Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. allshn. deildarinnar fyrir að hafa leyft mér að taka þátt í störfum nefndarinnar við meðferð þessa máls. Ég á ekki sæti þar en vil þakka nefndarmönnum ánægjulegt samstarf. Þó við höfum ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu þá var engu að síður ánægjulegt að starfa með nefndinni.
    Kvennalistakonur hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á úrbætur í umhverfismálum og verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Þær hafa alla tíð reynt að vinna því máli brautargengi á Alþingi og lögðu m.a. fram ítarlegar tillögur um það efni á 111. löggjafarþingi þar sem fram kemur hvernig þær vilja sjá þessum málum borgið í slíku ráðuneyti.
    Þar var lagt til að stofnað yrði sérstakt ráðuneyti umhverfismála sem fari með rannsóknir og stjórn náttúruauðlinda, náttúruvernd, umhverfisfræðslu, skipulagsmál, mengunarvarnir og alþjóðleg samskipti um umhverfismál. Undir það ráðuneyti var síðan gert ráð fyrir að flytja stofnanir eða deildir sem nú starfa á þessum sviðum undir stjórn ýmissa ráðuneyta.
    Umhverfismálin eru stór og viðamikill málaflokkur sem nauðsynlegt er að skipi verðugan sess í stjórnkerfi landsins. Umhverfismál á Íslandi falla að
einhverju leyti undir flestöll ráðuneytin og það hefur orðið til þess að um mikla óstjórn og skörun er að ræða. Þess vegna teljum við mjög aðkallandi að öll þessi verkefni falli undir eitt ráðuneyti. Við höfum líka lagt áherslu á að aðskilja beri mat og eftirlit með auðlindum landsins annars vegar og hagnýtingu auðlinda hins vegar. Hið síðarnefnda á heima í ráðuneytum atvinnumála en hið fyrrnefnda í sérstöku ráðuneyti umhverfismála. Á þann hátt verður umfjöllun og ákvarðanataka um nýtingu auðlindanna opin og síður hætta á hagsmunatengslum við eftirlit. Þetta þýðir þó ekki að ábyrgðin sé tekin af þeim sem nýta auðlindina sjálfa. Það er fráleitt að halda að með því að aðskilja eftirlit og nýtingu séu þeir sem nýta auðlindina firrtir allri ábyrgð.
    Ekki er þó nóg að samræma eingöngu yfirstjórn umhverfismála heldur verður líka að veita auknu fé til þessa málaflokks en það hefur verið allt of lítið og knappt hingað til. En það er trú okkar kvennalistakvenna að með þeirri skipan mála sem við stungum upp á í tillögum okkar verði þessi mikilvægi málaflokkur ekki sama hornreka og hann er núna í flestum ráðuneytum. Honum verði gert hærra undir höfði. Einnig teljum við þetta miklu hagkvæmara en að dreifa málaflokknum um allt stjórnkerfið eins og á sér stað núna. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að erfitt getur verið að gera slíka breytingu á stjórnkerfinu í einu vetfangi. Og því geti verið réttlætanlegt að taka á málinu í áföngum. Heldur finnst okkur þó skammt gengið með þessu frv. sem hér liggur fyrir og hafa kvennalistakonur því lagt fram brtt. á þskj. 720.
    Eins og þingmönnum er kunnugt sátu

kvennalistakonur hjá við afgreiðslu frv. um stofnun umhverfisráðuneytisins, sem er 129. mál., vegna þess að við vildum koma á umhverfisráðuneyti með raunverulegum verkefnum. Það voru okkur mikil vonbrigði að geta ekki greitt stofnun umhvrn. atkvæði okkar hér á Alþingi svo mjög sem við höfðum borið það mál fyrir brjósti. Það er því ástæða til að fagna því að þetta frv. sem kveður á um verkefni ráðuneytisins skuli nú vera komið fram. Eins og fram hefur komið erum við ekki alls kostar ánægðar með það frv. sem hér liggur fyrir en teljum það þó skref í rétta átt. Við hefðum að sjálfsögðu kosið að sjá fyrsta skrefið stærra en nú hefur orðið niðurstaðan.
    Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, sem vann að þessu frv., var Bryndís Brandsdóttir. Það sýnir kannski hve óaðskiljanleg 128. mál og 129. mál, það mál sem við erum að ræða núna, eru að grg. með því frv. sem við erum þegar búin að samþykkja er í raun grg. með frv. sem við erum að fjalla um nú. Þess vegna er ekki hægt annað en að vitna til þeirrar grg. að einhverju leyti og nauðsynlegt að líta á hana í samhengi við þetta.
    Eins og fram kemur á bls. 10 í grg. með frv. til laga um Stjórnarráð Íslands, sem er nú orðið að lögum og er 129. mál, taldi helmingur nefndarmanna, þar með talinn fulltrúi Kvennalistans, að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins ættu að flytjast til umhverfisráðuneytis frá landbrn. en að landbrn. fari þó áfram með mál er varði ræktun skjólbelta og nytjaskóga á bújörðum. Þingkonur Kvennalistans leggja fram brtt. í samræmi við þetta álit og eru þær á þskj. 720.
    Það er í fyrsta lagi tillaga um að Skógrækt ríkisins verði flutt til umhverfisráðuneytisins nema mál er varða ræktun nytjaskóga á bújörðum sem verður áfram hjá landbrn. --- Virðulegi forseti. Ég sakna þess að enginn ráðherra er hér til staðar og hefði kosið að ráðherra umhverfismála væri hér og hlustaði á mál mitt. ( Forseti: Forseti er nú undrandi á því raunar að á þetta skyldi ekki minnst fyrr, en mun nú gera ráðstafanir til að hæstv. umhverfisráðherra gangi í salinn.) Ef hægt er þætti mér vænt um að hæstv. landbrh. væri einnig kvaddur til þessa máls. ( Forseti: Hæstv. umhverfisráðherra gengur nú í salinn.) Ég þakka fyrir. Ég mun halda áfram ræðu
minni. Þessi brtt. sem ég ræði hér um til að byrja með fjallar um flutning milli landbrn. og umhverfisráðuneytis en síðan kem ég að brtt. sem varða heilbrmrh. Ef hann væri hér staddur væri gott að gerðar væru ráðstafanir til þess að þurfa ekki að bíða eftir honum á eftir.
    Fyrsta brtt. varðar flutning á Skógrækt ríkisins nema að því er varðar ræktun nytjaskóga á bújörðum. Samkvæmt því leggja þingkonur Kvennalistans til brtt. þar að lútandi á lögum nr. 3/1955, um skógrækt, sbr. lög nr. 76/1984, þar sem gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfismála nema að því er varðar IV. kafla laganna sem fjallar um ræktun nytjaskóga á bújörðum. Við teljum eðlilegt að þetta sé þannig því að ekki síst með tilliti til laga

um skógrækt, en þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Skógrækt ríkisins skal rekin með því markmiði:
    1. Að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar sem eru í landinu.
    2. Að græða upp nýja skóga þar sem henta þykir.
    3. Að leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs og annars sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur.``
    Ég ætla ekki að lesa meira upp úr þessum lögum, en ef þau eru lesin í gegn kemur í ljós að tilgangur þeirra er fyrst og fremst vegna umhverfisins nema að því er varðar IV. kafla laganna þar sem talað er um ræktun nytjaskóga á bújörðum. Og þess vegna finnst okkur eðlilegt að þessi málaflokkur heyri undir umhverfisráðherra. Ég á frekar erfitt með að skilja hvers vegna meiri hl. allshn. leggur til að þessi málaflokkur sé áfram í landbrn. þegar verið er að stofna umhverfisráðuneyti á annað borð.
