fyrir liggja á þskj. 669, atkvæði sitt.
    Ég vil, virðulegur forseti, fyrir hönd tillögumanna fagna því að þetta samkomulag hefur orðið og leyfi mér að vona að það verði til þess að málið fái hraða og góða afgreiðslu í gegnum þingið.