    Við leggjum til í öðru lagi að Landgræðsla ríkisins verði flutt frá landbrn. til umhverfisráðuneytis og það sama er uppi á teningnum þar ef litið er á lög um Landgræðslu ríkisins og raunar enn skýrara, en í 1. gr. laganna segir:
    ,,Tilgangur þessara laga er:
    1. Að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs.
    2. Að græða upp eydd og vangróin lönd.``
    Í 2. gr. laganna, eftir að kveðið er á um hvar aðsetur skuli vera, er kveðið nánar á um starfsemina: Sandgræðslu sem er hefting jarð- og sandfoks og græðsla gróðurlausra og gróðurlítilla landsvæða, gróðurvernd sem stuðlar að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu og gróðureftirlit sem fylgist með notkun gróðurs, vinnur gegn ofnotkun hans og skemmdum á gróðurlendi. Það er því greinilegt hver er höfuðtilgangur laganna. Og í samræmi við þetta leggjum við til breytingar á 3., 7., 8., 13. og 23. gr. laganna þar sem í staðinn fyrir orðið ,,landbúnaðarráðherra`` í þessum greinum komi: umhverfisráðherra og þar sem stendur ,,landbúnaðarráðuneyti`` komi: umhverfisráðuneyti. Breytingin felur ekki annað í sér.
    Það eru flestallir sammála því að gróðureyðingin sé stærsta umhverfisvandamál á Íslandi og kemur það m.a. fram í grg. með frv. sem ég vitnaði til áðan, 129. máli, þar sem margoft er tekið fram að eitt stærsta umhverfisvandamál á Íslandi sé gróðureyðingin. Og er ég enn meira undrandi á því að landgræðsla skuli ekki hafa verið flutt yfir til umhverfisráðuneytis. Í viðtali við Ingva Þorsteinsson, deildarstjóra landnýtingardeildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, þann 10. mars sl. sem ber yfirskriftina ,,Við erum enn að tapa stríðinu`` segir hann m.a.:
    ,,Það er alveg ljóst að við erum enn að tapa stríðinu við gróðureyðinguna. Þó sauðfé hafi fækkað mikið um land allt heldur áfram að blása upp og við erum enn á undanhaldi gagnvart gróðureyðingunni.`` Og síðar í þessu viðtali kemur: ,,Víða er uppblásturinn og uppfokið svo mikið að þó að allt sauðfé væri tekið af þeim landsvæðum mundi halda áfram að blása upp þar. Snjóboltinn er kominn á það mikið skrið að

þessum landsvæðum verður tæpast bjargað úr þessu nema þá með miklum tilkostnaði. Við erum komnir yfir þröskuldinn þar.`` Og að lokum er vitnað til hans og sagt í þessari grein: ,,Ingvi sagði að einhver eyðing væri í flestum landshlutum og menn hlytu að átta sig á því að þetta væri mesta umhverfisvandamál Íslendinga í dag.``
    Það er alveg greinilegt að við þurfum að taka okkur verulega á í þessum málum og ég er alveg viss um og hef þá trú að áhugi bænda á uppgræðslu og að koma í veg fyrir gróðureyðingu fari alls ekki eftir því hvar þessi mál eru vistuð í stjórnkerfinu þannig að þeir munu jafnötullega geta unnið að þessum málum þó þau séu í umsjá umhverfisráðuneytis eins og í umsjá landbrn.
    Síðan er í þriðja lagi brtt. sem kvennalistakonur hafa lagt til og felur í sér að Hollustuvernd ríkisins verði klofin, þ.e. að mengunarvarnasvið stofnunarinnar verði flutt undir umhverfisráðuneyti en að hin þrjú meginsvið stofnunarinnar verði áfram í heilbrrn. ( Forseti: Forseti flytur þau skilaboð frá hæstv. landbrh., sem á víst mjög annríkt, að hann kjósi að fá að vita um það bil hvenær hann þurfi að vera hér í sal til þess að fylgjast með umræðu. Hæstv. heilbrrh. er þegar kominn í salinn en landbrh. óskar eftir tímasetningu.) Þar sem forseta er væntanlega ljóst að ég hef nú þegar talað fyrir því sem kom landbrh. við þá treysti ég mér nú ekki til að gera athugasemd við það. Ég vil ekki að hann komi núna því að ég er svo langt komin
með mína ræðu að ég tel ekki ástæðu til þess að láta hann hlaupa hingað nú en það má vel vera að seinna muni ég óska eftir nærveru hans. Ég þakka fyrir að hæstv. heilbrmrh. er kominn í salinn vegna þess að það sem ég vildi nú ræða er um málefni Hollustuverndar ríkisins sem hingað til hafa verið undir yfirstjórn heilbr.- og trmrh.
    Frv. sem við erum hér að fjalla um gerir ráð fyrir því að Hollustuvernd ríkisins flytjist yfir til umhverfisráðuneytis. Ég tel miklu eðlilegra og skynsamlegra að kljúfa stofnunina upp þannig að mengunarvarnasvið hennar flytjist undir yfirstjórn umhverfisráðuneytis en að öðru leyti verði hún í umsjón heilbr.- og trmrn.
    Þau fjögur svið sem Hollustuvernd ríkisins skiptist í eru: heilbrigðissvið sem hefur eftirlit með matvælum og annarri neysluvöru, eiturefnasvið sem hefur eftirlit með eiturefnum í neysluvöru og rannsóknastofa sem hingað til hefur eingöngu haft með höndum gerlarannsóknir í matvælum og vatni og þjónar því eingöngu rannsóknum á neysluvöru. Fjórða sviðið er mengunarvarnasviðið sem hefur haft víðtæku hlutverki að gegna á sviði mengunarvarna. Rannsóknastofa mengunarvarnasviðs er ekki til staðar hjá Hollustuvernd ríkisins. Rannsóknastofan sem þar er hefur eingöngu þjónað hinum tveimur sviðunum og ekki eru horfur á neinni breytingu þar á eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið. Þess vegna hefur mengunarvarnasviðið verið dálítið afskipt innan stofnunarinnar og ekki haft mikil samskipti við önnur

svið að því er best verður séð af þeim upplýsingum sem koma fram í umsög starfsmanna. Meiri hluti Hollustuverndar ríkisins telur ekki eðlilegt að stofnuninni verði skipt, og færir fyrir því ýmis rök, og telur ekki eðlilegast að stofnunin flytjist yfir í umhverfisráðuneyti. En af tveimur slæmum kostum, eins og þeir segja hér með leyfi hæstv. forseta, að kljúfa stofnunina eða flytja til umhverfisráðuneytis, telja þeir skárra að flytja stofnunina. Meiri hluti forstöðumanna stofnunarinnar var sammála þessari skoðun, þeir mæla gegn því að kljúfa stofnunina en vilja frekar að hún fari yfir til umhverfisráðuneytis. Þeir færa fyrir því ýmis rök, sem ég tel ekki vera nægjanlega sterk, að ekki sé hægt að kljúfa stofnunina, benda m.a. á að eftirlitshlutverk heilbrigðisnefnda yrði breytt og fyrir eftirlitsmenn sem hafa haft með höndum eftirlit í sveitarfélögum muni þetta verða bæði flókið og erfitt. Ég held að þetta sé nú einhver misskilningur og að bæði heilbrigðisnefndir og eftirlitsmenn gætu haldið áfram að starfa að þeim málum, bæði mengunarvarnamálum og heilbrigðiseftirliti, þó svo að þá þurfi að hafa samskipti við tvö ráðuneyti. Ég á erfitt með að sjá að það þurfi endilega að vera svo erfitt.
    Mig langar til að vitna örlítið í umsögn starfsmanna mengunarvarnasviðs Hollustuverndar ríkisins. Þeir segja m.a.:
    ,,Við erum þeirrar skoðunar að flutningur mengunarvarnasviðs stofnunarinnar í umhverfisráðuneyti sé forsenda þess að unnt verði að sinna þessum mikilvæga málaflokki á viðunandi hátt.`` Síðar segja þeir: ,,Heilbrigðisftirlit og rannsóknastofa Hollustuverndar ríkisins hafa yfirumsjón með almennu heilbrigðis- og matvælaeftirliti og vegur matvælaþátturinn þar mest. Ef rök mæla með því að matvælaeftirlit á vegum heilbrrn. eigi að fara undir umhverfisráðuneyti, þá vaknar sú spurning hvort hið sama eigi ekki við um umfangsmeira matvælaeftirlit t.d. á vegum landbrn. og sjútvrn. Okkur er ekki kunnugt um að matvælaeftirlit í nágrannalöndun sé undir umhverfisráðuneyti.``
    Ég er þessu fyllilega sammála og langar þess vegna til þess að spyrja bæði heilbr.- og umhverfisráðherra hvort þeir telji það óframkvæmanlegt að kljúfa stofnunina og hvort þeir telji ekki eðlilegt að þessi tvö svið verði klofin upp, þ.e. heilbrigðiseftirlitið, matvælaeftirlitið og svo mengunarvarnir.
    Mig langar aðeins að vitna meira í umsögn starfsmanna mengunarvarnasviðs, en þar segir síðar:
    ,,Helstu rannsóknum á mengun hér á landi utan mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins hefur verið sinnt af stofnunum eins og Háskóla Íslands, Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands, Iðntæknistofnun og fleiri. Þá hefur Náttúruverndarráð verið óþreytandi að benda á óleyst verkefni. Af þessu hefur leitt að starfsmenn mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins hafa aðallega átt samskipti við aðila utan stofnunarinnar en síður önnur svið hennar.`` Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Og svo að lokum segja þeir hér: ,,Við sjáum ekki að það muni hafa

nein áhrif á samskipti mengunarvarna við heilbrigðisfulltrúa eða aðra starfsmenn sveitarfélaga þó aðeins mengunarvarnasvið Hollustuverndar ríkisins fari undir umhverfisráðuneyti.``
    Þetta finnst mér mjög mikilvægt og þess vegna er brtt. flutt um það að heilbr.- og trmrn. fari með yfirumsjón þessara mála annarra en mengunarvarnamála og síðan er brtt. í samræmi við það annars staðar í lögunum.
    Í frv. eins og það liggur nú fyrir er gert ráð fyrir að mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar verði sett undir umhverfisráðuneyti en að stofnunin að öðru leyti verði áfram undir yfirstjórn samgrn. Ætti því ekkert að verða því til fyrirstöðu að hið sama verði gert að því er varðar Hollustuvernd ríkisins.
    Fyrir nokkrum árum voru Geislavarnir ríkisins hluti af Hollustuverndinni en
sú deild var klofin frá og gerð að sjálfstæðri stofnun. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að það sama geti gerst á jafnfarsælan hátt með mengunarvarnasvið Hollustuverndar ríkisins. Eðlilegt er svo að síðar verði unnið að því að sameina mengunarvarnasvið Siglingamálastofnunar og Hollustuverndar ríkisins, Geislavarnir ríkisins og e.t.v. fleiri stofnanir í eina mengunarvarnastofnun. Starfsemi Geislavarna ríkisins er nú að stærstum hluta á sviði heilbrigðismála en reynsla annarra þjóða sýnir að búast má við að æ stærri þáttur starfseminnar snúist að ytra umhverfi.
    Virðulegur forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir afstöðu Kvennalistans í þessu máli. Ég er alveg sannfærð um að þegar hv. þm. hafa kynnt sér brtt. Kvennalistans munu þeir að sjálfsögðu greiða þeim atkvæði. Þessar tillögur eru aðeins hógværar tillögur en auðvitað verður að halda áfram þó að hér sé ekki stigið stórt skref. Mig langar, virðulegur forseti, að ljúka máli mínu með því að lesa lítinn kafla úr stefnuskrá Kvennalistans en þar segir í kaflanum um umhverfismál:
    ,,Framtíð mannkyns veltur á því hvernig við umgöngumst náttúruna, hvernig við nýtum gögn hennar og gæði og hvort við berum gæfu til að bæta úr þeim spjöllum sem við höfum valdið henni. Móðir jörð setur ákveðin lögmál. Maðurinn gengur þvert á mörg þeirra á leið sinni að hámarks skammtímagróða og tekur hvorki tillit til hagsmuna heildarinnar, jarðar né framtíðar. Umhverfisvernd er að ganga um hverja auðlind með virðingu og nærgætni, taka aðeins vextina en láta höfuðstólinn ósnertan til að afkomendur okkar fái notið sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir.``